Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hjarta garðyrkjunnar slær á Reykjum
Skoðun 12. febrúar 2020

Hjarta garðyrkjunnar slær á Reykjum

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Garðyrkjuskóli LbhÍ á Reykjum í Ölfusi er eini stað­urinn á landinu sem býður upp á formlegt garðyrkjunám og hefur gert í ríflega 80 ár. Þar er starfrækt Starfs- og end­ur­menntun Landbúnaðar­há­skólans í garðyrkjufræðum.

Í dag er boðið upp á nám á sex námsbrautum, blómaskreytingum, garð- og skógarplöntuframleiðslu, lífrænni ræktun matjurta, ylrækt, skógtækni og skrúðgarðyrkju, sem er löggilt iðngrein.

Námið tekur tvo vetur við skólann en að auki þurfa nemendur að fara í verknám í alls 60 vikur í þeirri grein garðyrkjunnar sem þeir hafa ákveðið að leggja stund á. Fjöldi nemenda við skólann hefur verið í kringum 60 manns undanfarin ár og eru nemendur bæði í staðarnámi og fjarnámi, auk þess sem nemendur hafa komið í skólann í gegnum raunfærnimat.

Samstarf við græna geirann í 80 ár

Frá upphafi hefur verið mikið og gott samstarf milli skólans og atvinnulífs garðyrkjunnar og er slíkt samstarf ómetanlegur ávinningur fyrir báða aðila og þorri starfandi garðyrkjubænda og annarra sem stunda garðyrkjutengdan rekstur hafa lært sitt fag á Reykjum. Skóli er þó ekki bara húsakynni og framboð af námsbrautum, hjarta skólans slær í þeim mannauði sem skólinn hefur á að skipa. 

Í sérhæfðu starfsmenntanámi, eins og því sem fram fer að Reykjum, skiptir mestu máli að þeir sem halda utan um og koma að kennslunni hafi bæði fræðilega og ekki síst hagnýta þekkingu í faginu og þar koma nemendur svo sannarlega ekki að tómum kofunum. Allir núverandi sérfræðingar skólans hafa unnið um lengri eða skemmri tíma á sínu sviði garðyrkjunnar, hafa tekist á við margvíslegar áskoranir og þurft að leysa vandamál, hafa reynt hlutina á eigin skinni og eru fúsir til að miðla þessari reynslu til nemenda. Að sama skapi er þessi hópur vel heima í fræðunum og fylgist grannt með helstu nýjungum í garðyrkjunni, allt í þeim tilgangi að tryggja sem best gæði garðyrkjumenntunar í landinu.

Samstilltur hópur starfsólks við kennslu og ræktunarstörf

Á Reykjum starfar öflugur hópur kennara og starfsfólks við fræðslu og ræktunarstörf. Hópurinn hefur þá hugsjón að efla garðyrkjufræðslu sem er sérsniðin að þörfum íslenskrar garðyrkju.

Við gróðrarstöð skólans starfar reynslumikið fagfólk við umönnun plantna og tilrauna­störf. Meðal áhersluefna í tilraunamálum eru prófanir á nýjum ræktunaraðferðum og tegundum. Undanfarin ár hefur mest áhersla verið lögð á að finna hagkvæmustu leiðir við vetrarlýsingu grænmetis og berja. Þær rannsóknir eru unnar í náinni samvinnu við íslenska garðyrkjubændur og hafa gagnast þeim vel.

Endurmenntun einn grunnþátta í skólastarfinu

Á Reykjum fer fram námskeiða­hald sem beinist að endurmenntun í græna geiranum. Bæði er horft til þeirra sem starfa við fagið á einn eða annan hátt og vilja efla kunnáttu sína og kynnast nýjungum í faginu, sem og fræðslu til almennings í ýmsum garðyrkjutengdum þáttum, td. skógrækt og nýtingu skógarafurða, matjurtaræktun, garðaumhirðu og blómaskreytingum.

Undanfarin 15 ár hefur Guðríður Helgadóttir garðyrkju­fræðingur verið farsæll for­stöðu­maður starfs- og endur­menntunardeildar LbhÍ og staðarhaldari á Reykjum. Hún kennir lykilfög við skólann og er landsþekkt fyrir öfluga kynningu á garðyrkjufaginu meðal almennings. Guðríður hefur fengist við garðyrkjustörf frá unglingsaldri og býr yfir mikilli fagþekkingu og víðtækri ræktunar­reynslu. Það er einlæg von alls starfsfólks að á Reykjum verði hér eftir sem hingað til rekið metnaðar­fullt starfsmenntanám í garðyrkjutengdum greinum í þágu íslenskrar garðyrkju.

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...