Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ef hlutir þróast með eðlilegum hætti þá má búast við að verð á landbúnaðarvörum muni í framtíðinni hækka mikið í Evrópu allri þar sem ekkert land getur til lengdar framleitt undir kostnaðarverði eða styrkt og verndað slíka framleiðslu til langrar framtíða
Ef hlutir þróast með eðlilegum hætti þá má búast við að verð á landbúnaðarvörum muni í framtíðinni hækka mikið í Evrópu allri þar sem ekkert land getur til lengdar framleitt undir kostnaðarverði eða styrkt og verndað slíka framleiðslu til langrar framtíða
Mynd / Áskell Þórisson
Lesendarýni 10. febrúar 2017

Hver er framtíðarsýn okkar sem þjóðar varðandi landbúnað og matvælaframleiðslu?

Höfundur: Hólmgeir Karlsson
Ég býst við að flest okkar, ef ekki öll, geti svarað spurningunum á þann veg að við viljum umfram annað innlendan hollan mat að svo miklu leyti sem við getum skaffað hann. 
 
Á sama hátt er okkur umhugað um náttúruna og viljum að framleiðsla á matnum okkar sé í eins mikilli sátt við náttúruna og hægt er á hverjum tíma. Dýravelferð sé í hávegum höfð. Við viljum líka sjá landið okkar í byggð og að alls staðar sé gengið vel um og búskaparhættir þannig að sómi sé af. En við viljum líka fá ódýran mat eða meiri tekjujöfnuð í samfélagið og betri afkomu þannig að allir hafi efni á að kaupa matinn.
 
Ágætt að setja málefnið fyrst fram sem nokkrar spurningar: 
 
  • Ætlum við að vera í fremstu röð? Þjóð sem getur státað af náttúrulegum og hollum matvælum?
  • Er matvælaöryggi og fæðuöryggi eitthvað meira en fræðileg orð í okkar huga?
  • Er dýravelferð raunverulegt markmið, eða á það bara við um okkar innlendu framleiðslu?
  • Viljum við bara fá ódýrasta matinn í búðina okkar á hverjum tíma, hvar sem hann hefur verið framleiddur í heiminum og óháð því hvað þeir sem framleitt hafa matinn bera úr býtum?
  • Er kolefnisspor bara tískuorð eða viljum við sýna ábyrgð og taka þátt í að vernda náttúruna með vali okkar og ákvörðunum?
  • Er frjáls samkeppni okkar eina leiðarljós, eða kann að vera að stundum þurfi að gera hlutina öðruvísi til að hagsmunir okkar sem þjóðar séu varðir til lengri framtíðar?
  • Hvernig metum við starfsöryggi atvinnugreinar. Erum við þar að tala í árum eða áratugum?
  • Eru ríkisstyrkir við slíka atvinnugrein eða neytendur tabú eða sjálfsagður hlutur?
  • Er samspil landbúnaðar og byggðar í landinu eitthvað sem við sjáum ástæðu til að huga að?
  • Hvernig mat viljum við gefa börnunum okkar og hvernig viljum við afhenda þeim landið?
 
Við þurfum framtíðarsýn ef við ætlum að ná árangri
 
Að mínu mati er engin ein leið sú eina rétta að þessu marki, en eins og um allt annað sem við tökum okkur fyrir hendur þá þarf skýra framtíðarsýn, það þarf festu og skýr mælanleg markmið, og rekstrarumhverfi sem greinin getur þróast innan á hagkvæman hátt á leið sinni að markinu.
 
Mesta vandamál íslensks landbúnaðar og matvælavinnslu er einmitt það að við sem þjóð erum alltaf að breyta þessu rekstrarumhverfi þannig að bændur og matvælaframleiðendur vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga þegar kemur að fjárfestingum og breytingum á rekstri sínum sem leitt geta til bættrar framleiðslu eða bættrar afkomu og þar með lægri framleiðslukostnaðar samfélaginu og neytendum til góða.
 
