Að prjóna af kindinni sinni – einstök upplifun
Verðskrá fyrir ull þetta haustið hefur verið birt. Fram kemur að not fyrir mislita ull séu engin og hún verðlaus og því á ekki að borga neitt fyrir hana. En við verðum samt að rýja kindurnar okkar. Annars líður þeim ekki nógu vel.
Þá þarf að finna eitthvert hlutverk fyrir þessa mislitu ull. Ekki satt? Helst að búa til einhver verðmæti úr henni.
Þeir sem hafa verið með ull í höndunum vita að mislit ull er oft alveg óskaplega falleg. Litasamsetningin er stundum eins og listaverk. En það vita það ekki alveg eins margir að garn sem unnið er úr mislitri ull (flekkóttri) er mjög oft mýkra en ull af einlitum kindum.
Það er líka hægt að búa til misjafna tóna úr flekkóttum reyfum. Gera band sem er næstum ljósgrátt og yfir í band sem verður mjög dökkgrátt. Og móflekkótt gefur misdökka tóna af brúnu.
Það væri því hægt að búa til garn sem hentaði í peysu með mynstri með því að vinna úr 2 til 3 reyfum. Það myndi meira að segja duga í 3 peysur og jafnvel vettlinga og húfu með.
Það er einstök upplifun að prjóna flík handa sjálfum sér úr garni sem unnið er úr ull af sinni eigin kind.
Að geta sagt að peysan sem maður er í sé af henni Prúð eða Blökk eða Gráflekku. Það gefur peysunni aukið verðmæti.
Það væri ekki amalegt að gefa barnabörnunum peysu eða húfu í jólagjöf sem væri prjónuð úr ullinni af lambinu sem þau hjálpuðu til við að koma í hagann í vor eða sóttu í réttina í haust.
Það er ákaflega skemmtileg upplifun og flíkin fær nýtt gildi af því hún hefur sögu.
Við í smáspunaverksmiðjunni Uppsuna höfum spunnið garn fyrir þá sem vilja prófa að upplifa þessa tilfinningu. Þeir hafa verið ánægðir með útkomuna og allir sammála um þessa upplifun.
Tilgangurinn með þessu bréfi er að benda á þennan möguleika og hvetja ullareigendur til að kynna sér hvað þarf til að koma þessu í framkvæmd. Það er einfaldara en margur heldur.
Hulda Brynjólfsdóttir