Lífið er ekki exelskjal
Lífið er ekki alltaf einfalt og því er það hrein fáviska ef menn telja mögulegt að stýra heilu þjóðfélögunum samkvæmt stífmótaðri hugmyndafræði í exelskjali. Það á ekki síður við íslenskan veruleika en erlendan þar sem fjölbreytni mannlífsins skiptir öllu máli.
Veruleiki og væntingar eins samræmist yfirleitt aldrei fullkomlega hugmyndum allra annarra. Því þurfa menn að mætast á miðri leið og reyna að samræma reglurnar þannig að sem flestir njóti þess hagræðis af myndun samfélagsins. Afskaplega verður gaman þegar hörðustu gagnrýnendur íslensks landbúnaðar átta sig á þessu.
Það lítur vel út í exelskjali að kaupa allar landbúnaðarvörur sem og aðra matvöru á erlendum útsölumörkuðum til sölu á Íslandi. Allavega fyrir kaupmanninn sem er með ráðandi markaðshlutdeild og hefur þá tök á að verðleggja vöruna nánast að eigin geðþótta. Það er þó næsta víst að exel-veruleikinn er svolítið annar en sá veruleiki sem viðkomandi kaupmaður gæti raunverulega staðið frammi fyrir.
Ef við tækjum þá gallhörðu ákvörðun að rústa íslenskum landbúnaði með botnlausum innflutningi á landbúnaðarvörum sem hugsanlega væri hægt að finna á útsölu erlendis, þá gerist ýmislegt. Þó þetta sé líklega býsna auðvelt, þá yrðu þúsundir fjölskyldna, sem eru beintengdar landbúnaði, um leið gjaldþrota. Þúsundir fyrirtækja sem hafa lifibrauð sitt af þjónustu við landbúnað og úrvinnslu landbúnaðarafurða yrðu sömuleiðis gjaldþrota. Þar af leiðir að listar atvinnulausra myndu lengjast, þ.e. ef allt þetta fólk sæi sig þá ekki tilneytt til að flýja land, líkt og í móðuharðindunum. Þetta gæti orðið ansi stór breyta í exelútreikningunum.
Við slíkar reikningskúnstir þarf nefnilega að reikna inn í dæmið hvað gerist þegar byggð í landbúnaðarhéruðum brestur. Innviðir með allri þjónustu við íbúana hrynur. Ekkert fólk verður þá eftir til að sinna ferðaþjónustu, sem nú um stundir er talað um sem eina af þrem aðalstoðum íslensks efnahagslífs. Um leið og dreifbýlið hrynur, hverfur sá hluti þjónustunnar í þéttbýlinu sem hefur lifibrauð sitt af því að sinna dreifbýlinu. Smám saman molnar því líka undan þéttbýlinu sem verður þá lítt spennandi fyrir ungt fólk að setja sig niður. Niðurstaðan úr exelreikningunum fínu gæti þá á endanum allt eins verið ávísun á eigin jarðarför kaupmannsins. Það er því trúlega betra að hugsa dæmin til enda.