Við stöndum á tímamótum nú enn einu sinni þar sem háværar kröfur eru uppi um að kollvarpa því rekstrarumhverfi sem landbúnaðurinn hefur búið við síðustu ár.
 
Ef við förum aðeins til baka í tíma og skoðum rekstrarumhverfi íslenskra mjólkurbænda þá kemur margt fróðlegt í ljós. Bændum landsins hefur fækkað mjög mikið og bú þeirra stækkað. Árið 1986, þegar ég kom heim frá háskólanámi erlendis og hóf störf í mjólkuriðnaði, ráku bændur og samvinnufélög 17 mjólkurbú víðs vegar um landið (Reykjavík, Borgarnes, Búðardalur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Neskaupstaður, Djúpivogur, Höfn og Selfoss). Í dag eru mjólkurbúin 5 (Búðardalur, Akureyri, Sauðárkrókur, Egilssstaðir og Selfoss ásamt höfuðstöðvum MS og dreifingu í Reykjavík). Einnig eru komin á fót í dag nokkur lítil einkarekin fyrirtæki.
 
Þessari þróun var að mestu leyti stýrt af kröfunni um hagræðingu og lækkun verðs á mjólkurvörum.
Þannig var ríkisskipuð nefnd látin vinna tillögur að hagræðingu í greininni og gegnum opinbera verðlagningu var séð til þess að greinin yrði að hagræða til að hún gæti lifað af. Til að ná þessum markmiðum komu búvörulögin til sem heimiluðu mjólkurfyrirtækjunum samvinnu og samninga um verkaskiptingu (undanþágur frá samkeppnislögum). Með því móti hefur náðst fram gríðarleg hagræðing í greininni sem skilað hefur verið til neytenda í lægra vöruverði. Heilu mjólkursamlögunum var lokað og vinnsla ákveðinna afurða sameinuð. Sem dæmi af því má nefna að nær öll ostaframleiðsla fer nú fram á tveimur stöðum á landinu, á Sauðárkrók og á Akureyri, en var á 9 eða 10 stöðum áður. Mjólkurpökkun fer nú fram í meginatriðum á tveimur stöðum, á Akureyri og á Selfossi, en fór fram á flestum af mjólkurbúunum áður. Bændur voru þannig knúnir með opinberum aðgerðum til að sameina nær allan rekstur sinn í einu félagi MS, en það félag á í dag alla mjólkurvinnsluna að mjólkurbúinu á Sauðárkrók undanskildu sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
 
− Hvaða áhrif hefði það nú ef ákvæði búvörulaga væru afnumin og greinin heyrði eingöngu undir samkeppnislög?
Sú samvinna sem leitt hefur til verkaskiptingar, samvinnu og samruna fyrirtækjanna yrði ekki leyfð og bændum líklega einnig gert að skipta MS upp í smærri einingar og jafnvel að selja frá sér hluta rekstrarins. En slíkt en nánast óhugsandi í dag þar sem búið er að sameina vinnslu á örfáa staði og framlegð og afkomumöguleikar yrðu allt aðrir ef slík uppskipti ættu að fara fram nú, svo ekki sé minnst á kostnaðaraukann sem slíku myndi fylgja. Þannig kæmu norðlenskir bændur mjög veikt út þar sem búið er að sameina alla ostaframleiðslu landsins á þeirra svæði, en sú framleiðsla gefur mun minna af sér en flestar af sérvörum og svokölluðum dagvörum, eins og skyr, jógúrt og fleiri vörur.
 
Þannig yrðu fyrirtæki bændanna á Norðurlandi ekki samkeppnisfær nema þau breyttu á ný sinni vörusamsetningu með óheyrilegum tilkostnaði. Söfnun á mjólk er líka þannig háttað í dag að allir bændur sitja við sama borð og fá líkt verð fyrir sína mjólk hvar sem þeir búa.
 
