Stöndum í lappirnar
Þegar Íslendingar hætta að þora að vera Íslendingar vegna ótta við að verða að skotspæni skoðanakúgara háværra hagsmunahópa er illa komið fyrir þessari þjóð.
Þá gildir einu hvort verið er að tala um tungumál, trúarbrögð, innleiðingu reglugerða eða umræðu um atvinnugreinar á borð við landbúnað eða sjávarútveg. Ef menn þora ekki að standa á rétti sínum og verja sína tilvist og menningararfleifð, þá geta menn allt eins pakkað saman.
Vanmáttur gagnvart öllu sem útlenskt er, hefur verið lenska hér sem virðist vera að færast í vöxt ef eitthvað er. Við kolföllum fyrir tilskipunum og tökum umyrðalaust upp alls konar dynti erlendra skriffinna þótt við þurfum þess alls ekki. Svo fáum við jafnvel svokallaða innlenda sérfræðinga til að bæta um betur og krydda erlendar tilskipanir enn frekar. Ágætt dæmi um slíkt er íblöndun etanóls og baneitraðs og tærandi metanóls í eldsneyti sem er beinlínis runnið undan rifjum hagsmunaaðila í slíkri framleiðslu. Allt kokgleypa íslensk stjórnvöld eins og þeim sé borgað fyrir það.
Annað ágætt dæmi sem komið hefur til tals hér á landi er reglugerðarsmíð Evrópusambandsins um að takmarka afl í ryksugum til að spara raforku úti í orkusveltri Evrópu. Enginn nefnir að með aflminni ryksugum þurfi kannski að hafa ryksugurnar í gangi mun lengur til að ná sama árangri og sóa þar með mikilli orku. Það virðist engu máli skipta, bara ef umbúðirnar utan um reglugerðarruglið koma frá útlöndum. Sparperufárið er enn eitt dæmið þar sem venjulegum glóperum er skipt út fyrir rándýrar „sparperur“ sem innihalda auk þess kvikasilfur sem veldur náttúrunni skaða.
Ótal önnur dæmi má tína til, en erum við virkilega svo aum og sljó í þessu landi að við getum ekki hugsað sjálfstæða hugsun og látum umyrðalaust matreiða okkur á hverju sem er? Erlendir skriffinnar eru ekkert heilagri en íslenskir skriffinnar og það er algjör óþarfi að gera þá að leiðtogum lífs vors.
Þar sem þetta er síðasta blað ársins 2014 vil ég nota tækifærið og þakka öllum velunnurum og lesendum Bændablaðsins fyrir frábær samskipti á árinu sem er að líða. Með von um að þið getið öll notið friðar og átt gleðileg jól, óska ég ykkur farsældar á komandi ári.