Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ekið upp á vestanverðan Hjallaháls úr Djúpafirði. Handan fjarðarins er Ódrjúgsháls. Þessa erfiðu fjallavegi vilja Vestfirðingar losna við til að bæta samgöngur inn og út af sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum.
Ekið upp á vestanverðan Hjallaháls úr Djúpafirði. Handan fjarðarins er Ódrjúgsháls. Þessa erfiðu fjallavegi vilja Vestfirðingar losna við til að bæta samgöngur inn og út af sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum.
Mynd / HKr.
Skoðun 11. september 2018

Þjóðvegur 60 – Saga sigra og svikinna loforða – fyrri hluti

Höfundur: Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal
Tíu ár eru síðan deilur um þjóðveg 60 í Gufudalssveit hófust, þ.e. um svonefnda B-leið. Tuttugu ár eru liðin síðan svæðisskipulag var samþykkt á þeirri leið. Ástæða er til að rifja upp þann feril þótt ófagur sé. 
 
Horfum aðeins til baka. Ekki mátti opna vegi vestur fyrir fyrr en upp úr aldamótum að reglulegur mokstur hófst á leiðinni Bjarkalundur-Flókalundur. Innan þriggja ára verður búið að endurbyggja vegi á allri leiðinni, nema þann kafla sem deilur standa um. 
 
Umrætt svæði við þjóðveg 60 og ýmsar tillögur um lagningu vegar um svæðið á liðnum árum og áratugum.  Enn bíða Vestfirðingar með óþreyju eftir að niðurstaða fáist í málið. 
 
Áður fyrr
 
Firðirnir við norðanverðan Breiðafjörð voru um aldir notaðir til samgangna. Að sumrinu á bátum en á hestum og gangandi á vetrum yfir ísilagða firðina. Vélaöld hófst með litlum dráttarvélum upp úr 1950. Veturinn 1971 fór Reynir Bergsveinsson í Fremri Gufudal, bróðir undirritaðs, ferð á ís á dráttarvél að sækja börn okkar í Reykhólaskóla. Skólastjóri keyrði börnin inn undir Skútunaust og þar tók Reynir dótið á vélina en börnin gengu. Einhverju sinni skruppum við bræður á gömlum Plymouth bíl frá Gufudal út í Gufufjörð og inn Þorskafjörð að Kinnarstöðum, á traustum ís og í góðu færi. Varðandi þá ferð situr í minni, að við vorum fljótir í för.
 
Böll í Hvammi
 
Um haustið 1950 var Sigurður Pétursson búinn að ryðja fyrir vegi að fyrstu vesturbrún á Hjallahálsi. Hann var með jarðýtu sem hann keypti með Ólafi E. Ólafssyni og Ingimundi Magnússyni; splunkunýr Nalli TD 14. 
 
Siggi P kom akandi á bíl sínum Dodge Wipon á skógarball í Hvamminum við Ódrjúgsháls. Var mikið klappað þegar Siggi P skrönglaðist upp þrönga hestagötuna. Þar voru mættir Gufsarar, Eyjamenn, Hólmarar, innsveitarmenn og Reyknesingar. Samkoman byrjaði með ræðu Þórarins Þór, var hann léttur í lund og enginn Helgi helgislepja yfir honum. Menn nærðust á rabarbaragraut með rjóma, mjólk og kaffi var einnig í boði og meðlæti. 
 
Svona samkoma þurfti mikla vinnu í undirbúning og hjálpuðust allir að. Þar voru framarlega í flokki stórir systkinahópar frá flestum bæjum í sveitinni, sem þá voru í byggð. 
 
Harmonikkuleikarar voru Erlingur í Bæ eða Eiríkur frá Kollafjarðarnesi. Sjávarföll réðu því hvað böllin stóðu lengi og hvenær þeim lauk. Þeir sem komu í bátum þurftu að geta lent og tekið fólkið um borð. Svo var talsverð vinna að taka niður tjaldið og ganga frá, ekkert rusl varð eftir eins og búast hefði mátt við. 
Það var ekki búið að finna upp plastið og það eina sem selt var, ölið í glerflöskum sem ölgerðirnar vildu fá í kössunum til baka. Ég hætti síðastur á skógarballi. 
 
Það er lítið eftir af Hvamminum í dag. En umhverfið er frábært, Hálsgilið, Bríkurnar og Fannlækurinn eru á sínum stað. Þarna finna listamenn sér mótíf. Þökk sé alvöru náttúruunnendum, 6 sumarhúsaeigendum, sem barist hafa gegn vegalagningu um Lómafjörð og þessa fallegu hlíð. Össur í Álfaborg og Jenný, landeigandi frá Djúpadal, áttu sinn þátt í að vernda landið. 
 
Vegagerð
 
Hversdagsleikinn var tekinn við og Siggi P var strand í vegagerðinni því mælingamaður Vegagerðarinnar, Jón Víðir, hafði mælt fyrir veginum í gegnum meira en 1 ½ km klettabelti í brattri hlíð (sama og D2 leið nú). Fjárveitingin í 10 ár hafði ekki dugað. 
 
Sveitarstjórn í Gufsu skaut þá á fundi og leitaði tilboða hjá Sigga P sem gerði veginn frá Djúpadal og vestur fyrir Ódrjúgsháls eins og hann er í dag. Hann hætti vinnu vestarlega á hálsinum um haustið. Vorið eftir var ég að vinna á V4 dráttarvél hjá Búnaðarfélagi Flateyjarhrepps. Síðar um vorið tók ég að mér að vinna í vaktavinnu á TD14 með Sigga P. 
 
