Framsókn íslensks landbúnaðar
Íslenskur landbúnaður hefur ætíð staðið hjarta mínu nærri. Ég hef í gegnum tíðina, bæði í störfum mínum í stjórnmálum og ekki síður sem dýralæknir, séð þann mikla metnað sem íslenskir bændur hafa sýnt í störfum sínum. Sá metnaður hefur gert það að verkum að Íslendingar eru í einstakri stöðu þegar kemur að gæðum íslenskra afurða. Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag er heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla. Vísindamenn hafa sagt að ef ekkert verður að gert verði sýklalyfjaónæmi heilsufarsfaraldur á næstu áratugum sem lýsir sér til dæmis að því að spáð er að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050 en látist af völdum krabbameins.
Lýðheilsa í fyrsta sæti
Það er margsannað að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það skapar okkur algjöra sérstöðu sem við viljum standa vörð um af fullum krafti. Það var því mikill áfangi fyrir Framsókn þegar ríkisstjórnin tilkynnti í dag að stefnt væri að banni við dreifingu matvæla sem sýkt er af ákveðnum tegundum sýklalyfjaónæmra baktería. Þessu höfum við barist fyrir innan og utan þings, til dæmis með fjölmennum opnum fundi í febrúar þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans sögðu frá mikilvægum rannsóknum sínum og annarra vísindamanna.
Hagsmunir neytenda og bænda fara saman
Það hafa líka orðið umskipti í umræðunni um innflutning á hráu kjöti í vetur. Við höfum náð að vekja almenning betur til vitundar um gæði og sérstöðu íslensks landbúnaðar. Þessum árangri höfum við náð með góðum stuðningi bænda og neytenda. Það er enda ljóst að hagsmunir bænda og neytenda fara saman í þessu máli þótt margir hafi lagt mikið á sig í áróðrinum um að það séu hagsmunir neytenda að innflutningur á matvælum sé óheftur.
Endurskoðun tollasamnings
Tollamál í landbúnaði verða jafnframt tekin til skoðunar strax á þessu ári, m.a. með því að kanna þróun tollverndar í landbúnaði og tollflokkun í því skyni að gera skráningu bæði inn- og útflutnings nákvæmari og skilvirkari. Í ljósi áhrifa útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verður gerð greining á tollasamningi Íslands og ESB frá 2015 fyrir landbúnaðinn og neytendur og samningurinn endurskoðaður komi í ljós að forsendur hans standist ekki lengur. Fleiri atriði er að finna í aðgerðaáætluninni og í áliti meirihluta atvinnuveganefndar.
Stuðningur við nýsköpun í matvælaframleiðslu stóraukinn
Frumvarp um breytingu á lögum sem samþykkt var í atvinnuveganefnd Alþingis eru ekki aðeins viðbrögð við dómum um innflutning á hráu kjöti heldur framsókn fyrir íslenskan landbúnað. Nú tekur við undirbúningur þar sem byggt er vísindalega undir sérstöðu íslensks landbúnaðar með það að markmiði að bann verði komið á dreifingu matvæla með sýklalyfjaónæmum bakteríum fyrsta október 2021. Þetta hefur ekki einungis áhrif á kjöt heldur öll matvæli.
Samhliða er lögð fram þingsályktun um sérstaka aðgerðaáætlun í 17 liðum sem ætlað er að efla matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Fjölmörg verkefni önnur eru í áætluninni og má þar nefna bann við dreifingu fersks alifuglakjöts nema að sýnt sé fram á að það sé ekki mengað af kampýlóbakter. . Þetta er sama regla og gildir um innlenda framleiðslu í dag. Búið er að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu fyrir alifugla, svína og nautakjöt. Matvælaeftirlit verður eflt í þágu neytendaverndar og tekið til sérstakrar skoðunar hvernig því verði best fyrir komið. Merkingar matvæla verða bættar, fræðsla til ferðamanna aukin og reglur um innflutning til einkaneyslu hertar. Unnið verður af krafti að mótun matvælastefnu og innleiðingar nýrrar innkaupastefnu ríkisins m.a. með stuðningi ráðherranefndar undir forystu forsætisráðherra. Stuðningur við nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu verður efldur verulega samhliða með nýjum sjóði sem byggi á grunni núverandi nýsköpunarsjóða í landbúnaði og sjávarútvegi.
Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.