Landbúnaður á krossgötum
Íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum. Framtíð hans mun ráðast af því hvaða skilaboð forsvarsmenn hans senda á komandi árum til þeirra sem velja sér að hafa atvinnu af landbúnaði. Ungt fólk í dag þarf skýr skilaboð um að eftirsóknarvert sé að mennta sig á sviði landbúnaðar og hefja störf innan atvinnugreinarinnar. Því miður hafa þau skilaboð ekki verið nógu skýr gegnum árin og ýmsar blikur á lofti hvort þau verði nægjanlega skýr á komandi árum.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks „lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum.“ Búnaðarþing 2015 samþykkti svo viðamikla stefnumótun um uppbyggingu komandi búvörusamninga. Stefna ríkisstjórnarinnar og samþykkt búnaðarþings eru þess efnis að menn hafa trú á landbúnaði og eykur þeim sem vilja starfa við greinina bjartsýni. Hins vegar eiga bændur og stjórnvöld eftir að semja, um þá niðurstöðu er lítið vitað í augnablikinu. Nokkur veigamikil atriði þarf að hafa í huga svo allir starfi í sátt og samlyndi innan greinarinnar á komandi árum.
Skynsamleg landnýting
Að auka matvælaframleiðslu er gott markmið en þá þarf líka að nýta land með skynsamlegum hætti, hvort heldur til beitar eða ræktunar. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í landbúnaðinum og bú hafa verið að stækka. Það er í samræmi við þá íhaldssömu og frjálslyndu stefnu sem hér hefur verið rekin að meiri framleiðsla leiðir af sér betri nýtingu á föstum kostnaði og þar með meiri framlegð í rekstrinum. Mörg bú hafa farið þessa leið, hins vegar er óheillavænleg þróun að byggja upp stór bú á landlitlum jörðum og treysta á velvild nágranna varðandi beit og nýtingu lands eða virða eignarrétt manna að vettugi og nýta landið án leyfis landeiganda. Slík uppbygging hefur því miður átt sér stað á undanförnum árum. Stefnumörkun um starfsskilyrði landbúnaðar á komandi árum þarf að innihalda úrræði sem virka og taka á slíkum dæmum.
Að teknu tilliti til þeirra þróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum árum þarf einnig að svara þeirri spurningu hvort við viljum að eignarhald í landbúnaði færist frá bændum til lánastofnana og búrekstur verði í auknu mæli rekinn fyrir aðkeypt vinnuafl? Sú hætta er fyrir hendi og hún leiðir af sér að þekking tapast. Þekking sem í dag er ekki metin til fjár í búreikningum bænda. Landbúnaðarstefna er nefnilega líka vísir að byggðastefnu, orð sem stjórnvöld nota sjaldnast nema á tyllidögum.
Það er misjafnt hvað hentar hverri byggð til uppbyggingar innviða svo fleiri sjái sér hag í fastri búsetu. Bættar samgöngur jafnt á landi sem og í tölvuheimum (ljósleiðari) munu þar skipta sköpum á komandi árum varðandi aukin lífsgæði. Það bætir tækifæri til fjölbreyttari atvinnusköpunar með hinum hefðbundna landbúnaði og styrkir búsetu. Staðreyndin er sú að verði þróunin óbreytt er ýmis grunnþjónusta eins og skóli, læknisþjónusta eða matvöruverslun síður en svo sjálfsögð í hinum dreifðu byggðum. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að móta stefnu sem tekur mið af slíku svo menn geti stundað landbúnað í samræmi við þau landgæði sem þeir búa yfir en jafnframt haft möguleika á annarri atvinnustarfsemi með. Hver hlekkur í samfélagskeðju hinna dreifðu byggða skiptir meira máli en í þéttbýlinu og það sem hentar einu samfélagi hentar kannski síður annars staðar. Stefnan þarf því að vera sveigjanleg og verður seint útbúin af hinum ýmsu fræðingum ráðuneytanna eða spunameisturum stjórnvalda sem oft eru ekki í takt við tíðaranda landsbyggðarinnar.
