Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Húsameistari ríkisins
Skoðun 29. ágúst 2014

Húsameistari ríkisins

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Fyrsta veturinn sem ég bjó í Reykjavík bjó ég í bílskúr í Skerjafirði. Það var ekki vistlegasta vistarvera sem ég hef komið í en var þó hátíð hjá hinum leiguíbúðunum sem mér buðust þegar ég fór að kanna leigumarkaðinn. En eftir því sem leið á veturinn fóru þó að renna á mig tvær grímur. Svo virtist sem einangrun hefði ekki verið þeim efst í huga sem byggði umræddan bílskúr.

Ég man svo sem ekki hvort veturinn 1999 til 2000 var óvenju kaldur eða ekki. Hitt veit ég að mér hefur ekki verið eins kalt í annan tíma eins og þann vetur. Þegar ég fór að sofa neyddist ég til að sofa með sængur, teppi og svefnpoka yfir mér og oft alklæddur í þokkabót. Ég stóð mig að því að taka alla aukavinnu sem ég náði í, ekki bara vegna þess að ég væri skítblankur, heldur vegna þess að mér hraus hugur við því að dvelja í kuldanum heima.

Svo leið þessi vetur og vorið kom og ég þiðnaði smátt og smátt. En þá tók við húsnæðisleit að nýju því leigusamningurinn var runninn út. Það sumar leigði ég fokdýra íbúð við Kleppsveg. Sveiflur í hitastigi voru allmiklar milli vetursins og sumars. Þetta sumar var nefnilega óhemjuheitt. Svefnherbergið mitt sneri út að götunni og ég komst að því að þungaflutningar fara fram allan sólarhringinn. Í það minnsta var vonlaust að reyna að hafa opinn glugga ef von átti að vera á svefni. Þetta sumar svitnaði ég því hverja nótt í stað þess að skjálfa úr kulda eins og veturinn áður. Og enn mátti ég leita að húsnæði þegar haustaði.

Fram á haust 2003 bjó ég í sex leiguíbúðum og fékk inni hjá aðstandendum um skeið. Þrátt fyrir að þar fari hið mesta prýðisfólk mæli ég ekki með því fyrirkomulagi. Um haustið keypti ég mér svo mína fyrstu íbúð, aðallega vegna þess hversu hundleiður ég var orðinn á óörygginu á leigumarkaðinum.

Íbúðin kostaði 8,5 milljónir. Nokkrum árum seinna, 2006 eða 2007, lét ég verðmeta hana. Fasteignasalinn sagði mér að ég gæti fengið 19,5 milljónir fyrir hana þá. Ekki veit ég af hverju ég seldi ekki þá. Þegar ég hins vegar seldi, haustið 2009, seldi ég á 14,7 milljónir. Þegar búið var að borga lánin, stimpilkostnað, önnur gjöld og þóknun til fasteignasala, hafði ég efni á að fara þokkalega út að borða. Svona eru nú hlutirnir stundum skrýtnir.

Við búum núna við fasteignamarkað sem er sturlaður. Ég þekki dæmi um fólk sem er að fara að leigja 80 fermetra íbúð á 190.000 krónur á mánuði og þarf að standa skil á þriggja mánaða tryggingu áður. Annað dæmi er um fólk sem er að missa þriðju leiguíbúðina á einu og hálfu ári. Þar er um að ræða 90 fermetra íbúð í fjölbýli í Vesturbænum sem settar eru 40 milljónir króna á.

Aðrir hafa svo sem bent á þetta á undan mér. En mér finnst augljóst að það verði að bregðast við og það strax. Annars verður hér kynslóð fólks sem aldrei getur keypt sér húsnæði og er háð duttlungum ótryggs leigumarkaðar. Þessi staða gæti líka haft áhrif á menntunarstig í landinu þar eð landsbyggðarfólk getur sumt hvert ekki klofið þann kostnað sem leiga er, ef það á annað borð fær einhverja íbúð leigða. Svo snúið sé út úr orðum skáldsins segi ég: Húsameistari ríkisins, meir, meir!

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...