Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Markaðurinn er Guð
Mynd / smh
Skoðun 16. nóvember 2017

Markaðurinn er Guð

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
EFTA-dómstóllinn kvað á þriðjudag upp dóm í máli þar sem deilt var um þá kröfu í íslenskum lögum að hrátt kjöt sem hingað er flutt hafi verið fryst í a.m.k. 30 daga fyrir  innflutning. Einnig var deilt um að ekki má flytja inn ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir sem og ógerilsneydd egg og afurðir úr þeim.
 
Niðurstaða dómsins var á þá leið að dómstóllinn telur Ísland ekki geta bannað innflutning á ófrosnu hráu kjöti, ógerilsneyddum eggjum og hráum eggjavörum. 
 
Dómstóllinn segir enn fremur að flytja megi inn ógerilsneydda mjólk, en gerilsneyða verður hana áður en hún eða afurðir úr henni fara á markað, enda má ekki markaðssetja ógerilsneydda mjólk sem framleidd er hér heima.
 
Um er að ræða þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar en fjölmargir hafa bent á þá áhættu sem felst í auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna og fleiri sem vara við óheftum innflutningi þá kemst EFTA-dómstóllinn að annarri niðurstöðu.
 
Niðurstaða dómsins getur að  óbreyttu valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. Ísland er ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar. Ég geri ekki ráð fyrir að verslunin og innflutningsfyrirtækin sem hæst hafa haft vegna þessa fyrirkomulags ætli að hjálpa til við það.
 
Niðurstaðan dregur skýrt fram að vísindaleg rök hafa ekkert gildi gegn markaðslegum rökum að mati dómstólsins. Allt víkur fyrir þeim, bæði heilsufarsleg, umhverfisleg og almenn sanngirnisrök. Í 13. grein EES-samningsins eru að vísu ákvæði um að taka megi tillit til sjónarmiða sem snerta heilsu manna og dýra en í þessari niðurstöðu er hún að því má segja, túlkuð út af borðinu en ekki færð mikil efnisleg rök fyrir af hverju ekki er tekið tillit til hennar. Hún heldur greinilega ekki gegn valdi markaðarins.
 
Innflutningur á búvörum hefur aukist mikið
 
Stóraukinn innflutningur á búvörum hingað til lands síðustu ár er staðreynd. Milliríkjasamningar og minni tollvernd hafa gert það að verkum að markaðir eru opnari en áður var. Sem dæmi voru flutt inn 3.161 tonn af kjöti á síðasta ári sem umreiknað í kjöt með beini er um 5.300 tonn. Þúsundir tonna af grænmeti eru flutt inn árlega, í fyrra rúm 1.200 tonn af tómötum og tæp 1.500 tonn af papriku, rúm 1.300 tonn af jöklasalati o.s.frv. Þessu fylgja óhjákvæmilega auknar líkur á því að hingað til lands berist ýmis smit með matvælum, s.s. salati eða kjötvörum, sem ógnað geta heilsu manna og dýra. Það var því kaldhæðni örlaganna að sama dag og EFTA-dómstóllinn kvað upp sinn dóm voru sagðar fréttir af aukinni tíðni listeríu- og salmonellusýkinga í fólki hér á landi. Frystiskylda á kjöti er varúðarráðstöfun sem minnkar líkur á að óværa berist hingað til lands. Enn og aftur er augljóst að krafan um frjálst flæði vöru og aukin milliríkjaviðskipti vegur þyngra en varúðarráðstafanir til að verja heilsu manna og dýra.
 
Bændur munu ekki láta staðar numið 
 
Hvað sem öðru líður þá munum við áfram verja okkar stöðu sem er einstök. Það hefur komið skýrt fram í umræðu um þessi mál að okkar færustu vísindamenn í sýklafræði og bæði manna- og búfjársjúkdómum hafa varað sterklega við innflutningi á ófrosnu hráu kjöti og öðrum þeim vörum sem geta borið með sér smit. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu.
 
Sérstaða íslensks landbúnaðar felst meðal annars í því að hér er búfjárheilsa góð og sýklalyfjanotkun í landbúnaði í algjöru lágmarki. Þar sem notkunin er mest er hún mörgum tugum sinnum meiri en hér. Sýklalyfjaónæmi er talið ein helsta lýðheilsuógn mannkyns á næstu áratugum en það hefur aukist hratt samhliða ofnotkun sýklalyfja í nútímalandbúnaði.  Sjúkdómastaða íslensks búfjár er í algerum sérflokki jafnvel svo að aðrar þjóðir hafa sótt hingað þekkingu í sinni baráttu svo sem til að takast á við kampýlóbaktersýkingar í kjúklingum – sem eru ein algengasta orsök matarsýkinga víða um lönd. Hér er skimað fyrir þessari sýkingu reglulega allt árið og skylt er að frysta afurðir ef sýking kemur upp.  Það er ekki gert annars staðar nema í Noregi en þar eru afurðir ekki skimaðar nema yfir sumarmánuðina.
 
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir sýklafræðideildar Landspítalans, segir í forsíðufrétt blaðsins að hann hafi sérstakar áhyggjur af innflutningi á ferskum kjúklingum. Þar segir hann að innflutningur á þeim geti hæglega stefnt í hættu þeim ströngu reglum sem viðhafðar eru í kjúklingaeldi hér á landi. „Kjúklingaeldið hér er nánast kampýlóbakter-laust og mælist undir 5%, en hefur til dæmis mælst 75% í verslunum í Bretlandi og víðar í Evrópu. Það er því nokkuð ljóst að innflutningur á ferskum kjúklingum er líklegur til að fjölga kampýlóbakter-tilfellum í landinu“, svo vitnað sé beint í orð Karls.
 
Annar sérfræðingur, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, hefur einnig látið til sín taka í umræðunni. Í viðtali í Bændablaðinu í fyrravetur sagði hann að landfræðileg einangrun Íslands sé höfuðástæða þess að húsdýr hérlendis eru að mestu laus við mörg þeirra smitefna sem landlæg eru í húsdýrum utan Íslands. Þessa dýrastofna beri Íslendingum skylda til að verja.
 
Landbúnaðarráðherra ber mikla ábyrgð
 
Starfandi landbúnaðarráðherra fór mikinn í fréttum á þriðjudag og taldi að reglur um innflutning hefðu brotið á neytendum. Hagsmunir neytenda virðast þó ekki alltaf skipta máli þegar grannt er skoðað. Í matvælalögum segir meðal annars: „Matvælaeftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat að beiðni ráðherra eða Matvælastofnunar.“ Þetta hefur aldrei verið gert. Á því ber starfandi ráðherra vissulega ekki ein ábyrgð, en hún ber ein ábyrgð á því að leggja fram fjárlög þar sem skorið er verulega niður til matvælarannsókna Matís sem eru mikilvægur þáttur í matvælaöryggi landsins. Óhætt er að taka undir orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis þar sem hann kallar eftir auknu eftirliti þar sem skimað er fyrir bakteríum í matvælum, hvort heldur sem er í innlendum eða erlendum mat. Þann samanburð óttast bændur ekki.
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...