Stórt verk með mikið heimildargildi
Sjöunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar er komið út og í því er fjallað um Hofshrepp, samtals 78 býli í Óslandshlíð, Deildardal, Unadal og á Höfðaströnd, ásamt sveitarfélagslýsingu.
Hjalti Pálsson, ritstjóri og aðalhöfundur verksins, segir að bækurnar verði alls tíu og að í þeim sé fjallað í texta og myndum um sögu allra jarða í Skagafirði sem hafa verið í ábúð frá 1781 til 2014.
„Ég byrjaði að vinna að verkinu í árslok 1995 og geri mér vonir um að síðasta bindið komi út 2020 þannig að vinnan við verkið tekur 25 ár.
Hverri jörð í Skagafirði er lýst, bygginga getið og fylgir tafla yfir fólk og áhöfn á tímabilinu 1703–2014. Eignarhald og saga jarðanna er rakin frá því þær koma fyrst við heimildir.
Auk ábúendatals frá tímabilinu 1781 til 2014 fylgir umfjöllun um hvert sveitarfélag fyrir sig, lýsing á jörðum auk fjölda innskotsgreina, þjóðsögur, vísur og frásagnir af fólki og fyrirbærum. Verkinu er skipt niður eftir gömlu skiptingunni í hreppi þrátt fyrir að þeir hafi flestir sameinast í dag,“ segir Hjalti.
Bindið sem nú kemur út er 480 blaðsíður og í stóru broti. Í henni eru 640, nýjar og gamlar, ljósmyndir af fólki, bæjum og landslagi auk 45 korta og teikninga.
Rík áhersla er á myndir og kort í bókinni og er öllum fornbýlum og seljum lýst og GPS-stöðuhnit þeirra tilgreind. Útgefandi er Sögufélag Skagfirðinga.