Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Góður gangur
Skoðun 12. mars 2021

Góður gangur

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Heimsfaraldur af völdum COVID-19 hefur hrist heldur betur upp í samfélög­um manna um allan heim og fengið fólk til að átta sig á að góð heilsa er ekki jafn sjálfgefið fyrirbæri og við höfum flest talið. Þá hefur COVID haft mikil áhrif á hegðun fólks og efnahagslíf þjóða.

Íslendingar eru sennilega betur settir en margar aðrar þjóðir í þessum heimsfaraldri af ýmsum ástæðum. Hér var efnahagsstaða ríkisins ótrúlega góð til að takast á við áfall af þessum toga. Þá hefur okkur auðnast að fara að verulegu leyti eftir leiðbeiningum sérfræðinga sem hefur reynst okkur farsælt.

Vissulega var það mikill skellur að missa nær alveg þá veigamiklu stoð sem ferðaþjónustan er úr atvinnulífinu svo að segja í einu vetfangi. Eigi að síður hefur Íslendingum tekist að halda uppi tiltölulega stórum hluta atvinnulífs sem er meira en hægt er að segja um margra aðrar þjóðir. Lögð hefur verið mikil áhersla á að halda matvælaframleiðslu gangandi eins og landbúnaði og sjávarútvegi, enda er fátt mikilvægara á svona tímum en að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er því ekki nein tilviljun að þjóðir heims hafi lagt ofuráherslu á fæðuöryggi sitt, því flestum er ljóst að ef menn geta ekki brauðfætt sig sjálfir þá er ekki á vísan að róa með aðstoð þegar í harðbakkann slær.

Á Íslandi poppa samt upp annað slagið vitringar sem hafa gert lítið úr fæðuöryggisumræðunni. Sama fólk gerir gjarnan lítið úr hættu á að hingað berist sýklalyfja­ónæmar bakteríur. Samt er útbreiðsla ofurbaktería talin vera af helstu faraldssérfræðingum heims mesta viðvarandi ógn við lýðheilsu jarðarbúa, jafnvel að COVID-19 faraldrinum meðtöldum.

Það er líka dapurlegt að fylgjast með því þegar úr hópi ríkisrekinna sérfræðinga berast stöðugar neikvæðar raddir í garð íslensks landbúnaðar þar sem látið er í veðri vaka að það sé einsdæmi á heimsvísu að landbúnaður njóti ívilnunar af hálfu ríkisins eins og hér er gert. Þessu sama fólki finnst svo ekkert siðferðilega athugavert við það að kaupa helst öll okkar matvæli frá útlöndum sem eru niðurgreidd í stórum stíl af viðkomandi ríkjum.

Óneitanlega er svolítið pirrandi að heyra svo sömu fræðimenn flytja síbylju um að Bændablaðið sé rekið fyrir fé úr ríkissjóði. Undirritaður hefur starfað við þennan fjölmiðil í rúm tíu ár og allan þann tíma hafa auglýsingatekjur staðið undir rekstrarkostnaði blaðsins og oftast gott betur. Kannski er þessi tilraun til að sverta blaðið í augum almennings sprottin af öfund, því þekkt er að sumir þola ekki velgengni annarra og alls ekki ef sú velgengni er sprottin af eigin verðleikum.

Til fróðleiks má geta þess að frá 2010 hefur stærð blaðsins aukist um 180% og upplag um nærri 58% þó starfsmannafjöldi sé enn sá sami. Auglýsingatekjur hafa haldist nokkuð vel í hendur við vaxandi gengi blaðsins. Bændablaðinu er dreift frítt en ekki troðið upp á nokkurn mann. Áhugsamir verða því að hafa fyrir því að sækja sér blað ef þeir vilja lesa það. Lesendakannanir Gallup árum saman hafa líka staðfest mikinn meðbyr. Hefur það verið vinsælasti prentmiðillinn á landsbyggðinni um árabil og var fyrir COVID komið í annað sæti yfir landið allt ef höfuðborgarsvæðið er tekið inn í myndina. Vissulega hefur heimsfaraldurinn haft nokkur áhrif á dreifingu Bændablaðsins, en tryggð og velvilji lesenda hefur samt haldist ótrúlega vel og sömu sögu er að segja af tekjustreymi. Öllu tali um ríkisrekstur á Bændablaðinu er því enn og aftur vísað til föðurhúsanna. 

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...