Nýr framkvæmdastjóri, garðyrkjunám og tollkvótar
Á stjórnarfundi þann 26. janúar síðastliðinn var samþykkt að ráða Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur í starf framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands. Hún mun hefja störf í byrjun febrúar og vil ég óska henni til hamingju með starfið og vona að við sem bændur megum njóta hennar starfskrafta í okkar baráttumálum í framtíðinni. Jafnframt vil ég þakka Oddnýju Steinu Valsdóttur fyrir hennar innkomu í starf framkvæmdastjóra meðan við leituðum að nýjum, en svo það sé ekki á neinn hallað hefur hún skilað því verki af miklum metnaði.
Garðyrkjunám
Í síðasta tölublaði var frétt á forsíðu Bændablaðsins um tilfærslu náms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskólanum til Fjölbrautaskólans á Suðurlandi. Það er okkar sýn að nám á framhaldsskólastigi eigi frekar heima undir fjölbraut en undir háskóladeild.
Nauðsynlegt er að hlúa að starfsnámi til framtíðar undir einingu sem sinnir starfsmenntanámi á skólastigi sem sinnir þeirri sýn og er með þá umgjörð sem námið geti þróast og vaxið á grunni samstarfs við atvinnugreinina og möguleika ungs fólks til metnaðarfulls starfsnáms. Með þetta að leiðarljósi vil ég hvetja ráðherra menntamála til að ganga frá samningi milli aðila um umgjörð námsins til framtíðar en það mál er enn óleyst í ráðuneytinu. Það er nauðsynlegt að þessi mál komist á hreint sem allra fyrst þannig að nemendur og starfsfólk séu ekki í einhverri óvissu næstu misserin.
Tollkvótar
Nú hefur verið tilkynnt um útboð á tollkvótum á grundvelli samninga um innflutning á landbúnaðarvörum til landsins. Með breyttu útboðskerfi hefur verð á tollkvótum breyst aðeins með hækkun á ákveðnum vörum og lækkun á öðrum flokkum.
Eitt er verðið á kvótanum og svo er hitt, það er, þetta mikla magn sem samið var um við ESB á sínum tíma sem er allt of mikið magn miðað við stöðu markaðarins í dag án ferðamanna.
Annað er líka að verð á kjötmörkuðum í Evrópu er í sögulegu lágmarki þar sem framleiðendur erlendis eru einnig að berjast við markaðsbrest vegna COVID-19.
Ég tel að íslensk stjórnvöld verði að standa með innlendri framleiðslu. Ráðherra utanríkismála hefur óskað eftir viðræðum við ESB um endurskoðun á samningnum og bind ég vonir um að það leiði af sér ásættanlega niðurstöðu fyrir íslenskan landbúnað. En á sama tíma er verið að semja við Breta um milliríkjasamning vegna afurða frá Íslandi og til Íslands. Ég treysti því að landbúnaðurinn fái að njóta sanngirni í þeim viðræðum.
Meðfylgjandi tafla var birt á vefsíðu Hagstofunnar um miðgildi launa á tímakaupi nokkurra ríkja. Þar má sjá að við erum ansi há á grundvelli meðaltals en það sem vekur mig til umhugsunar er hversu gríðarlega lág laun eru greidd í Póllandi, en við þetta þurfum við að keppa á Íslandi í framleiðslu á landbúnaðarvörum. Ríki eins og Þýskaland og Danmörk nýta sér sláturhús í Póllandi, þar sem launin eru mun lægri, til þess að lækka verð á afurðum til að auka samkeppnishæfni sína á mörkuðum.
Ég verð oft hugsi hvort að okkur sé alveg sama hvaða laun eru greidd við þá framleiðslu sem við flytjum inn en viljum halda uppi mannsæmandi launum hér við okkar framleiðslu?