Naglapakkar og lífsýni
Þegar ég var við nám í Háskólanum á sínum tíma var ég ekki alveg jafn fyrirhyggjusamur og sumir samnemendur mínir. Upp úr áramótum fór ég að heyra um hinn og þennan sem búinn var að tryggja sér sumarstarf í hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum. Ég var hins vegar kærulaus og spáði lítið í þetta.
Leið nú og beið og farið var að styttast í vorpróf. Á þessum tíma bjó ég á stúdentagörðum í Vatnsmýrinni. Í 50 metra fjarlægð frá íbúðinni minni stóðu yfir miklar framkvæmdir við byggingu húss Íslenskrar erfðagreiningar. Dag einn rölti ég niður á vinnusvæðið og hitti fyrir verkstjóra, sagði honum að ég væri úr sveit og hefði unnið í byggingarvinnu veturinn áður og með það handsöluðum við að ég myndi mæta til vinnu eftir að vorprófum lyki.
Þetta var ágæt vinna, svolítið eins og í sveitinni heima. Ég gat stillt vekjaraklukkuna á að hringja fimm mínútum áður en ég þurfti að mæta til vinnu, skroppið heim í morgunkaffi og hádegismat og jafnvel lagt mig í korter í hádeginu. Þó að launin væru bara í meðallagi var þetta uppgripavinna. Eftir að hefðbundnum vinnudegi var lokið fór ég mörg kvöld í steypuvinnu.
Talað hefur verið um að fyrir hrun hafi mikið gengið á í byggingaframkvæmdum og ýmsir gallar hafi komið í ljós á húsum sem byggð voru á þeim uppgangstímum. Ég ætla svo sem ekki að alhæfa um hvernig þessu var farið með hús Erfðagreiningarinnar, sem reis á 14 mánuðum. En þegar útveggurinn að vestanverðu hrynur með brauki og bramli einhvern tíma í framtíðinni verður það alla vega ekki mér að kenna. Það var ekki ég sem henti heilum naglapakka niður í steypumótið til að loka gati sem gleymst hafði að slá upp undir. Það var annar.
Ósköp væri nú annars gaman ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvað í veröldinni fyrirtækið Íslensk erfðagreining gerir eiginlega. Árum saman hefur verið hamrað á því að rannsóknir fyrirtækisins séu landslýð öllum til mikils gagns og jafnvel heimsbyggðinni líka. Öðru hvoru koma svo fréttir um að fundist hafi sameiginlegur erfðaþáttur hjá öllum sem eru með fótaóeirð eða einhvern fjárann. Hvernig það hjálpar okkur hefur ekki komið fram. Það eina sem ég man eftir að hafi í alvöru gerst varðandi þetta fyrirtæki er að fjöldi fólks tapaði fullt af peningum með því að fjárfesta í hlutabréfum í því, sem í sumum tilvikum voru fjármögnuð með lántökum. Ég vona alla vega að það læknist einhvern tíma af óeirðinni.
Og nýjustu tiltæki fyrirtækisins vekja spurningar. Nú á að láta hundrað þúsund Íslendinga skafa innan úr kinnunum á sér til að fyrirtækið fái enn fleiri lífsýni til að greina mögulega ættgengni gyllinæðar eða annarra sjúkdóma. Enginn virðist gera athugasemdir við að einkafyrirtæki fái með þessum hætti lífsýni úr hátt í þriðjungi þjóðarinnar til viðbótar við þau lífsýni sem þegar eru til staðar. Ætli ég fylgi ekki fordæmi ágæts manns í þessum efnum, sem tilkynnti á Facebook að hann væri búinn að skafa innan úr kinninni á kettinum sínum.