Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Skoðun 3. desember 2018
Fullveldi fyrir hvern?
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslendingar halda upp á 100 ára fullveldisafmæli laugardaginn 1. desember. Það kann að hljóma undarlega að á sama tíma sé öflugur hópur Íslendinga með stuðningi talsmanna Evrópusambandsins í harðri baráttu fyrir því að Íslendingar afsali sér hluta af þeim fullveldisrétti sem náðist fram 1918.
Þetta er samt sá blákaldi veruleiki sem Íslendingar standa frammi fyrir í dag með kröfunni um að Íslendingar samþykki orkupakka 3 frá Evrópusambandinu. Þetta hlýtur að teljast argasta móðgun við alla þá baráttumenn og -konur sem lögðu allan sinn metnað í að Ísland fengi fullveldisrétt frá Dönum og síðan fullt sjálfstæði.
Það er engin spurning í augum fjölmargra sem til þekkja að samþykkt orkupakka 3 felur í sér ákveðið fullveldisafsal. Það er m.a. skoðun forystumanna þáverandi ríkisstjórnar sem luku samningum Íslands um EES-samninginn sem samþykktur var á Alþingi 12. janúar 1993. Bæði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hafa lýst andstöðu sinni við að Íslendingar samþykki nú innleiðingu á orkupakka 3 frá Evrópusambandinu. Þeir vara Íslendinga við afleiðingum slíkrar innleiðingar sem Íslendingum sé auk þess fullkomlega heimilt að hafna. Á móti hafa áróðursmeistarar fyrir innleiðingu orkupakkans stillt upp þeirri hótun að Íslendingum kunni að verða refsað í gegnum EES-samningana sem verði þá í uppnámi. Þessi hótun er hreint bull. Í aðsendri grein í Bændablaðinu í dag tekur norski lagaprófessorinn Peter Ørebech af öll tvímæli um þetta:
„EES-löndin geta hvenær sem er beitt slíku neitunarvaldi gegn nýjum ónothæfum og óframkvæmanlegum reglugerðum og tilskipunum frá Evrópusambandinu. Þetta þýðir að Ísland, Lichtenstein og Noregur hafa fullan rétt þegar þau sjá ástæðu til að beita slíku neitunarvaldi. Evrópusambandið getur ekki brugðist við því með viðurlögum.“
Það er afar athyglisvert að þeir sem berjast hvað harðast fyrir því að Íslendingar innleiði orkupakka þrjú hafa ekki getað sýnt fram á að Íslendingar hafi einhvern hag af slíkri innleiðingu.
Tilgangurinn með innleiðingu orkupakkans er að koma Íslandi undir regluverk ESB í orkumálum. Gera Ísland um leið beinan þátttakanda í innri markaði ESB um orkumál. Það þýðir að yfirstjórn þeirra mála fer undir ACER, yfirþjóðlega stofnun ESB þar sem Íslendingar hafa engin lögformleg áhrif. Síðan fara öll ágreiningsmál varðandi orkumálin úr okkar höndum og undir lögsögu dómstóla úti í Evrópu. Innleiðing orkupakkans þýðir líka að galopnað verður fyrir lagningu sæstrengs til Evrópu.
Áhugi ákveðinna afla fyrir innleiðingu orkupakkans snýst um peninga og reyndar gríðarlega mikil verðmæti og völd. Um leið og Ísland er orðið beinn þátttakandi í orkumarkaði Evrópu, þá verður óheimilt fyrir íslenska ríkið að halda Landsvirkjun úti sem ríkisfyrirtæki með um eða yfir 80% markaðshlutdeild. Þá verður Íslendingum skylt að skipta Landsvirkjun upp í einingar og þá skapast grundvöllur fyrir að einkavæða fyrirtækið í einingum. Um þetta snýst málið og augljóst að þarna bíða fégráðugri athafnamenn við þröskuldinn eftir að geta læst klónum í þessa einstæðu auðlind sem íslenska raforkukerfið er.
Væri ekki æskilegt, svona fyrir kurteisissakir á 100 ára fullveldisafmælinu, að áhugamenn fyrir innleiðingu orkupakka 3 upplýsi þjóðina um hvað raunverulega liggi að baki þessum ofuráhuga þeirra á að innleiða svo afdrifaríkar skuldbindingar sem engin þörf virðist vera á?