Í dag er það Auðhumla, samvinnufélag bændanna, sem safnar og kaupir alla mjólk af bændum og endurselur síðan til MS og annarra sem fást við mjólkurvinnslu. Ekki þarf að eyða á það mörgum orðum að slíkt myndi ekki ganga ef hér ættu samkeppnisöflin ein að ráða för. Þá yrði fjótt skorið á mjólkurvinnslu á jaðarsvæðum sem of dýrt væri að sækja mjólk til. Þar yrðu líklega Vestfirðirnir og Austurlandið í heild þau svæði sem framleiðsla legðist fyrst af.
 
Það er líka ansi kúnstugt að eftir að hafa stýrt bændum þessa vegferð hagræðingar og samruna félaga með opinberum kröfum ætlum við þeim allt í einu að gera allt til þess að aðrir, nýir og óháðir aðilar geti hafið mjólkurvinnslu hvar sem er á landinu og fengið afhenta mjólk til sinnar vinnslu eftir þörfum frá degi til dags án þess að taka nokkra ábyrgð á því að greinin sem heild sé rekin með hagkvæmum hætti og tryggi neytendum um allt land heilnæmar vörur á sama verði hvar sem þeir búa.
 
Um leið og ég segi þetta er ég ekki að tala gegn fyrirtækjum eins og Örnu í Bolungarvík eða Mjólkurbúinu KÚ eða öðrum sem fást við mjólkurvinnslu í smærri stíl. Við verðum bara að vera sanngjörn við félag bændanna sem við höfum stýrt á þann stað sem það er í dag.
 
− Getur íslensk mjólkurframleiðsla staðist opna og óhefta samkeppni frá innflutningi?
Svarið við þessari spurningu er NEI.
 
Það er óhugsandi að okkar mjólkurvinnsla og í raun flest matvælavinnsla í dag geti staðist samkeppni frá óheftum tollfrjálsum innflutningi. Ástæða þess er ekki sú að við séum ekki að framleiða nógu góða vöru eða á réttu verði. Ástæðan er einfaldlega sú að þær vörur sem fluttar yrðu inn, sérstaklega fyrst í stað, eru vörur sem hafa verið niðurgreiddar í framleiðslulöndunum og eru oft ekki af sömu gæðum. Evrópa er í augnablikinu full af umframframleiðslu á vörum sem framleiddar hafa verið og seldar langt undir kostnaðarverði. Við slíkt keppir ekkert land meðan slíkt ástand varir.
 
Ef hlutir þróast með eðlilegum hætti þá má búast við að verð á landbúnaðarvörum muni í framtíðinni hækka mikið í Evrópu allri þar sem ekkert land getur til lengdar framleitt undir kostnaðarverði eða styrkt og verndað slíka framleiðslu til langrar framtíðar. Afleiðingarnar í Evrópu eru líka hrópandi í dag þar sem bændur í stærstu framleiðslulöndunum eru á barmi fjöldagjaldþrots.
 
En þegar þessi staða væri komin upp að vörur í Evrópu væru framleiddar og seldar á eðlilegu verði væri okkar viðkvæma framleiðsla hér heima löngu komin á hausinn og of seint að grípa í taumana þá.
 
Því er mikilvægt að við sem þjóð stöndum nú í lappirnar og tryggjum okkar innlendu matvælaframleiðslu með þeim ráðum sem við höfum og látum ekki skammtíma sjónarmið og hentistefnu ráða för. Þessa sýn þurfum við líka að kynna fólkinu í landinu þannig að við getum sameiginlega tekið skynsamlegar ákvarðanir byggðar á staðreyndum og rökum.
 
Hér í lokin langar mig svo að svara nokkrum af upphafsspurningunum sem ég setti fram:
− Ætlum við að vera í fremstu röð. Þjóð sem getur státað af náttúrulegum og hollum matvælum?
Við erum í fremstu röð meðal þjóða í dag um mjög marga þætti sem gera matvæli að góðum matvælum. Við höfum hreina náttúru og hér er álag á land mjög lítið. Hér er lyfjanotkun með því minnsta sem finnst í landbúnaði og vaxtarhvetjandi hormón hafa aldrei verið notuð svo eitthvað sé nefnt. Sauðfjárrækt á Íslandi sem dæmi er í sérstöðu og er í raun margfalt betri og náttúrulegri en lífræn ræktun getur státað af víða um heim. En ef við ætlum að halda þessu þá þurfa bændur að geta rekið sín bú og haft starfsöryggi til lengri tíma.
 
