Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?
Landnýting og sjálfbær landbúnaður er mikilvægasta loftslagmálið á Íslandi. Á heimsvísu er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi um fjórðungur af heildarlosun, en hér á landi er hlutfall losunar ríflega 60%.
Það er eðlilegt, enda erum við fá og búum í stóru landi á norðlægum slóðum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að losun frá landi er um 9-10 milljónir tonna, á meðan losun frá vegasamgöngum er tæp milljón tonna af CO2.
Vegna þessa þurfum við markvissa Framsókn í grænni fjárfestingu ríkisins í landbúnaði og bættri landnýtingu. Með því að auka stuðning við sjálfbæra landnýtingu, auka skógrækt og vinna að strategískum landbótaverkefnum leggur Ísland ekki eingöngu mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni heldur styður jafnframt við tækifæri og framfarir um land allt. Afleiddu áhrifin eru m.a. þessi:
Aukin fæðuframleiðsla og minni þörf fyrir innflutt aðföng, í kjölfar stórátaks í uppbyggingu skjólbelta víða um land. Slík uppbygging skjólbelta hefur í för með sér aukna möguleika til kornræktar. Í dag flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn á ári af korni, til notkunar í landbúnaði. Stefna ætti að því að draga úr þessum innflutningi um 10-15% á ári, samhliða aukinni áherslu á innlenda kornrækt.
Græn störf skapast um allt land og fjölbreytt tækifæri fyrir bændur og umsjónarmenn lands, enda liggja mikil værðmæti í kolefnisbindingunni sem fyrirsjáanlega munu aukast næstu ár og áratugi. Slíkt getur stutt við að snúa þeirri ósjálfbæru byggðaþróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Í dag búa um 86% landsmanna á suðvestur-horni landsins. Slíkt hefur haft í för með sér lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu, aukna þörf fyrir risafjárfestingar í umferðarmannvirkjum (sem kalla á aukna losun CO2) og minni kraft til uppbyggingar í dreifðum byggðum.
Með áherslu á nýsköpun um allt land, samhliða strategískum landbótaverkefnum, byggist upp mannauður á sviði sjálfbærrar landnýtingar, rannsóknastarfsemi og grænna lausna. Ný skýrsla OECD (https://read.oecd-ilibrary.org/economics/oecd-economic-surveys-iceland-2021_c4edf686-en?_ga=2.144527228.834598284.1630318730-1831108037.1630318729#page91) bendir á nákvæmlega þessi atriði sem mikilvægustu skrefin fyrir Ísland, í samhengi loftslagsmála.
Áhersla á landnýtingu
Geta lands til kolefnisbindingar er afar mikil. Asparskógur getur bundið í kringum 20 tonn af CO2 per hektara. Uppbygging birkiskóga og landgræðsla skilar ekki jafn miklu á hvern hektara, en þó mjög miklu þegar lagt er saman og í samanburði við aðrar lausnir, sem kosta mun meiri fjárfestingu og hafa fyrst og fremst staðbundin áhrif á þéttbýlustu svæðunum. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr orkuskiptum, t.d. bílaflotans, heldur fyrst og fremst bent á mikilvægi þess að fjárfesta í loftslagslausnum sem skila miklu fyrir Ísland og umheiminn allan.
Það eru fjölmargar leiðir færar til fjármögnunar grænnar umbyltingar í landnýtingu. Efla þarf græn hvatakerfi og styrki til verkefna á þessu sviði. OECD bendir á mikilvægi kolefnisskatta, sem taka mætti undir, svo lengi sem horft verði til þess að slík skattlagning dragi ekki úr möguleikum til uppbyggingar í dreifðum byggðum landsins. Í því samhengi væri eðlilegt að þær tekjur sem koma frá kolefnissköttum renni til fjárfestingar í landbótum og nýsköpun í landnýtingu. Þannig ýtum við undir sjálfbærar grænar fjárfestingar, Íslandi og umheiminum öllum til framdráttar – í nútíð og framtíð!
Helgi Héðinsson og
Þórarinn Ingi Pétursson,
frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.