Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Í aðdraganda Búnaðarþings
Skoðun 23. janúar 2020

Í aðdraganda Búnaðarþings

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands - gst@bondi.is

Umhverfi landbúnaðarins hefur breyst hratt undanfarna áratugi með tilkomu nýrrar tækni, hagræðingar og aukinnar framleiðslugetu. Breytingarnar halda áfram en nú í formi harðnandi samkeppni við innfluttar vörur, neyslubreytingar og aðkallandi verkefna í loftslagsmálum.

Sveitirnar hafa líka tekið miklum breytingum. Þar sem á árum áður var nánast eingöngu stundaður hefðbundinn  búskapur er nú fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Það er því ekki sjálfgefið að búseta í sveit þýði endilega að fólk stundi þar búskap. Umhverfis- og loftslagsmál eru aðkallandi verkefni og þar er landbúnaðurinn tilbúinn að leita lausna og leiða.

Minnkum loftslagsáhrif landbúnaðar

Nefnd er að störfum við vinnslu umhverfis­stefnu landbúnaðarins sem rædd verður á Búnaðarþingi í byrjun mars. Þar verða sett fram metnaðarfull markmið um aðgerðir sem eiga að draga úr kolefnislosun, stuðla að sjálfbærari nýtingu lands og vistheimt. Nefndin kynnti vinnu sína á formannafundi í október síðastliðnum og fékk mjög jákvæðar viðtökur. Í íslenskum landbúnaði eru tækifæri til að minnka losun og bæta nýtingu líkt og í öðrum greinum. Nú þegar eru verkefni í vinnslu sem stuðla að því að minnka metanmyndun í meltingarvegi dýra en það er einn þáttur sem veldur losun. Bætt nýting búfjáráburðar og hagkvæmari áburðarnotkun eru leiðir sem við erum áhugasöm um til að minnka loftslagsáhrif landbúnaðar. Einnig er verið að skoða möguleika á aukinni innlendri fóðuröflun sem gæti orðið áhugavert nýsköpunarverkefni.

Gerum íslensk matvæli enn þá betri og umhverfisvænni

Ísland býr yfir gífurlegum möguleikum þegar kemur að grænni landbúnaði. Jarðhitaorka og vatnsorka eru mun umhverfisvænni orkugjafar en eru notaðir í miklum mæli víða annars staðar. Auk þess eru nær ónýtt tækifæri í nýtingu vindorku og metanorku. Spurningin er, hvernig viljum við nýta þessa möguleika til að gera gott betra? Hvernig getum við til dæmis nýtt þessa orkugjafa í tengslum við fóðuröflun og betri nýtingu búfjáráburðar? Víða liggja tækifæri til að gera betur í dag en í gær og stefna í þá átt að gera íslensk matvæli enn þá betri og umhverfisvænni. En þetta snýst ekki eingöngu um möguleikana heldur erum við að því leyti heppin að við erum á tiltölulega góðum stað. Nægt vatn, við erum rík af auðlindum og erum vel sett hvað varðar litla notkun sýklalyfja og varnarefna í landbúnaði. Það eru í raun forréttindi að hafa tækifæri til þess að hefja vegferðina frá þeim stað sem við erum stödd á í dag.

Endurskoðun félagskerfis bænda

Félagskerfi landbúnaðarins verður til umfjöllunar á Búnaðarþingi. Eftir síðasta þing árið 2018 var skipuð nefnd sem var falið það flókna hlutverk að koma með tillögur að allsherjar endurskipulagningu á því. Þar var lagt upp með að horft yrði til uppbyggingar systursamtaka Bændasamtakanna í nágrannalöndunum. Nefndin kynnti vinnu sína á formannafundi í október síðastliðnum. Í framhaldi af því bauð hún stjórnum aðildarfélaga á kynningarfundi og fólki gafst kostur á að koma með ábendingar til nefndarinnar um það sem betur mætti fara. Þessi vinna verður til umfjöllunar á þinginu en gera má ráð fyrir að talsverðar umræður spinnist um hvernig bændur vilja sjá félagskerfið þróast á næstu árum.

Samhliða endurskoðun félagskerfisins þarf að fjalla um það hvernig við hyggjumst reka Bændasamtökin til framtíðar. Eftir aflagningu búnaðargjalds er það alveg ljóst að tekjur af félagsgjöldum eins og þau eru í dag eru rúmum þriðjungi undir þeim tekjum sem samtökin höfðu úr að spila áður fyrr. Við þurfum að ræða það hvernig við hyggjumst takast á við breytta rekstrarstöðu. En þegar öllu er á botninn hvolft er það úrlausnarefni sem við þurfum að leysa með samstilltu átaki. Það er ekki ókeypis að reka öfluga hagsmunabaráttu. Slagkrafturinn verður mun meiri ef við stöndum þétt saman.

Formannskjör í mars

Á ársfundi Bændasamtakanna í Hveragerði á síðasta ári tók ég við sem formaður BÍ. Síðasta ár hefur liðið hratt enda nóg af verkefnum sem takast þurfti á við og margt nýtt að læra. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa sem formaður Bændasamtakanna. Mig langar til að vinna áfram að hagsmunum íslenskra bænda og leggja mitt af mörkum til að gera landbúnaðinn öflugri og sterkari í samfélaginu og í vitund alls almennings. Ég mun gera mitt allra besta til að vinna að þeim markmiðum fái ég stuðning til þess á næsta Búnaðarþingi.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...