Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Heillandi, sligandi vor
Lesendarýni 18. maí 2023

Heillandi, sligandi vor

Höfundur: Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur

Vorið er sannarlega heillandi og spennandi tími í sveitum landsins. Útivera verður stærri hluti dagsins og lóan og stelkurinn lífga upp á tilveruna. Hrossin fara út, ærnar og kýrnar. Það er borið á og fræjum sáð.

Kristín Linda Jónsdóttir.

En vorið er ekki bara tíminn þegar túnin grænka og sóleyjarnar spretta heldur líka tími vorverka og anna. Það þarf að gera við girðingar, plægja, tæta, slóðadraga, keyra skít og bera á, bara svona til dæmis. Á sauðfjárbúum þarf sólarhringsvakt í fjárhúsin og ótal verk kalla, allt frá því fyrsta lambið fæðist þar til allt er komið á fjall. Vorið er sannarlega afar krefjandi og annasamur tími í búskap og þrátt fyrir dýrð náttúrunnar geta annirnar orðið sligandi.

Hvernig tekst þér að seiglast í gegnum og njóta lífsins á annasömum tímum? Vera skynsamur, skipulagður, skilvirkur og árangursríkur í starfi og reka búið með sóma og um leið að vera lífsglaður og hamingjusamur?

Að annast sjálfan þig andlega, líkamlega og félagslega og vera jafnframt glaður og gefandi við fólkið þitt, á heimilinu og í þínu nánasta sambandi? Vó, vó, hvert er þessi sálfræðingur að fara, það er nú hægara sagt en gert!

Já sannarlega en einmitt þess vegna er snjallt að pæla aðeins í þessu og nýta sér bjargráð og hugmyndir frá öðrum. Finna svo sínar leiðir til að tækla sem best tarnir og krefjandi vikur og mánuði, hvort heldur sem er vorannir eða heyskap.

Hér eru nokkur vel reynd ráð úr þekkingarbrunni sálfræðinnar:

  • Svefn er í alvöru mikilvægur og nauðsynlegur. Svefn snýst ekki aðeins um líkamlega hvíld heldur einnig andlega og um hugræna getu, möguleikann á að geta hugsað af viti og haldið einbeitingu á annatímum.

    Geta tekið réttar ákvarðanir, sinnt eigin grunnþörfum, sýnt öðrum virðingu og haldið starfsorku. Virtu svefntímann þinn eins og nokkur möguleiki er á. Þá afkastar þú meiru, átt auðveldar með að sjá lausnir í daglegum störfum, líður betur bæði andlega og líkamlega og hreinlega ert skemmtilegri.
  • Jákvæð hegðun og samstarf léttir störfin. Þegar ótal verk kalla og þreytan segir til sín falla margir í þá gryfju að verða óþolinmóðir, hvassir, neikvæði, síkvartandi og önugir eða fáskiptir, orðfáir og þungir. Hugsið út í að hafa góð samskipti við þá sem ganga með ykkur til verka, hvort sem það er fólkið úr fjölskyldunni ykkar eða óskyldir aðilar.

    Það er ekki sæmandi að hegða sér á meiðandi og neikvæðan hátt, hunsa sitt samstarfsfólk með því að heilsa varla, svara út í hött eða alls ekki. Ekki heldur að finna sífellt að, öskra á þá sem gera mistök eða tala niður til fólks.

    Jákvæðni snýst um að þakka hverri hjálpandi hönd, hafa orð á því sem vel gengur, slá sér og sínum á brjóst yfir þessum tíu hlössum af skít sem komin eru á grundina í stað þess að láta daginn litast af pirringi yfir því að haugdælan stíflaðist.

  • Beinum athyglinni að því sem vel gengur. Þá vex það í huga okkar og við fyllumst frekar stolti, orku og gleði og það einfaldlega gengur betur. Hugsum um það á hverjum morgni að taka eftir og þakka fyrir það sem gengur vel og reyna að vera bjartsýn.

    Hrósum hvert öðru og sjálfum okkur í önn dagsins og beinum athyglinni að því jákvæða.

    Það má til dæmis hafa bók eða lista við höndina þar sem áfangar og árangur dagsins er skráður, gefa því góða broskall og hvert öðru bros, klapp á öxl eða háa fimmu.

  • Passaðu upp á sjálfan þig. Taktu ábyrgð á þér, hvað þarftu? Til að geta verið stoltur af sjálfum þér í önn dagsins? Sinntu þörfum þínum og hlúðu að þér. Það er forsenda þess að þér takist að halda fullum starfskröftum, njóta lífsins og vera hæfur á heimili og í fjölskyldu á annasömum tímum.

    Gættu þess að borða reglulega og skynsamlega, drekka nógan vökva, taka stuttar pásur, rétta úr þér, láta hugann reika og anda djúpt nokkrum sinnum. Ekki hugga þig með skaðráðum svo sem drykkju, óhóflegu áti á sykri eða einhvers konar neyslu, til dæmis á nikótíni.

    Taktu markvisst og meðvitað eftir því sem gengur vel, veltu þér upp úr því en ekki því sem aflaga fer. Haltu sambandi við vini og félaga, hringdu og spjallaðu, já það er mikilvægt.

    Ef þú ert svo lánsamur að eiga maka og fjölskyldu ræktaðu þá nánd við þau einmitt þegar það er brjálað að gera. Eða eins og segir í dægurlagatextanum, kysstu kerlu að morgni, snerting, knús, kossar, nánd og hlýja gefur orku og ljúfara líf, líka á sauðburði.

  • Hugsaðu á hjálplegan hátt. Leitastu við að hugsa í lausnum, þetta er ekki vonlaust, eða bara ein lausn til sem er of erfið. Það eru alltaf fleiri leiðir. Ekki einblína á það sem gengur ekki, víkkaðu hugsunina og stækkaðu sjóndeildarhringinn, þá áttu auðveldara með að finna það sem hjálpar. Stundum erum við föst í gömlum siðum og venjum sem ganga ekki upp lengur, eru íþyngjandi, of tímafrek, erfið, eða ekki lengur besta lausnin. Verum opin fyrir nýjungum og öðrum siðum til að leysa vandann og létta lífið.

  • Skipulag og forgangsröðun er svo auðvitað lykill að léttari dögum og árangursríkari rekstri. Raunhæfar áætlanir, að gefa sér ákveðinn tíma í verk og leitast við að láta það duga, að sætta sig við að eitthvað verður undan að láta og gleyma því aldrei að mannauðurinn, þú og fólkið þitt, er öllu öðru verðmætara. Ekki valta yfir þig og þína, til hvers er þá barist?

Það er yndisleg tilfinning að liggja flatur í krónni í fjárhúsunum á bjartri vornótt og koma lífi í seinni tvílembinginn, sjá hann taka við sér og líf lifna enn á ný.

Að ná loksins móður, sveittur og sár á höndum að draga svarta nautið úr skjöldóttu kvígunni og mjólka hana síðan í fyrsta sinn, júgrað jafnt, allir spenar í lagi og kálfurinn svelgir í sig broddinn.

Það er ómetanlegt ævintýri að vera íslenskur bóndi sem fagnar vori, hlúið að ykkur sjálfum til að þið og ykkar fólk getið notið þess alveg í botn.

Heimildir: J.S. Beck., T. Ben-Shahar, M. Yapko.

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...