− Er matvælaöryggi og fæðuöryggi eitthvað meira en fræðileg orð í okkar huga?
Fæðuöryggi er það að við tryggjum að eiga alltaf mat fyrir alla í okkar samfélagi. Allar hugsandi þjóðir setja fæðuöryggi fremst á sinn áherslulista. Matvælaöryggi er aftur á móti mælikvarðinn á heilnæmi matarins. Hér þarf engar málalengingar, hvort tveggja verður ekki tryggt nema við stöndum vörð um okkar matvælavinnslu til langs tíma.
 
− Viljum við bara fá ódýrasta matinn í búðina okkar á hverjum tíma, hvar sem hann hefur verið framleiddur í heiminum og óháð því hvað þeir sem framleitt hafa matinn bera úr býtum?
Ef það er okkar eina markmið þá leyfum við bara frjálsan innflutning á matvælum og gefum verslun og öðrum innflutningsaðilum frítt spil til að færa okkur matinn á því verði sem samkeppni þeirra í milli ákvarðar á hverjum tíma. En þá getum við heldur ekki á sama tíma ætlað bændum landsins að standa undir óskilgreindu hlutverki við að halda landinu í byggð. Við getum heldur ekki ætlað þeim það hlutverk að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og matvælaöryggi.
 
− Er kolefnisspor bara tískuorð eða viljum við sýna ábyrgð og taka þátt í að vernda náttúruna með vali okkar og ákvörðunum?
Þegar við reiknum kolefnisspor eða það álag sem framleiðsla eða einhver aðgerð sem við framkvæmum hefur á náttúruna þarf að taka allt með í reikninginn. Við matvælaframleiðsluna er eitt helsta markmiðið að við neytum fæðu úr okkar nánasta umhverfi sem framleidd er með vistvænum hætti í stað þess að flytja matvæli um langan veg. Þannig er t.d. kolefnisspor heimaræktaðrar kartöflu á Íslandi talsvert annað en hrísgrjónanna sem við höfum flutt yfir hálfan hnöttinn til að setja á diskinn okkar. Þetta gildir líka um kjöt og mjólk með sama hætti.
 
− Er frjáls samkeppni okkar eina leiðarljós, eða kann að vera að stundum þurfi að gera hlutina öðruvísi til að hagsmunir okkar sem þjóðar séu varðir til lengri framtíðar?
Frelsi til ákvarðana og athafna er í eðli sínu göfugt og gott markmið sem við eigum að rækta eins og hægt er, en það á þó ekki við um alla hluti þegar við á sama tíma ætlum saman að reka samfélag sem tryggir allar okkar grunnþarfir og tryggir jöfnuð og aðgang allra að ákveðnum grunnþáttum og grunnþjónustu. Þannig leggjum við mikið upp úr að hafa heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem er eins fyrir alla og því leggjum við samkeppnisöflin og gróðasjónarmiðin þar til hliðar og rekum þessa þætti á samfélagslegum grunni.
 
Ef við sem þjóð ætlum að vera okkur næg um mat og viljum hafa landbúnað í landinu þá verðum við í það minnsta að verja hann líkt og allar okkar nágrannaþjóðir gera með styrkjum og innflutningshöftum í formi tolla. Ef öll Evrópa legði samtímis af alla styrki og legði niður alla tolla af slíkum vörum og gerði alvöru kröfur um gæði og upprunamerkingar værum við að tala um allt aðra mynd hér. Við getum bara ekki gert þetta ein og látið þannig aðra leggja okkar framleiðslu og vinnslu í rúst á stuttum tíma.
 
Janúar 2017
Hólmgeir Kalsson,
framkvæmdastjóri Bústólpa
á Akureyri
Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...