Sandkassaleikur
Menntunar- og fræðslumál landbúnaðarins þurfa jafnframt að komast á hreint svo ungt fólki sjá hag í því að mennta sig á sviði landbúnaðar og starfa við leiðbeiningar, kennslu, rannsóknir og fleiri störf sem verða landbúnaðinum í heild til framþróunar. Staðan er ekki sú í dag og grátbroslegt að horfa upp á þann sandkassaleik sem stundaður er varðandi framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands. Menn virðast ekki geta sest niður og rætt málin af heillindum. Hjá menntamálaráðherra er sameining eina orðið í orðabókinni. Forsvarsmenn bænda, sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð, þingmenn NV kjördæmis og starfsfólk LbhÍ, hafa barist mismikið á móti öllum tillögum sem hafa verið nefndar. Stundum held ég að baráttan snúist um það að skólinn skuli vera á Hvanneyri svo fólkið sem þar búi hafi atvinnu (styrki rekstrargrundvöll Borgarbyggðar) en ekki svo að skólinn þróist eðlilega. Einnig má velta fyrir sér hvort menn séu að styrkja eigin stöðu heima í héraði vegna atkvæðaveiða í næstu kosningum. Hafa aðrir landsbyggðarþingmenn tjáð sig mikið um málefni LbhÍ? – Ekki hef ég orðið mikið var við það. Ástæðan skyldi þó ekki vera að þeir hafa engan hag af því að ræða þessa hluti.
Landbúnaður á Íslandi þarf á öflugri menntastofnun að halda sem veitir þeim sem vilja sérhæfa sig í faginu bestu mögulegu menntun á hverjum tíma fyrir sig. Í nágrannalöndum okkar hafa skólar sem veita landbúnaðarmenntun breyst mikið á síðustu árum. Það þekki ég eftir að hafa stundað framhaldsnám í búvísindum í Noregi 2009-2011. Sú þróun hefur ekki enn átt sér stað hér á landi en mun gerast. Til að svo megi verða þurfa allir sem hagsmuna eiga að gæta að setjast niður og marka stefnu um hvernig þeir vilja sjá hlutina og hvernig sú stefna skal fjármögnuð. Þegar sú niðurstaða er fengin verður hægt að ákveða framkvæmd breytinga, hvort það verður með sameiningu skóla mun tíminn leiða í ljós. Undanfarin ár hafa þeir sem ferðinni ráða verið duglegir við að ákveða ýmsar breytingar á þeim kerfum sem við búum við. Þeim breytingum hefur oft á tíðum fylgt lítil stefna og enn síður fjármunir til að framkvæma það sem gera þarf, svo breytingarnar virki.
Næstu samningar ríkis og bænda verða stefnumarkandi um margt sem snýr að málefnum landsbyggðarinnar. Vonandi bera menn gæfu til að senda skýr skilaboð um hvað framtíðin ber í skauti sér. Jafnframt þurfa menn að vera reiðubúnir að leysa öll þau vandamál sem upp kunna að koma við framkvæmd samninganna, því þróun undanfarinna ára er líkleg til að halda áfram. Sú þróun hefur líka átt sér stað í nágrannalöndunum og þar má finna ýmsa hluti sem við skulum varast, þeir munu ekkert frekar virka hér en í nágrannalöndunum. Þetta eru hlutir sem geta ráðið því hvort ákveðin samfélög haldast í byggð eða ekki.
Öll í sama liði
Bændur þurfa einnig að standa saman sem ein heild og þar á ég við bændur í öllum búgreinum á Íslandi. Við erum öll í sama liði en þurfum jafnframt að vinna eftir settum leikreglum og vera dugleg að upplýsa grasrótina um gang mála. Það er lykilforsenda þess að fá fleiri til að starfa í félagsmálum bænda, þar mega núverandi forystumenn margt bæta í sínu vinnulagi. Á undanförnum árum hefur það stundum gerst að einstaka aðilar eða heil búgreinafélög hafa hlaupið útundan sér og veikt samstöðu heildarinnar því þeir telja stundarhagsmuni sína merkilegri en hagmuni landbúnaðarins í heild. Ég vona að þeir sem draga vagninn hafi þessi orð í huga þegar kemur að því að velja leið á þeim krossgötum sem landbúnaðurinn er staddur á í dag.