Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, skýrslu sína um framtíð evrópskrar samkeppnishæfni.
Skýrslan er unnin fyrir framkvæmdastjórn ESB og samanstendur af tveimur hlutum, A-hluta sem fjallar um samkeppnishæfni fyrir Evrópu og B-hluta þar sem finna má ítarlega greiningu og ráðleggingar.
Viðvörunarljós loga
Strax í inngangsorðum skýrslunnar er komið inn á áhyggjur sem uppi hafa verið allt frá síðustu aldamótum vegna þess að hægst hefur á hagvexti innan ESB. Hagvöxtur í Bandaríkjunum er mun meiri en í ESB sem skýrist fyrst og fremst af minni vexti í framleiðni. Evrópsk heimili hafa mátt borga brúsann með því að dragast aftur úr Bandaríkjamönnum í lífskjörum. Þannig hefur vöxtur í ráðstöfunartekjum á mann verið allt að tvöfaldur í Bandaríkjunum samanborið við ESB síðan árið 2000.
Það sem af er þessari öld hefur fremur verið litið á hægari vöxt hagkerfisins sem eins konar „óþægindi“ fremur en alvarlega áminningu. Fjölgun kvenna á vinnumarkaði hefur aukið framboð á vinnuafli og þar með bætt vaxtarmöguleika. Útflytjendum tókst að auka markaðshlutdeild sína einkum í Asíu og reglur um alþjóðaviðskipti voru hagstæðar viðskiptalífi ESB.
En breyttar forsendur veikja nú undirstöðurnar. Fyrir það fyrsta er alþjóðavæðingin á undanhaldi og tímabil örs vaxtar í heimsviðskiptum virðist vera liðið. Fyrirtæki innan ESB standa þannig bæði andspænis meiri samkeppni erlendis frá og minna aðgengi að erlendum mörkuðum. Þá hefur Evrópa misst sinn mikilvægasta orkugjafa, rússneska gasið. Á sama tíma hefur landfræðilegur stöðugleiki minnkað og það hvað ESB hefur verið öðrum háð (t.d. í orkumálum einnig hráefnum) hefur gert það varnarlaust.
Fjármagn og framleiðni
En stóra vandamálið sem bent er á í skýrslu Draghi er framleiðni: „Ef ESB myndi viðhalda meðaltali framleiðni aukningar frá 2015 myndi það aðeins nægja til að halda landsframleiðslu stöðugri til ársins 2050 – á sama tíma og ESB stendur frammi fyrir röð nýrra fjárfestingarþarfa sem þarf að fjármagna með meiri vexti.“
Evrópa missti að mestu af stafrænu byltingunni sem leidd var af internetinu og þar með framleiðniaukningunni sem það leiddi til. Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að löndin leggi saman krafta sína og fjármagn til að auka nýsköpun og tækniframfarir. Draghi skilgreinir sameiginlega fjármögnun og „stórfjárfestingar“ sem lykilatriði til að breyta evrópsku hagkerfi. Þá þurfi að veita meira fjármagni til þróunar á sviði gervigreindar.
ESB er að ganga inn í fyrsta tímabil í nýlegri sögu sinni þar sem vöxtur verður ekki studdur af fjölgun íbúa. Fram til ársins 2040 er því spáð að vinnandi höndum muni fækka um sem nemur nærri 2 milljónir starfsmanna á hverju ári. Því verður að treysta á framleiðniaukningu til að knýja fram hagvöxt. Ef ESB myndi halda meðaltals framleiðniaukningu eins og hún hefur þróast síðan 2015 myndi það aðeins nægja til að halda landsframleiðslu stöðugri til ársins 2050. Á sama tíma stendur ESB frammi fyrir röð nýrra fjárfestingarþarfa sem verður að fjármagna með hagvexti umfram þetta.
Brotnar birgðakeðjur
Annað vandamál sem þarf að leysa eru aðfangakeðjur og viðskipti. Í skýrslu Draghi kemur fram að vegna þess hve opið hagkerfi Evrópu er og hve mjög ESB treystir á Kína til að afla mikilvægra málma, þá sé ESB enn sérstaklega útsett fyrir áföllum í birgðakeðjunni og „landfræðilegum óróa“ eins og mjög hefur borið á undanfarið. Kína er á sama tíma að keppast við að taka yfir alla þætti framleiðslukeðjunnar, frá námagreftri, til úrvinnslu, framleiðslu og flutninga. Skýrslan leggur því til að leitast verði við að stytta aðfangakeðjur og þróa stefnu í framleiðsluiðnaði til að draga úr áhrifum af þeirri vá sem af þessu steðjar að ESB.
Endalok tímabils?
Skýrsla Draghi bætist nú í hóp þeirra sem segja að tímabil fríverslunar sé á enda, og að viðskiptastefna ESB sé nú þegar að laga sig að þessum nýja veruleika þar sem hvers kyns viðskiptahöft, útflutningsbönn, tollar og niðurgreiðslur hafa aukist til mikilla muna í heiminum.
„Hið alþjóðlega viðskiptaregluverk sem byggir á marghliða stofnunum er í djúpri kreppu og enn er óvíst hvort hægt sé að koma henni aftur á réttan kjöl.“ Draghi segir því að skýrar meginreglur séu nauðsynlegar til að forðast verndarstefnu en viðhalda samt opnu viðskiptakerfi. Í þeim tilvikum þar sem ESB er fórnarlamb erlendra ríkisstyrkja í atvinnugreinum, þar sem framleiðendur innan ESB hafa dregist mjög aftur úr, gæti verið betra að fjármagna meiri fjárfestingu á innri markaði ESB frekar en að beita refsiaðgerðum.
Veruleikinn bítur
Hinn ítalski fyrrverandi forsætisráðherra og bankastjóri bendir á ýmis vandamál í kringum uppbyggingu ESB sem gætu hindrað tilraunir til að leysa efnahagsmálin. Skortur á einbeitingu og samhæfingu milli aðildarríkja ásamt eyðslusemi eru allt atriði sem gætu komið í veg fyrir allar tilraunir til að efla efnahag ESB að hans mati. Jafnvel ein hugmynd, um „sameiginlegar lántökur“ ESB landa til að tryggja betri kjör, var skotin niður af fjármálaráðherra Þýskalands, Christian Lindner, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var um hana.
Lokaorð
Framarlega í skýrslunni er bent á að ákvarðanatökuferli ESB hefur ekki breyst verulega síðan bandalagið var stækkað. Að meðaltali er það 19 mánaða ferli að koma lögum í gegnum ferlið og fá þau samþykkt. Af þessu má ljóst vera að ESB er í kreppu sem mun aðeins ágerast verði ekki gripið til áhrifamikilla aðgerða. Ísland, Noregur og Lichtenstein greiða nú þegar verulegar fjárhæðir í Uppbyggingasjóð EES ríkjanna. Markmið sjóðsins er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu sem eru öll í Suður- og Austur-Evrópu. Ljóst er að fjárþörf til uppbyggingar og fjármögnunar lausna sem leiða til aukinnar framleiðni innan ESB mun síst minnka á komandi árum.