Miklar og málefnalegar umræður á Búnaðarþingi
Á nýafloknu Búnaðarþingi, þar sem nýtt félagskerfi Bændasamtakanna var meginstefið, voru lagðar fram tillögur um sameiningu búgreina undir Bændasamtök Íslands. Miklar og málefnalegar umræður urðu um tillögurnar og í stuttu máli sagt voru þær samþykktar af öllum fulltrúum á þinginu án mótatkvæða.
Ég vil þakka þeim sem komu að þessari vinnu með einum eða öðrum hætti svo sem stjórnum búgreinafélaganna og stjórnum búnaðarsambanda sem voru með gagnrýnar athugasemdir á fyrri stigum og vegna þeirrar vinnu tókst svo vel til í afgreiðslu má-lsins á þinginu sjálfu. Ekki síst vil ég óska bændum til hamingju með að hafa náð þessum áfanga eftir margra ára umræður meðal bænda um að einfalda félagskerfið. Nú er verk að vinna að móta framtíðarstarfið á grunni samþykkta sem verða staðfestar á aukabúnaðarþingi þann 10. júní næstkomandi, þar sem áætlað er að nýtt fyrirkomulag taki gildi þann 1. júlí 2021.
Mjög mikil vinna hefur farið í þessar breytingar af hálfu stjórnar og starfsmanna, eins og ég hef komið inn á í skrifum mínum á þessum vettvangi. En þessu er ekki lokið, nú hefjumst við handa með að skilgreina skipuritið á skrifstofunni og starfslýsingar þar sem verkefnum verður deilt niður á einstaka starfsmenn, hver er tengiliður hverrar deildar og svo framvegis. Enn og aftur, þessi breyting verður vonandi landbúnaði til heilla og að bændur komi fram sem einn hópur.
Þakkir til starfsfólks og gesta
Við setningu Búnaðarþings þurfti mikið skipulag og ekki síður á þinginu sjálfu. Á grundvelli sóttvarna urðum við að skipta sal-num í tvö hólf og svo varð að takmarka gestafjölda á setninguna. Nefndarstörf urðu að fara fram á grundvelli hólfaskiptinga. Starfsmenn þingsins unnu frábært starf í skipulagi og utanumhaldi á framkvæmd þingsins og fyrir það ber að þakka. Ekki má gleyma starfsmönnum Hótels Sögu sem gerðu okkur kleift að halda þetta svo sómi varð af. Við buðum einungis formönnum stjórnmálaflokkanna og svo auðvitað ræðumönnum dagsins, þeim Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Ég vil þakka þeim öllum fyrir góð orð á setningunni í garð íslensks landbúnaðar og ef allir hefðu þessa sýn sem fram kom í þeirra ræðum þá kvíði ég ekki framtíð íslensks landbúnaðar.
Rannsóknir, afleysingaþjónusta, nýliðun og sýklalyfjaónæmi
Óvenjufá mál lágu fyrir Búnaðarþingi að þessu sinni og helgast það sjálfsagt af því stóra máli sem breytingar á félagskerfi bænda fela í sér. Þó voru sex mál til viðbótar sem borin voru upp og samþykkt samhljóða af þingfulltrúum, sem hafa hvert og eitt mikla þýðingu í starfi bænda. Eitt þeirra snýr að rannsóknum á kolefnisspori í íslenskum landbúnaði þar sem Búnaðarþing beinir því til Alþingis að auka fjármagn á þessu sviði ásamt því að LbhÍ taki forystu í rannsóknum á þessu sviði. Einnig var lögð áhersla á að samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar verði styrkt með öflugra vísinda-, mennta- og rannsóknarstarfi í greininni. Þá var samþykkt að gerður verði samningur við Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga til að koma á afleysingaþjónustu fyrir bændur vegna veikinda og slysa. Mál um betri stuðning við nýliðun í landbúnaði var einnig samþykkt á þinginu ásamt því að kallað er eftir endurskoðun á tryggingamálum bænda, þar með talið á lögum um Bjargráðasjóð. Fulltrúar á Búnaðarþingi hvetja einnig stjórnvöld til að gæta hagsmuna landsmanna til að verjast sýklalyfjaónæmi eins og kostur er. Það er ljóst að verkefnin í íslenskum landbúnaði eru brýn og hvergi má slá slöku við. Mín bjargfasta trú er sú að við sameiningu búgreinafélaga og Bæn-dasamtakanna stöndum við sterkari saman og förum bjartsýn með baráttuþreki Áfram veginn til framtíðar.