Níutíu ára afmæli BSSL
Þann 12. maí voru níutíu ár liðin frá því Búnaðarsamband Suðurlands, BSSL, gerði samning við Sandgræðsluna um leigu á húsum og jörðum í Gunnarsholti og nágrenni.
Enn fremur keypti BSSL allan bústofn Sandgræðslunnar í Gunnarsholti þetta sama ár, 1933. BSSL var með höfuðstöðvar sínar í Gunnarsholti í þrjú ár.
Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, vinnur nú að ritun Sögu Gunnarsholts og fékk hjá nafna sínum Sigurmundssyni, framkvæmdastjóra BSSL, ýmis gögn um samskipti þessara aðila fyrir nær einni öld.
Jörð fyrir BSSL
Fljótlega eftir 1930 voru umræður hjá BSSL um að taka á leigu eða kaupa jarðnæði fyrir starfsemi þess. Þar yrði rekið fyrirmyndar nýbýli og starfsmenn BSSL hefðu þar aðstöðu. Af því varð ekki vegna mikils kostnaðar. En í ársbyrjun 1933 bauð Búnaðarfélag Íslands Gunnarsholt til leigu ásamt Brekkum og Reyðarvatni, með húsum, girðingum og áhöfn, það er búfénaði. Getið er um að þar hafi Sandgræðslan rekið nautabú um nokkur ár, eða frá 1929, en Sandgræðslan keypti Gunnarsholt og Brekkur árið 1926 þegar þær voru sandi orpnar.
Áherslur í rekstri
Búnaðarsambandið réð Kristján Karlsson sem ráðunaut og forstjóra búsins og reka eftir nýjustu búnaðarþekkingu. Áherslur í væntanlegum rekstri:
- Kúabú með allt að 20 kúm og gætu bændur fengið þaðan kyngóða lífkálfa.
- Nautabú, geldneyti fóðruð á útigangi og í því skyni keypti Búnaðarsambandið Galloway- nautið Brján sem fæddist í Þerney í janúar 1934.
- Kornrækt til að selja bændum útsæðiskorn.
- Kartöflurækt í stórum stíl og selja bændum útsæði.
- Alifuglarækt og sex svínabú.
BSSL lagði fram fjármuni til að koma rekstrinum af stað og var ákveðið að sækja um að fá það samþykkt sem kennslubú er tæki námsmenn, sem yrðu leiðandi í sveitunum. Ítarlegir búreikningar skyldu sýna bændum hvar yrði gróði eða tap á starfsemi þessari. Einn námsmaður mun hafa verið á búinu. Sandgræðslan og BSSL gerðu samkomulag um leigu þess síðarnefnda á Gunnarsholti, Brekkum og Reyðarvatni með húsum og girðingum.
Enn fremur keypti BSSL allan búfénað Sandgræðslunnar, alls um 50 gripi. Samningar þar að lútandi voru undirritaðir í Gunnarholti þann 12. maí 1933. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri og Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri undirrituðu samninga fyrir hönd Sandgræðslunnar, en Guðmundur Þorbjarnarson, bóndi á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og formaður BSSL, fyrir hönd þess. Þann sama dag voru jarðir, girðingar og hús tekin út og bústofninn metinn.
BSSL greiddi 10 þúsund
Sveinn Sigurmundsson afhenti nýlega Landgræðslunni fyrir hönd BSSL stílabók með vigtartölum og verði á öllum nautgripum búsins. Kvígur, kýr og hestar voru ekki vigtaðar, en allar verðlagðar af matsmönnum. Enn fremur voru verðlögð tæki og áhöld, kol og skúr fyrir hænsni. Samtals var verðmatið nákvæmlega 10.000 krónur sem BSSL greiddi Sandgræðslunni.
Innifalið í þessum kaupum voru ýmsir utanstokksmunir, þar á meðal stórgripavog. Í fyrrnefndri bók eru einnig skráðir aðkeyptir nautgripir eftir 12. maí, vigt og verð þeirra. Verð á hestum og hænsnum sem keyptir vareinnig tiltekið. Skráðir eru fjórir búshlutir sem keyptir voru einnig eftir 12. maí, þar á meðal vekjaraklukka á tíu krónur. Áburðarkaup BSSL voru nokkur á árinu, það er af tilbúnum áburði til að bera á tún í Gunnarsholti.
Síðan eru færðar vigtartölur allra nautgripa á þriggja mánaða fresti til 30. apríl 1936. Gallowaynautið Brjánn frá Þerney var keypt 1934 og er fyrst vigtað í lok október 1935 og er þá um 18 mánaða gamall og vó aðeins 382 kíló, enda væntanlega verið á útigangi, en braggaðist heldur þegar leið á veturinn. Búreksturinn á þessum árum virðist hafa gengið þokkalega, land brotið til ræktunar og kartöflur og rófur ræktaðar í stórum stíl. En þó var tap á fyrsta ári búrekstrarins.
Í Gunnarsholti voru höfuðstöðvar BSSL
Bústjóri fyrsta eina og hálfa árið og ábúandi í Gunnarsholti var Kristján Karlson, ráðunautur og síðar skólastjóri Bændaskólans á Hólum. Veturinn 1935 til 1936 voru búfræðingarnir Halldór Árnason og Magnús Pétursson í forsvari fyrir búrekstrinum.
Á þessum árum var því Gunnarsholt höfuðstöðvar Búnaðarsambands Suðurlands og hélt Guðmundur formaður Þorbjarnarson stjórnarfundi þar. Sandgræðslan hafði áfram aðstöðu fyrir ferðahesta og verkfæri til girðingarvinnu eins og verið hafði frá 1928.
Skiptar skoðanir
En mjög voru skiptar skoðanir hjá aðildarfélögum BSSL um þessa starfsemi BSSL í Gunnarsholti. Þar við bættist að búnaðarmálastjóri og ríkisstjórnin sögðu upp ábúðarsamningi BSSL frá fardögum 1936, enn fremur var samþykkt á aðalfundi BSSL að hætta öllum búrekstri í Gunnarsholti. Sandgræðslan keypti svo af BSSL kýr og hesta, ýmis tæki, fasteignir og verkfæri fyrir tæpar tíu þúsund krónur. En eitthvað af smáhlutum var selt á uppboði.