Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður landssambans kúabænda
Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður landssambans kúabænda
Skoðun 16. ágúst 2021

Stefnulaus innflutningur á kostnað innlendrar framleiðslu

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir

Nýútkomin skýrsla frá RML um afkomu nautakjötsframleiðenda, sem nær til rekstraráranna 2017-2019, hefur sýnt fram á að tekjur af sölu nautakjöts stóðu ekki undir framleiðslukostnaði.

Á síðasta ári fengum við svo enn meiri afurðaverðslækkanir á okkur og því er staða greinarinnar í dag enn alvarlegri, líkt og bændaforystan hefur bent á um nokkurt skeið. Vandinn er líklega margþættur en þar ber helst að nefna aukna samkeppni við innflutning á lægri verðum.

Bleiki fíllinn

Í ræðu forsætisráðherra á síðasta Búnaðarþingi minntist hún á að innlendur landbúnaður og matvælaframleiðsla verði ein stærstu pólitísku mál þessarar aldar og að með skýrri stefnu um aukið hlutfall innlendrar framleiðslu af neyslu okkar sé í senn hægt að tryggja fæðu- og matvælaöryggi.

Þannig tryggjum við aðgengi að mat og höfum betri tök á að tryggja heilnæmi matvælanna t.d. með skýrum reglum um sýklalyfjanotkun. Þá getum við um leið unnið gegn loftslagsbreytingum með því að draga úr flutningum heimshorna á milli á mat sem hægt er að framleiða hér.

Gerðar eru ákveðnar kröfur um framleiðsluhætti og gæði innlendra matvæla. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að í það minnsta séu gerðar sömu kröfur til innfluttra matvæla og gerðar eru til innanlandsframleiðslunnar. Mynd / Gunnhildur Gísladóttir.

Þetta eru meginstef Matvælastefnu sem kynnt var í lok síðasta árs og í nýlegri Landbúnaðarstefnu fyrir Ísland var mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu ítrekað. Allt er þetta af hinu góða og stefnurnar gefa fögur fyrirheit um framtíðina. Bleiki fíllinn í herberginu er þó sá að þegar kemur að innflutningi matvæla fer núverandi fyrirkomulag alls ekki saman við markmið áðurnefndra stefna.

Stefnur og stefnuleysi

Það er landbúnaðinum lífs- nauðsynlegt að bregðast við og aðlagast breyttum neysluvenjum hverju sinni. Þrátt fyrir samdrátt í kjötneyslu almennt hefur neysla á nautakjöti aukist undanfarin ár og framleiðslan líka, en sé litið til síðastliðins áratugs hefur hlutdeild innlendrar framleiðslu í innanlandsneyslu dregist saman. Fyrir 10 árum voru 96% alls nautakjöts sem við borðum íslenskt og 4% innflutt en á síðasta ári var það íslenska komið í 80% og innflutta í 20%. Þessi þróun fer augljóslega ekki saman við stefnu um aukið hlutfall innlendrar framleiðslu af neyslu landsmanna. Það er líka erfitt að sjá að aukinn innflutningur tryggi aukna verðmætasköpun hérlendis. Með auknum innflutningi á kostnað innlendrar framleiðslu gefum við um leið frá okkur tækifæri til að hafa áhrif á hvernig við framleiðum matvæli, hvort sem er út frá umhverfis- eða heilsufarssjónarmiðum.

Þá þarf vart að skýra að með auknum innflutningi erum við ekki að draga úr flutningi með matvæli heimshorna á milli eða kolefnislosun. Til viðbótar ber að nefna að nýlega var sýnt fram á að íslenskt nautakjöt hefur allt að helmingi lægra kolefnisspor en erlent.

Í könnunum undanfarin ár hefur komið fram að neytendur vilja íslenskt kjöt umfram erlenda og í matvæla- og landbúnaðarstefnu stjórnvalda kemur skýrt fram vilji til þess að neytendum standi til boða heilnæm matvæli, framleidd hér á landi. En, það er erfitt fyrir íslenskan landbúnað að starfa eftir metnaðarfullum stefnum, sem á ýmsan hátt kalla á dýrari framleiðsluhætti en ella, og á sama tíma gert að keppa við innfluttar landbúnaðarafurðir sem jafnvel þurfa ekki að uppfylla sömu kröfur og eru þar af leiðandi á lægri verðum en við þurfum að fá fyrir okkar framleiðslu. Í verðstríðinu við innflutninginn hefur íslenski bóndinn því orðið undir, líkt og skýrsla RML sýnir. Framleiðendur eru komnir að sársaukamörkum og við þurfum að hafa hraðar hendur ef við viljum ekki að innlend nautakjötsframleiðsla leggist af.

Áskorun til frambjóðenda

Við gerum ákveðnar kröfur um framleiðsluhætti og gæði innlendra matvæla. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að í það minnsta séu gerðar sömu kröfur til innfluttra matvæla og gerðar eru til innanlandsframleiðslunnar.

Ég skora á frambjóðendur í komandi alþingiskosningum að kynna sér vel innlenda matvælaframleiðslu og landbúnað. Einnig skora ég á núverandi og verðandi þingmenn að horfast í augu við bleika fílinn í landbúnaðarherberginu og taka umgjörð innflutningsmála og tollasamninga með landbúnaðarvörur til gagngerrar endurskoðunar.

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...