Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Við Kópasker.
Við Kópasker.
Mynd / HKr.
Skoðun 27. febrúar 2018

Innviðanauðsyn

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samgöngu-, fjarskipta- og raforkumál er lykillinn að því að nútímasamfélag geti þrifist. Þá er bara svo einfalt og þá skiptir engu máli hversu mjög kjörnir þjónar almennings á Alþingi reyna að réttlæta óviðunandi stöðu í þeim málum.
 
Mikið og þakkarvert átak hefur verið gert í uppbyggingu ljósleiðarakerfis um landið og er þar enn unnið á fullum krafti. Öðru máli gegnir um uppbyggingu dreifikerfis raforku sem og viðhald og uppbyggingu vegakerfisins. Þar eru menn hreinlega með allt niðrum sig. 
 
Varðandi raforkukerfið þá er það ansi aumt að hin 150 megawatta Blönduvirkjun, sem tekin var í gagnið 1991 og á að geta skilað 910 gígawattstundum af raforku á ári, hafi aldrei nýst að fullu. Í 27 ár hefur aldrei verið hægt að nýta afkastagetu virkjunarinnar vegna þess að dreifikerfið frá stöðinni er ekki nógu öflugt. Á borði umhverfisráðherra mun liggja erindi frá fyrrverandi aðstoðarmanni sem mun sannarlega ekki hjálpa til við að leysa dreifikerfismálin á því svæði. Á sama tíma æpa menn á aukna raforku í ört vaxandi byggð á Eyjafjarðarsvæðinu og horfa helst á dísilrafstöðvar til að geta mætt þar hreinu neyðarástandi. – Halló, herra forseti, var nokkur í þingsal Alþingis að tala um að draga úr útblæstri koltvísýrings á Íslandi?
 
Talað er um aukna rafbílavæðingu, ekki síst í sveitum landsins. Ef vel á að vera er alveg ljóst að þar skortir víða verulega á afhendingaröryggi, sérstaklega á Vestfjörðum, sem og þriggja fasa raflagnir. Á Vestfjörðum er líka lykilatriði að menn komi á hringtengingu á raforku, öðruvísi verður aldrei hægt að tryggja afhendingaröryggi í fjórðungnum. 
 
Talandi um hringtengingu raforku­kerfisins á landinu í heild, þá er hún harla máttlaus. Þar er um að ræða langa kafla mjög víða utan suðvesturhluta landsins þar sem raforkukerfið getur ekki sinnt neinni auka raforkumiðlun á milli landshluta ef á þarf að halda. 
 
 Vegamálin eru svo sér kapítuli út af fyrir sig en samt hluti af órjúfanlegri heild. Þar hafa ráðherrar og þingmenn árum saman reynt að skýla sér á bak við fjármagnsskort og segja að lengra verði vart gengið í vegamálum nema að setja á vegtolla og nýja skatta eins og kolefnisgjald. Á sama tíma tala þessir sömu menn um aukna rafbílavæðingu, þar sem síaukinn fjöldi rafbíla borgar ekki krónu vegna slits á vegakerfinu. 
 
Það verður að segjast eins og er að það er ansi aumt af ráðherrum og þingmönnum að grípa helst til þess ráðs að snúa út úr umræðunni þegar þeim er bent á, að á fimm ára tímabili er verið að innheimta af eigendum ökutækja 330 milljarða króna í skatta og gjöld. Þar af er EKKI verið að nota til vegamála 258 milljarða króna. Þá koma þingmenn og ráðherrar og reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að þessir skattar og gjöld séu ekki beinlínis eyrnamerktir vegamálum. Það er bara ekki það sem verið er að tala um, þessir hundruð milljarða eru sannarlega dregnir upp úr vösum ökutækjaeigenda, að vísu að mjög litlu leyti úr vösum rafbílaeigenda. Það eru því innheimtir miklu meira en nægjanlegir fjármunir af umferðinni til að standa straum af kostnaði við umferðarmannvirkin. Á yfirstandandi ári verða þetta yfir 73 milljarðar króna, en ekki er ætlunin að setja í viðhald og nýbyggingu nema rétt rúmlega 21 milljarð króna. Menn eru því sannarlega að innheimta af eigendum ökutækja á þessu ári einu saman um 52 milljarða umfram það sem nýta á í vegakerfið. Svo leyfa menn sér að snúa út úr þessu og gaspra um skort á fjármunum til málaflokksins í stað þess að nýta til þess gjöldin af umferðinni. 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...