Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tollflokkun á „pizza mix“ osti  til lykta leidd
Lesendarýni 12. janúar 2024

Tollflokkun á „pizza mix“ osti til lykta leidd

Höfundur: Erna Bjarnadóttir hagfræðingur hjá MS.

Þann 20. desember 2023 kvað Endurupptökudómur upp úrskurð þar sem hafnað var beiðni Danóls um að mál fyrirtækisins, sem var dæmt í Landsrétti 11. febrúar 2022, yrði endurupptekið.

Erna Bjarnadóttir

Forsaga málsins er sú að10. nóvember 2020 flutti Danól inn rúmlega 18 tonn af Festino IQF Mozzarella Pizza Mix. Efnisinnihald ostsins var rúmlega 80% mozzarellaostur en 11-12% pálmaolía. Þrátt fyrir að osturinn væri að uppistöðu úr mjólkurfitu flokkaði Danól ostinn í tollskrá sem „jurtaost“ en við það varð innflutningurinn tollfrjáls.

Tollgæslustjóri úrskurðaði að flokka bæri ostinn sem hvers konar rifinn eða mulinn ost en slíkur ostur ber allnokkra tolla. Í kjölfarið höfðaði Danól dómsmál og krafðist þess að úrskurður tollgæslustjóra yrði felldur úr gildi. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu kröfu Danóls og við það stóð úrskurður tollgæslustjóra.

Með beiðni um endurupptöku leitaðist Danól við að fá niðurstöðu Landsréttar breytt á þeim forsendum að mikilvægar upplýsingar sem síðan hafi komið fram hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu. Endurupptökudómur hafnaði þeirri beiðni Danóls.

Einstakt mál á ýmsa vegu

Mál þetta hefur líklega vakið meiri umræður um tollflokkun og gildi hennar en áður hefur þekkst.

Tollar eru í eðli sínu skattar og því eru ríkar kröfur gerðar þegar vafi leikur á um tollflokkun. Tollalög (88/2005) eru grunnurinn í tollframkvæmd og í þeim er fjallað um tengsl íslenskra laga við tollnafnaskrá Alþjóðatollastofnunarinnar sem ríki líta til við túlkun tollskráa sinna. Í málinu vísaði Danól m.a. til þess í endurupptökubeiðni að túlkun félagsins og skilningur á athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar (sjá 11. lið í úrskurði Endurupptökudóms) væri í samræmi við túlkun belgískra tollyfirvalda. Þá vísaði félagið til þess að Alþjóðatollastofnunin hefði tekið þetta mál sérstaklega fyrir og staðfest afstöðu Danól á fundi þann 23. mars 2023.

Ríkislögmaður benti á móti á að fundargerð tollskrárnefndar Alþjóðatollastofnunarinnar frá 23. mars 2023 geti engu breytt um dómsmál á Íslandi sem dæmt hafi verið 11. febrúar 2022. Af hálfu ríkislögmanns kom m.a. fram að „[á] litið sé samkvæmt fundargerðinni fengið með atkvæðagreiðslu þar sem Ísland hafi lent í minnihluta. Ríki [ESB] hafi verið ósammála Íslandi á meðan til dæmis Bandaríkin hafi verið sammála skoðun Íslands á tollflokkun.“

Ríkislögmaður benti einnig á að „[m]eð vísan til fullveldis Íslands og þess að fyrir liggi niðurstaða íslenskra dómstóla verði að telja að álit tollflokkunarnefndar breyti ekki eftir á lögskýringum í landsréttarmáli nr. 462/2021 rúmu ári eftir að dómurinn féll.“

Sérstök framganga ESB og þingmanna

Það verður að telja sérstakt að aðdragandi þess að Alþjóðatollastofnunin tók málið til umfjöllunar hafi verið að ESB vísaði málinu þangað. Hvernig komst málið í þann farveg – hafði Félag atvinnurekenda samband við framkvæmdastjórn ESB?

Enn sérstakari verður þó að telja framgöngu nokkurra þingmanna hér á landi og jafnvel stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þann 19. apríl 2023 fékk nefndin á fund sinn Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson sem var lögmaður Danól í fyrrnefndum málaferlum. Síðan hvenær er það hlutverk þingnefnda að taka við kvörtunum frá einkaaðilum yfir niðurstöðum dómstóla? Getum við ekki örugglega treyst á aðskilnað milli dómsvalds og löggjafarvalds eins og mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar?

Síðar sama dag var fjármálaráðherra spurður um málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og fjallað var um það í grein frá þingmanni í Morgunblaðinu þann 24. apríl 2023.

Þar var látið að því liggja að Alþjóðatollastofnunin hefði yfirþjóðlegt vald en það stenst enga skoðun eins og niðurstaða Endurupptökudóms ber með sér. Ísland er fullvalda ríki og fundargerðir nefnda hjá alþjóðastofnunum ganga ekki framar niðurstöðum íslenskra dómstóla.

„Í hvaða tollflokk fer jurtaostur á pitsur?“

Gervigreind ryður sér nú til rúms á flestum sviðum samfélagsins. Skemmst er að minnast áramótaskaupsins í því sambandi. Til gamans ákvað ég að prófa hvað gervigreindarforritið ChatGPT segði um tollflokkun á jurtaosti á pitsur og spurði þessarar spurningar. Svarið barst um hæl:

„Tollflokkur fyrir jurtaost á pitsur getur breyst eftir landi og tollkerfi þess lands. Í sumum tilfellum er jurtaostur flokkaður sem mjólkurafurð í tollkerfinu, en í öðrum tilfellum getur hann verið flokkaður sem jurtaafurð eða annar flokkur, sérstaklega ef hann er úr plöntum eða jurtaafurðum. Því er gott að skoða tollreglugerðir landsins sem þú ert að átta þig á, eða hafa samband við tollstjóra til að fá nákvæmar upplýsingar um tollflokkinn sem gildir fyrir jurtaost á pitsur í ákveðnu landi.“

Þetta er einmitt kjarni málsins. Tollskrá og tollflokkun þarf að bregðast við nýjum vörum og vöruþróun, eðli máls samkvæmt koma þar upp vafaatriði. Því er nauðsynlegt að tollyfirvöld birti opinberlega þau bindandi álit sem út eru gefin. Það hefur ekki verið gert en telja verður að tollyfirvöldum beri skylda til þess.

Þá er einnig löngu tímabært að setja lagareglu um að unnt sé að óska eftir bindandi áliti um uppruna vöru. Tollakjör ráðast einatt af viðskiptasamningum ríkja í milli og því er augljós þörf á að slík bindandi álit séu veitt og þau birt opinberlega til upplýsingar um tollframkvæmd.

Hvort tveggja er í samræmi við X. gr. GATT samningsins frá 1994 og framkvæmd helstu viðskiptalanda Íslands.

Niðurlag

Hinusvokallaða „PizzaMix“ máli er nú lokið og hefur fengist farsæl niðurstaða fyrir mjólkurframleiðendur.

Eitt er ljóst og það er að tollframkvæmd er í raun eilífðarverkefni – bæði fyrir stjórnvöld og hagsmunaaðila – og mikilvægt að vandað sé til verka eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma.

Skylt efni: tollflokkun

Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...