Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Plöntuspjall að vori
Skoðun 25. maí 2016

Plöntuspjall að vori

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í indversku spekiritunum Rig Veda segir að maðurinn hafi lært að þekkja ætar plöntur frá eitruðum með því að fylgjast með fæðuvali grasbíta. Síðan hefur hann lært að rækta og kynbæta plöntur til að fullnægja þörfum sínum.

Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasalæknum og þær voru ræktaðar í klausturgörðum. Munkar og grasalæknar sáu um að líkna sjúkum og græða sár með jurtalyfjum og smyrslum.

Jurtalyf hafa ekki eingöngu verið notuð til lækninga, þau geta líka verið sterkt eitur, og á tímum Grikkja og Rómverja voru þau talsvert notuð til að ryðja pólitískum keppinautum úr vegi. Frú Lacusta, eitursérfræðingur Neró keisara, var einstaklega lagin við það og aðstoðaði hún hann í valdabaráttunni með því að eitra fyrir andstæðingum hans.

Sedrusviðurinn naut á sínum tíma átrúnaðar kristinna manna, gyðinga og múslíma, þótt hver hefði sína ástæðu. Fíkjutré eru álitin heilög af búddistum vegna þess að Siddharta Gautama öðlaðist nirvana undir einu slíku. Hindúar trúa því að guðinn Brahna hafi breyst í fíkjutré og hver man ekki eftir fíkjutrénu í aldingarðinum Eden þar sem það þjónaði sem klæðaskápur Evu.

Helgileikir í tengslum við árstíðir og uppskeru eru oft tengdir hlutum úr tré, þekkt dæmi um þetta eru jólatré og maísstöngin. Fyrir tíma kristninnar þekktist það í Norður-Evrópu að unglingar færu út í skóg og kæmu til baka með skreyttar trjágreinar, reðurtákn – tákn frjósemi – sem síðan var dansað kringum.

Í kristni eru plöntur notaðar sem tákn og Jesú notaði þær oft í dæmisögum sínum. Fífillinn er bitur á bragðið og táknar pínu Krists og krossfestinguna. Samkvæmt helgisögninni var krossinn smíðaður úr ösp og þess vegna skjálfa lauf asparinnar án afláts. Rósir eru tákn Krists og María guðsmóðir var kölluð rós án þyrna vegna þess að hún var talin syndlaus. En kristnir menn hafa ekki alltaf verið jafn sáttir við rósir.

Rómverjar litu á rósina sem merki um sigur og hún var tákn ástargyðjunnar Venusar. Rósin var eftirlætisblóm keisarans í Róm og heiðins háaðals og hafði táknrænt gildi í svallveislum Rómverja.
Í sveitahéraði einu á Ítalíu fer fullorðinsvígsla unglinga fram með þeim hætti að afi og amma unglingsins velja ungt tré og kljúfa stofn þess.

Unglingurinn smeygir sér síðan nakinn gegnum tréð, rétt eins og hann sé að fæðast aftur, en að þessu sinni er unglingurinn að fæðast inn í heim hinna fullorðnu. Síðan er tréð bundið saman eins og um ágræðslu sé að ræða, unglingurinn og tréð halda svo áfram að vaxa og þroskast saman.

Forn-Grikkir töldu að Adonis hefði fæðst af mytrustré og að börkur þess hafi rifnað eftir tíu mánaða meðgöngu. Alexander mikli á að hafa komið að talandi tré í einni herferð sinni, tréð ávítaði hann fyrir valdagræðgi og spáði fyrir um dauða hans í ókunnu landi.

Askurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Óðinn hékk níu nætur í tré til að öðlast visku og Adam og Eva borðuðu af skilningstrénu og voru rekin úr paradís fyrir vikið. Í norrænni goðafræði eru dæmi þess að menn hafi blótað tré og lundi í tengslum við Freysdýrkun.

Skylt efni: Stekkur | plöntur | VOR

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...