Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Spjallað við bændur
Mynd / TB
Skoðun 25. janúar 2018

Spjallað við bændur

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Bændasamtökin hafa nýlokið fundaferð um landið sem fjallað er ítarlegar um hér á opnunni. Það var ánægjulegt fyrir okkur sem störfum í forystu samtakanna að hitta nær 600 bændur á 18 fundum sem tókst að halda á aðeins fjórum dögum þrátt fyrir árstíma þar sem allra veðra er von. 

Ég vil þakka öllum sem sóttu fundina og ræddu við okkur um það sem á þeim brennur og ég þakka einnig fulltrúum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins fyrir þeirra framlag. RML hefur nú starfað í fimm ár og ég tel að enginn þurfi að efast um það lengur að ákvörðunin um að sameina krafta ráðgjafarþjónustunnar var rétt.

Landbúnaður og loftslagmál

Það var áberandi á fundunum að bændur hafa áhyggjur af loftslagsmálum. Það er vaxandi þungi í umræðu um þessi mikilvægu mál í samfélaginu og núverandi ríkisstjórn hefur sett sér það markmið að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040. Það er ekkert skrítið. Það sama er að gerast um allan heim enda eru loftslagsbreytingar eitt stærsta vandamál sem mannkynið fæst við nú um stundir. Hlýnun jarðar og sviptingar í veðurfari ógna lífsskilyrðum fjölda fólks og flestir leiðtogar í veröldinni eru sammála um að aðgerðir geta ekki beðið lengur. Samfélagið allt á Íslandi þarf að vera hluti af lausn þessara mála, þar með talið landbúnaðurinn.

Hins vegar má það ekki verða þannig að sú lausn verði bundin við eina töfralausn, þ.e. að moka ofan í skurði og láta svo gott heita. Það þarf víðtækari hugarfarsbreytingu. Umræðan hérlendis hefur svolítið þróast í þá átt að það eigi helst að horfa á skurðina enda séu þeir að valda langmestri losun. Það skal ekki dregið í efa að losun frá framræstu landi getur verið veruleg og vissulega var mikið af landi ræst fram hér á árum áður. Þeirra tíma áætlanir voru um að stórauka ræktun um land allt og auka landbúnaðarframleiðsluna verulega. Ekki urðu allar þær hugmyndir að veruleika og mörgum þessara skurða hefur aldrei verið haldið við. Þeir eru löngu hættir að þurrka upp land.

Aukum rannsóknir og bætum upplýsingar

Landið okkar er líka stórt og náttúrufar um margt ólíkt milli svæða. Til að ná betur utan um þetta þurfum við að bæta gögnin okkar verulega. Það hlýtur að vera munur á losun eftir ástandi skurða. Losun getur ekki verið sú sama frá nýframræstu landi og því sem var ræst fram 1950 með margfalt minni tækjum með skurðum sem aldrei hefur verið hreinsað upp úr síðan. Það getur líka verið munur eftir veðurfari.  Losun frá framræslu verður þegar lífræn efni í jarðveginum rotna og það hlýtur að vera minna á svæðum þar sem frost er lengur í jörðu og þar fram eftir götunum.

Með því er alls ekki dregið úr því að endurheimt votlendis geti verið verulegur hluti af lausn Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt samþykktri stefnu Landssamtaka sauðfjárbænda eru hugmyndir þeirra um kolefnisjöfnun greinarinnar ekki síst byggðar á því að endurheimta votlendi. En við þurfum einfaldlega að setja mun meiri kraft í að bæta þau gögn sem núna eru að áætla losun frá framræstu landi, ekki síst þegar þau eru talin svona stór hluti af heildarlosun Íslands. Ég er sannfærður um að betri gögn munu sýna fram á að þetta er ofmetið í dag. Svo verður líka að nýta öll önnur verkfæri sem eru fyrir hendi. Það þarf að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka notkun endurnýjanlegrar orku. Það þarf að minnka sóun og auka landgræðslu og skógrækt. Þetta er allt nauðsynlegur hluti af því að minnka losun og auka bindingu. Bændur hafa þegar bundið verulega mikið kolefni í gegnum þátttöku sína í „Bændur græða landið“ og í bændaskógrækt. Umfang þess hefur ekki verið reiknað en það hófst löngu fyrir tíma kolefnisbókhaldsins. Það er hins vegar ekki aðalatriðið heldur það að lausnin í loftslagsmálum getur ekki skilað árangri nema að samfélagið í heild taki þátt. Aðeins þannig.

Markaðshyggja sett framar sjónarmiðum um lýðheilsu og búfjárheilsu 

Á fundunum komu jafnframt fram verulegar áhyggjur af hugsanlegum áhrifum EFTA-dómsins sem féll í nóvember sl. og tollasamnings við ESB sem tekur gildi þann 1. maí næstkomandi. Það er rétt að þessi dómur var vonbrigði. Dómstóllinn setti markaðshyggjuna framar sjónarmiðum um lýðheilsu og búfjárheilsu. Okkar einstaka sjúkdómastaða verður ekki svo auðveldlega fengin aftur ef hún glatast og enn þarf að taka til varna í því máli með öllum þeim verkfærum sem í boði eru. Þetta mál er eitt það mikilvægasta sem samtök bænda þurfa nú að takast á við og þeirri baráttu er alls ekki lokið.

Fleiri mál til umræðu

Jafnframt var mikið rætt um stöðu sauðfjárræktarinnar. Um það hefur ítarlega verið fjallað hér, en fyrstu viðbrögð stjórnvalda komu með 665 m. kr. fjárveitingu sem samþykkt var í fjáraukalögum 2017. Það var sannarlega ánægjulegt að það náðist fram og sýnir að stjórnvöld gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Útfærsla á þeim stuðningi sem nú er verið að greiða út er ákvörðun stjórnvalda og um hana var ekki samið við samtök bænda. Nú er hins vegar eftir að vinna að langtímalausn svo að staða sem þessi komi ekki upp aftur og vonandi næst lausn á því fljótt og vel.

Margt fleira kom upp, meðal annars félagsmál bænda. Afnám búnaðargjalds hefur þýtt miklar breytingar sem ekki er lokið. Bændur hafa skipað sér í mörg félög og mörgum þykir það kerfi flókið.  Þó er það svo að enginn getur sagt öðrum fyrir um hvaða félög eigi að starfrækja. Það verður einfaldlega þannig að þau félög sem félagsmenn vilja halda úti munu starfa áfram en hin leggjast af. Breytingar verða líklegast einhverjar á næstu misserum en þær munu taka tíma.

Að lokum vil ég ítreka þakkir fyrir góða fundi og óska lesendum ánægjulegs þorra.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...