Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Reykjanesskaginn hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna jarðskjálftavirkni og eldgoss í Geldingadal. Þessi mynd er tekin úr Eldvörpum í átt að Svartsengi með fjallið Þorbjörn til hægri. Eldvarpahraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211–1240.
Reykjanesskaginn hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna jarðskjálftavirkni og eldgoss í Geldingadal. Þessi mynd er tekin úr Eldvörpum í átt að Svartsengi með fjallið Þorbjörn til hægri. Eldvarpahraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211–1240.
Mynd / HKr.
Skoðun 26. mars 2021

Öfl náttúrunnar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Náttúruöflin minna okkur á það þessa dagana hversu fallvalt gengi okkar mannanna getur verið á Íslandi. Þó eldgos í Geldingadal á Reykjanesi, sem hófst að kvöldi 19. mars, þyki frekar meinlaust, alla vega sem stendur, þá getur hæglega komið upp skaðlegra gos annars staðar á og við Reykjanesskagann.

Mikil skjálftavirkni við Reykjanestá fyrir skömmu minnti á að sprengigos kom þar upp í sjó á miðöldum sem olli því að búsmali féll í Borgarfirði og fjöldi fólks er einnig talinn hafa látið lífið. Sprengigos á þeim stað í dag gæti einnig stöðvað allt millilandaflug um Keflavíkurflugvöll og jafnvel um Reykjavíkurflugvöll líka. Stærsti hlutinn af innfluttu grænmeti og ávöxtum kemur með flugvélum. Í öllu tali um fæðuöryggi þjóðarinnar er mikilvægt að menn hafi þetta í huga. Það hlýtur því að vera afar mikilvægt að haldið sé áfram að byggja upp íslenskan landbúnað með fæðuöryggi þjóðarinnar í huga, það er sannarlega þjóðaröryggismál. Það er samt alls ekki sama hvernig það er gert. Því skilvirkara og sjálfbærara sem slíkt framleiðslukerfi er, því betra fyrir alla þjóðina. Bændur eru örugglega tilbúnir í þann slag og sást það mjög vel í mikilli samstöðu þeirra á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Þeir hafa nú samþykkt að stokka upp sitt félagskerfi, einmitt til að ná fram meiri skilvirkni. Þetta mun örugglega smita út frá sér út í framleiðslugreinarnar sjálfar.

Hjá svona lítilli þjóð eins og okkar, þá er auðvitað ekki hægt að byggja upp skilvirkar og hagkvæmar framleiðslueiningar nema með mikilli samstöðu og þá líka þvert á greinar. Kannski það stangist í einhverjum tilfellum á við samkeppnissjónarmið sem byggð eru á skilgreiningum sem teknar eru upp frá milljónaþjóðfélögum, en þá verður bara að hafa það. Þar verðum við að láta skynsemina ráða og sníða þarf regluverkið að okkar þörfum. Leikreglur samfélagsins eru nefnilega mannanna verk og ætlaðar til að þjóna almenningi, en ekki öfugt. Fólk á aldrei að vera þrælar regluverksins eins og vaxandi tilhneiging virðist vera til að innleiða hér á landi.

Þó eldgos séu ekki daglegt brauð á Íslandi, þá þarf þjóðin alltaf að vera í stakk búin til að geta tekist á við náttúruöflin. Þar er við ýmislegt að glíma, skriður, snjóflóð og vatnsflóð af völdum veðurs auk jarðskjálfta og eldgosa.

Frá því um 920 hafa eldgos á Reykjanesi og í sjó skammt undan landi valdið margvíslegu tjóni. Á árunum 1160–1180 gaus tvisvar í sjó undan Reykjanesi. Á árunum 1210–1211 myndaðist Eldey. Árið 1223 var gos undan Reykjanesi og sömu leiðis að talið er á árunum 1231, 1238, 1240, 1422, 1733 og 1783. Síðan virðist lítil eldvirkni hafa verið á þessum slóðum ef undan er skilið mögulegt gos á Eldeyjarboða 1830 og við Geirfuglasker 1879. Jarðskjálftahrina við Reykanestá á síðustu vikum sýnir að ekki er hægt að útiloka þar eldgos í sjó.

Þó fólki finnist eldgosið krúttlegt sem nú er í gangi á Reykjanesi, þá mega menn aldrei gleyma því að gas sem streymir frá eldgosum er stórhættulegt. Koltvísýringur er eitt, en brennisteinsvetni, sem fólk þekkir sem bláa móðu, getur verið mun hættulegra. Það getur hæglega valdið alvarlegum lungnaskaða. Við skulum ekki gleyma afleiðingunum af Lakagígagosinu 1783–1784. Það breytti loftslagi um tíma á norðurhveli jarðar og þá fórst um fimmtungur íslensku þjóðarinnar, eða um 10.000 manns. Áætlað hefur verið að tugir eða hundruð þúsunda manna í Evrópu og allt suður til Afríku og austur til Asíu hafi látið lífið af völdum þess. – Berum virðingu fyrir náttúrunni og verum viðbúin til að takast á við óblíð náttúruöflin.

Skylt efni: Náttúruöflin | Reykjanes | Eldgos

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...