Hvert er innihaldið?
Umræða um upprunamerkingar og innihaldslýsingar á matvælum kemur upp reglulega enda um nauðsynjamál að ræða. Neytendur eiga að sjálfsögðu rétt á að vita hvaðan maturinn þeirra kemur og hvað hann inniheldur. Rangar og villandi upplýsingar koma sér illa fyrir alla.
Ein af þeim sögum sem skotið hafa upp kollinum og tengist villandi upplýsingum um innihaldslýsingar fjallar um fjölþjóðlegt matvælafyrirtæki sem framleiðir barnamat. Samkvæmt sögunni ætlaði fyrirtækið að stækka markaðssvæði sitt og lagði út í mikinn kostnað við að auka sölu barnamatar á svæðum þar sem ólæsi var mikið.
Markaðssetningin misheppnaðist hins vegar gersamlega og fyrirtækið tapaði stórfé. Í góðri trú notaði það sömu mynd í auglýsingaherferð sinni og á umbúðirnar og það hafði gert með góðum árangri á Vesturlöndum. Myndin á umbúðunum sýndi ungbarn sem brosti út að eyrum.
Markaðstæknar og auglýsingafræðingar fyrirtækisins reiknuðu ekki með menningarlegum mun svæðanna. Stór hluti væntanlegra kaupenda var ólæs og reiddi sig á myndir þegar hann valdi vörur í verslunum. Fólkið ályktaði sem svo að myndin af barninu á umbúðunum lýsti innihaldi þeirra og að fólk á Vesturlöndum hakkaði niður börn og borðaði þau úr dósum.
Kjúklingar í flöskum
Í svipaðri sögu er sagt frá kínverskum innflytjendum í Bandaríkjunum sem ekki kunna að lesa og reiða sig því á myndirnar á umbúðum neysluvara. Kínverjarnir kaupa flösku af kryddolíu með mynd af kjúklingi og skilja ekkert í því að kjúklingurinn skuli ekki renna úr flöskunni þegar þeir reyna að hella honum á diskinn.
Ólíkir eiginleikar M&M
Hugmyndir um innihaldseiginleika matvæla geta tekið á sig sérkennilegar og huglægar myndir. Allt frá því M&M sælgæti kom á markað hafa verið uppi sögusagnir um mismunandi eiginleika hinna ólíku kúlna. Ef síðasta kúlan í pokanum er rauð er hægt að óska sér og ef hún er gul á sá sem hana fær að halda sig heima við daginn eftir. Appelsínugular kúlur veita gæfu en brúnar ógæfu.
Rétt eftir 1970 fóru af stað sögur þess efnis að grænt M&M væri frábær kynhvati sem kæmi lötustu karlmönnum á fætur og kveikti undir hjá kynköldustu konum.
Vil vita hvað ég er að borða
Til skamms tíma reiddi ég mig nánast eingöngu á útlit umbúða við innkaup og eftir því sem myndirnar og litirnir höfðuðu meira til mín því meira keypti ég. Í seinni tíð hef ég í auknum mæli farið að lesa innihaldslýsingar og upprunamerkingar.
Ég vil einfaldlega vita hvað ég er að kaupa og hvaðan það kemur. Það að umbúðir höfði til barna þýðir ekki endilega að innihaldið sé þeim hollt. Íslandsnaut frá Spáni eða baul í fernu er ekki það sem mig langar í þegar ég kaupi mér nautasteik og mjólk.