Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Matvælaverð og búvörusamningar
Leiðari 28. janúar 2016

Matvælaverð og búvörusamningar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Bændasamtökin kynntu í gær úttekt á þeim þáttum sem hafa áhrif á matvælaverð. Umræða um þessi mál er ekki ný af nálinni, en í skýrslunni er farið yfir helstu áhrifaþætti verðlagningar á matvælum og stöðu þeirra í dag.
 
Margt í úttekt BÍ er upprifjun á því sem áður hefur komið fram í umræðunni en e.t.v. ekki alltaf náð fram í fjölmiðlum. Til dæmis er vitnað í nýlega skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn þar sem kom fram að þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst frá ársbyrjun 2011 til 2014 hafi það ekki birst í smásöluverði. Vísbendingar eru um að álagning innlendra birgja og dagvöruverslana á innfluttum vörum hafi hækkað og hagstæð gengisþróun ekki skilað sér til neytenda.
 
Lækkun á ýmsum sköttum og gjöldum virðist skila sér treglega til neytenda og um það er fjallað í skýrslunni. 
 
Lægra hlutfall til matvörukaupa
 
Bændasamtökin hafa margoft bent á þá staðreynd að verð er almennt hærra þar sem laun eru hærri. Í þeim löndum þar sem verðlag á matvöru er hvað hæst fer lægra hlutfall af útgjöldum neytenda til matvörukaupa en í þeim löndum þar sem verðlag er lægst. Á Íslandi er hlutfallið 13% en um 30% í Rúmeníu, þar sem verðlag er með því lægsta í Evrópu. Að auki eru skýr merki þess að þar sem samkeppnin er mest verji neytendur lægra hlutfalli útgjalda sinna til matvörukaupa.
 
Aukin áhersla neytenda á góðan aðbúnað og velferð húsdýra skapar sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað. Íslenskir bændur geta skapað sér samkeppnisforskot með því að tryggja að þær kröfur sem settar eru fram í nýrri löggjöf á þessu sviði séu uppfylltar. Nú þegar er Ísland fremst í flokki í Evrópu, ásamt Noregi, þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði. Á móti hefur þetta áhrif á kostnað bænda sem þýðir að þeir þurfa hærra verð fyrir sína vöru. Því er mikilvægt að allar búvörur séu merktar svo neytendur viti hvaða vörur séu til fyrirmyndar í þessum efnum.
 
Þegar horft er til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á verðlag matvöru til neytenda á Íslandi er ljóst að hægt er að ná betri árangri við að ná niður verðlagi. Á matvörumarkaðnum þurfa allir að fá sinn réttláta hluta af kökunni, neytendur, bændur og verslunin. Eins og staðan er núna tekur verslunin of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda og úr því þarf að bæta til dæmis með því að tryggja þarf aukna samkeppni á dagvörumarkaði. Samkeppniseftirlitið gegnir þar veigamiklu hlutverki.
 
Staða búvörusamninga
 
Opinber fjárframlög til landbúnaðarmála hafa lækkað verulega síðustu áratugi sem hlutfall af landsframleiðslu. Árið 1990 var opinber stuðningur við landbúnað, þ.e. beinir styrkir og tollvernd, 5% af VLF en árið 2013 var þetta hlutfall 1,1%, en meðaltalið í Evrópusambandinu var þá 0,8%. Á undanförnum áratug hefur náðst umtalsverður árangur í hagræðingu í íslenskum landbúnaði. Þá tóku íslenskir bændur á sig aukinn kostnað vegna gengisfalls krónunnar í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 með því að halda aftur af afurðaverðshækkunum. Hlutfall beinna styrkja til landbúnaðar er um 1,8% af útgjöldum ríkisins. Með því eru skattgreiðendur að jafna starfsskilyrði íslensks landbúnaðar við önnur lönd því að eins og oft hefur komið fram eru fá lönd sem ekki hlutast neitt til um hvernig landbúnaðarframleiðsla þeirra þróast og starfar.
 
Nú er verið að vinna að gerð búvörusamninga til næstu ára. Fyrir liggur að samningarnir fela í sér miklar breytingar – sennilega þær mestu í „landbúnaðarkerfinu“ sl. 30 ár.  Af þeim sökum er ætlunin að semja til 10 ára eða lengra en áður. Forsenda þess er að breytingarnar eru miklar. Jafnframt er gert ráð fyrir að innleiða breytingar fremur hægt á fyrri hluta samningstímans til að koma í veg fyrir kollsteypur. Ljóst er að sumir sem eiga hagsmuna að gæta, bæði bændur og aðrir, eru nokkuð uggandi yfir breytingunum, einkum að hið aukna frelsi leiði til offramleiðslu og verðfalls. Það er dagljóst að ekki er hægt að sjá allar breytingar fyrir sem samningarnir geta valdið, enda er tilgangurinn ekki síst að leiða fram nýja sókn í landbúnaðinum. En ýmsir varnaglar eru í samningunum ef mál þróast til verri vegar. Þar er einkum um þrennt að ræða. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir endurskoðunum bæði 2019 og 2023. Þá er hægt að grípa inn í óæskilega þróun gerist þess þörf. Í öðru lagi er gert ráð fyrir heimild til að færa á milli verkefna í samningunum á hverju ári. Þannig má beina hvötum sem þar eru í annan farveg ef tilefni er til.  Í þriðja lagi er ætlunin að skrifa inn rauð strik inn í samninginn varðandi þróun verðs og framleiðslu, þannig að ef þróunin verður neikvæð fram að fyrri endurskoðun þýðir það að innleiðing breytinganna verður endurmetin í heild. Í nautgriparæktarsamningi er auk þess gert ráð fyrir sérstöku úrræði til að jafnvægi framleiðslunnar raskist ekki úr hömlu. Inn í samningana er auk þess ætlunin að komi ný verkefni m.a. í ljósi tollasamnings sem stjórnvöld gerðu við ESB sl. haust. Ljóst er að ekki eru allir sáttir við þær breytingar sem lagðar eru til. Ályktanir hafa að hluta til verið dregnar út frá hugmyndum sem kynntar voru í lok nóvember sem sumar hafa tekið breytingu. Mestu skiptir nú að ljúka samningunum sem fyrst svo hægt sé að fara að kynna þá, og afstaða til þeirra mótist á grunni heildarmyndarinnar. Að því er unnið hörðum höndum nú.
Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...