Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu en ekkert bólar á nýrri miðstöð á Hvanneyri þrátt fyrir að fjármögnun vegna uppbyggingarinnar hafi verið tryggð árið 2021 við sölu Korpulands.
Um áratugaskeið var starfsemi Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ staðsett í landi Korpu þar sem tilraunir fóru fram. Aðstaðan vék fyrir uppbyggingu íbúðabyggðar og Borgarlínu og var færð upp á Hvanneyri árið 2018 og hefur síðan þá verið staðsett í gamla bútæknihúsinu á Hvanneyrartorfunni. Sú bygging, gjarnan kölluð Gamla Bút, var reist árið 1963 og er mjög illa farin. Aðstaða sem var talin ófullnægjandi og heilsuspillandi og er enn í dag metin óboðleg fyrir daglega starfsemi. Áform hafa verið um byggingu nýrrar jarðræktarmiðstöðvar á Hvanneyri og var hún m.a. fjármögnuð með sölu Korpulands. Verkefnið fékk byr undir báða vængi þegar Magnús Óskarsson, fyrrverandi kennari við LbhÍ, arfleiddi skólann að öllum eigum sínum árið 2020, til uppbyggingar á rannsókna- og kennsluaðstöðu til jarðræktarfræða. Árið 2021 gerðu LbhÍ og þáverandi mennta- og menningamálaráðherra með sér samkomulag en skv. minnisblaði átti að tryggja fjárveitingu til uppbyggingar jarðræktarmiðstöðvar, afla heimildar til kaupa LbhÍ á jörðinni Mið-Fossum og til að byggja tilraunagróðurhús í ylrækt á Hvanneyri. Auk þess átti að ráðast í gagngerar endurbætur á Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Gert var ráð fyrir að heildarfjárfesting þessara fjögurra verkefna væri aðeins þriðjungur af áætluðu verðgildi Korpulands. Sala á Mið-Fossum gekk eftir og þar að auki hafa miklar framkvæmdir átt sér stað á Reykjum að undanförnu. En engar framkvæmdir eru hafnar á nýrri jarðræktarmiðstöð. Í ársskýrslu LbhÍ frá 2022 segir að tafir hafi orðið á að hefja byggingu miðstöðvarinnar og óvíst hvenær svo verði. Þrátt fyrir það er búið að vinna alla grunnvinnu, t.d. hefur aðalskipulagi Borgarbyggðar verið breytt og gerir nú ráð fyrir byggingarreit fyrir jarðræktarmiðstöðina auk gróðurhúsa suðaustan við Gamla Bút.
Í svari við fyrirspurn til Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur, rektors LbhÍ, segir hún að til hafi staðið að byggja jarðræktarmiðstöðina 2023–2024. Hins vegar hafi heimild frá ráðuneytinu til að hefja framkvæmdir árið 2023 ekki borist. „Ráðuneytið bað okkur um að gera nýja áætlun yfir lengra tímabil. Sú áætlun var send í fyrra og miðaðist við þriggja ára framkvæmdatímabil, 2024–2026. Ég bind enn vonir við að við náum að hefja framkvæmdir í ár enda miklir hagsmunir í húfi vegna stórra verkefna sem eru þegar fjármögnuð og bíða eftir þessari aðstöðu.“ Sem dæmi um stór verkefni sem bíða aðstöðunnar nefnir Ragnheiður kornkynbótaverkefni samkvæmt samningi við matvælaráðuneytið sem undirritað var á dögunum.
Bjarni Jónsson, þingmaður VG, sendi þann 16. desember fyrirspurn um uppbyggingu aðstöðu til jarðræktarrannsókna á Hvanneyri. Spurði hann m.a. um fjármögnun byggingarinnar, hvenær hafist verði handa og hvenær verklok væru áætluð. Fyrirspurninni hefur enn ekki verið svarað en samkvæmt þingsköpum á ráðherra að senda svör innan fimmtán virkra daga.
Deildarfundur Ræktunar og fæðu hjá LbhÍ ályktaði um jarðræktarmiðstöð í desember sl. og krafðist frekari eftirfylgdar með málinu. Deildin beindi því til háskólaráðs og rektors LbhÍ að beita sér tafarlaust fyrir uppbyggingu á aðstöðu til rannsókna og kennslu á sviði jarðræktar. „Það er álit deildarfundar að við núverandi aðstæður geti jarðræktarrannsóknir ekki farið fram vorið 2024,“ segir í ályktuninni.
Í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn um hvenær vænta megi ákvörðunar um miðstöðina segir: „Ákvörðun um uppbyggingu Jarðræktarmiðstöðvar liggur ekki fyrir og mun líklega ekki gera það fyrr en vinnu við næstu fjármálaáætlun er lokið.“