Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Stjórnmálaöflin líta ólíkum augum á íslenskan landbúnað
Mynd / BBL
Skoðun 22. mars 2018

Stjórnmálaöflin líta ólíkum augum á íslenskan landbúnað

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Fjórir stjórnmálaflokkar af átta sem sitja á Alþingi hafa haldið landsþing eftir síðustu þingkosningar, tveir stjórnarflokkar og tveir stjórnarandstöðuflokkar. Stundum er ekki mjög skýrt hvað samþykktir slíkra funda segja í raun og veru og það er afar mismunandi hvað flokkarnir eyða mörgum orðum í landbúnaðinn með beinum hætti.
 
Samfylkingin hélt sinn fund í byrjun mars.  Í stjórnmálaályktun fundarins er ekki fjallað neitt um landbúnað eða dreifbýlið, en hægt er að finna landbúnaðarstefnu á vef flokksins sem er hluti af skjalinu „Eitt samfélag fyrir alla“ sem einnig var afgreitt á landsfundinum.   Inngangurinn þar er eftirfarandi:
„Mikil sóknarfæri eru í landbúnaði og liggja þau m.a. í þróun matvæla, tengslum við ferðaþjónustu og skógrækt. Endurskoða skal búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda og tryggja neytendum sanngjarnt verð og gæði. Draga þarf úr samtengingu framleiðslu og stuðnings ríkisins og færa stærri hluta stuðnings við landbúnað til sjálfbærrar nýtingar landsins …“
 
Ekki er þarna fjallað um mál sem brunnið hafa á landbúnaðinum síðustu mánuði eins og niðurstöðu EFTA-dómstólsins og sauðfjárræktina en síðar í kaflanum er lagt til að tollar verði lækkaðir, en einnig lagt til að ríkið setji sér matarstefnu sem taki mið af sjálfbærni í matvælaframleiðslu, loftslagsmálum, næringu, lýðheilsu og félagslegum þáttum.  
 
Taka má heils hugar undir hugmyndir um matarstefnu en bændur eru ekki sammála hugmyndum um frekari lækkun á tollum. Fyrri punktarnir geta þýtt ýmislegt og óljóst hvernig flokkurinn myndi vilja framkvæma þá ef hann fengi umboð til þess en taka má undir sumt í þeim.
 
Viðreisn og Framsókn á öndverðum meiði
 
Viðreisn og Framsóknarflokkurinn héldu sína fundi viku seinna. Fulltrúar Viðreisnar hafa verið duglegir að tjá sig á Alþingi um málefni landbúnaðarins og í þessari viku var formaður flokksins að spyrja landbúnaðarráðherra um útflutningsskyldu í sauðfjárrækt, í því skyni að fullvissa sig um að ráðherra hefði engar fyrirætlanir að koma henni á. Því miður tók ráðherrann undir það. Í stjórnmálaályktun fundarins er þó ekkert sérstaklega um landbúnað fjallað, en fram kemur að afnema eigi samkeppnishindranir á innlendum markaði svo sem í landbúnaði, fjölmiðlun og smásölu áfengis. Í atvinnumálastefnu flokksins (sem er eldri) er talað um að hætta allri framleiðslu- og sölustýringu í landbúnaði en veita búsetu- og svæðisstyrki. Um það er og verður ágreiningur á milli bænda og flokksins.
 
Framsóknarflokkurinn segir eftirfarandi í sinni stjórnmálaályktun um landbúnað: „Sjávarútvegur og landbúnaður eru grunnatvinnuvegir landsins og traustar stoðir í byggðum þess. Greinarnar þurfa ávallt að búa við sanngjörn starfsskilyrði. Tryggja þarf samkeppnishæfni þeirra og leggja áherslu á að styðja við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun. Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess að nýta betur innlend aðföng eftir því sem hægt er.“  
 
Þetta er jákvæður almennur texti sem túlka má með mismunandi hætti og ekki er þarna fjallað heldur um sauðfjárræktina eða tollamálin.  Hins vegar er mjög skýrt að orði kveðið í ályktun um byggðamál um hráakjötsmálið sem er eftirfarandi: „Í ljósi dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og eggjum er ljóst að vegið er að íslenskum búfjárstofnum og lýðheilsu Íslendinga. Framsóknarflokkurinn vill að bann við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum verði áfram tryggt í íslenskum lögum.“ Þetta er í góðu samræmi við ályktun nýliðins Búnaðarþings. 
 
Sjálfstæðisflokkurinn vill samkeppni og markaðslausnir
 
Sjálfstæðisflokkurinn fundaði um síðustu helgi og fjallar sérstaklega um landbúnaðinn í ályktun um atvinnumál.
 
„Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða í landinu. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og og neytenda.
 
Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Tvíhliða samningar um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir fela í sér sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað og auka valfrelsi neytenda. Íslenskur landbúnaður er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan landbúnað. Atvinnugreinin þarf sjálf að hafa tæki til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum neytenda og bænda. Framleiðslutakmarkanir þarf að útfæra þannig að þær stuðli að hagræðingu og framleiðniaukningu. Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum ný tækifæri innanlands og erlendis. Ferðamenn sem heimsækja landið sækjast eftir afurðum úr héraði og breiða út orðspor þeirra þegar heim er komið. Stefna ber að því að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað og vinna að því að hann geti starfað á markaðsforsendum, meðal annars með því að stuðla að lækkun tilkostnaðar á öllum stigum framleiðslunnar. Þá þarf að tryggja heilbrigða samkeppni með landbúnaðarvörur, þá sérstaklega mjólkurvörur, með það að markmiði að auka vöruúrval og bæta hag neytenda.“
 
Þarna er margt sem má taka undir sem ráðherra málaflokksins úr Sjálfstæðisflokknum tekur vonandi til sín. Þó er ýmislegt mjög opið fyrir túlkunum og stundum getur verið erfitt að átta sig á hvað þessi stefna þýðir, en punktar um matvæla- og fæðuöryggi, að tryggt sé að innflutningur feli ekki í sér sýkingarhættu og fleira, en ýmislegt annað orkar tvímælis.
 
Tökum þátt, fræðum og spyrjum spurninga
 
Allt að einu þá er rétt að hvetja bændur og aðra lesendur, hvar í flokki sem þeir standa til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi og vinna ávallt að því að auka skilning á landbúnaðinum í stjórnmálunum og í samfélaginu almennt. Nýtið endilega tækifærin til að ræða þessi mál við þingmenn og ráðherra og spyrjið þá um þeirra sýn og á landbúnaðinn – Hvert ætla þeir með hann – bæði þeir sem nú stjórna og þeir sem gera það ekki?
 
Menn þurfa ekki að vera sammála gildandi landbúnaðarstefnu hverju sinni en verða að skilja að breytingar verður að hugsa til hlítar og vita hvernig menn ætla að ná þeim fram – ekki bara með almennum orðum. 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...