Við byrjuðum á snjómokstri á Þorskafjarðarheiði og Siggi vann í lagfæringum í Heiðabrekkum í Langadal. Þaðan fór ég á ýtunni akandi að kvöldi og var kominn í Bjarkalund eftir 16 tíma og var þá orðinn feginn hvíldinni. Ég hlýt að hafa gist í Bjarkalundi, þau ráku hótelið Jón Hákonarson og kona hans, Hólmfríður Eyjólfsdóttir, með miklum sóma fyrir Barðstrendingafélagið. Húsið var að töluverðu leyti byggt í sjálfboðavinnu. Þetta var nú útúrdúr. 
 
Ég skrölti á ýtunni út Barmahlíð að tilraunastöðinni á Reykhólum. Þar áttum við að vinna við að jafna út skurðruðninga og herfa með stóru herfi sem reyndist til einskis gagns fyrr en að ráðsmaðurinn Konni fékk Sigurð frá Kvískerjum til að plægja landið. Sigurður var að vinna hjá Landnámi ríkisins með TD9 Nalla sem Búnaðarfélag í Öræfum keypti. 
 
Eftir 3 sumur fór Sigurður með skuldlausa vélina heim í Öræfin. Sigurður Elíasson tilraunastjóri var ekki heima þær vikur sem við unnum í stöðinni. Konni hét ráðsmaðurinn, sá er gaf Barðstrendingafélaginu Konnakot, skemmtilegur náungi og góður hagyrðingur. Að vinnu lokinni í stöðinni fór ég vestur á Ódjrúgsháls að ýta upp vegi áfram vestur.
 
Gömul hugmynd
 
Það var líklega veturinn 1967 að þeir félagar Magnús frá Botni og Sverrir Runólfsson Vestur-Íslendingur, röltu á ís frá Reykjanesi, og vestur að Skálanesi. Magnús hefur sennilega verið einhvern tíma í Reykjavík. 
Hann fékk þá hugmynd að loka mynni Þorskafjarðar með Skálaneshrauninu og stífla þannig fjörðinn. Hann kom hugmyndinni svo rækilega á framfæri að hún lifnar við og dafnar ennþá, 56 árum síðar. Nú síðast með brú að norskri fyrirmynd. 
 
Magnús frá Botni var um margt frumherji þótt hugmyndir hans gengu ekki allar upp, hann vann í jarðýtunni Ásaþór í fjölda ára og átti þátt í lagningu vega á Vestur-Barðaströnd, til dæmis um Þingmannaheiði og Klettsháls.
 
Mannskaðar á heiðum
 
Þarna um veturinn 1967 hringdi Ómar Ragnarsson í mig og bað mig að skreppa og hitta sig á Melanes-flugvelli á ákveðnum tíma. Ég gerði það, aðalerindið var að spyrja um álit mitt á tillögu Magnúsar í Botni um að leggja veg frá Melanesi að Reykjanesi. Ég man ekki hvaða orð ég notaði. Þau hafa sennilega verið: „fráleitt“ eða „glórulaust“. 
 
Ég benti á að í stórstreymi yrði ölduhæð mjög há í útfalli og sérstaklega í SV hvassviðri. Auk fjölda neikvæðra atriða. Miklu gáfulegra væri að leggja veg yfir Gufufjörð og Djúpafjörð því þeir þornuðu um fjöruna. Fleira ræddum við, Ómar átti góð og talsvert mikil samskipti við okkur í Gufsu. Hann hringdi í mig og fékk keyrslu inn á Klettháls. Þar höfðu tvö ungmenni orðið úti og hann skoðaði vettvang þar sem þau festu bíl sinn. 
 
Gunnlaugur Pétursson, tengdasonur fyrrum ábúenda í Gröf, hefur skrifað mikið um málefni þessarar vegalagningar. Í einni þeirra fjallaði hann um litla slysahættu á Hjalla og Ódrjúgshálsi. Taki ég saman síðastliðin 30 ár hafa orðið 8 dauðsföll frá Gilsfirði vestur yfir Klettsháls, auk þess fjöldi slysa á fólki; og hundruð milljóna tjón á bílum. 
 
Ég man sérstaklega eftir þessari blaðagrein. Einmitt þess vegna er mikilvægt að reyna að sneiða hjá hálsum og fjallvegum, sé þess nokkur kostur. Veður geta verið þar afar ill þegar ágætlega viðrar niðri við sjóinn og einnig er eldsneytiseyðsla farartækja mun meiri við að keyra fjallvegi.
 
Spáin brást
 
Ástæða er til að rifja upp aðdraganda mestu samgöngubótar á þjóðvegi 60, veginn yfir Gilsfjörð. Samstaða íbúanna beggja megin fjarðar réð úrslitum. 
 
Þegar vegur yfir Gilsfjörð var í undirbúningi heyrðust háværar raddir um að lífríkinu væri hætta búin. Örninn, rauðbrystingur og fleiri tegundir talin í hættu. Háværastir voru menn úr Fuglaverndarfélagi Íslands. Rannsóknir og vöktun fyrir og eftir staðfestu að framkvæmdin hafði engin áhrif á þessar fuglategundir né heldur æðarvarpið í hólmunum. Tafðist það um þrjú ár að verkið hæfist. 
 
Gilsfjarðarnefnd starfaði árin þegar verkið var í undirbúningi. Formaður hennar var Sigurbjörn Sveinsson, læknir í Búðardal. Nefndin átti fundi með þingmönnum og mætti á nefndarfundi í Alþingi og var starf hennar ómetanlegt. 
 
Þegar allt var á lokastigi stóð til að fresta verkinu um óákveðinn tíma. Gilsfjarðarnefnd boðaði til fundar í Dalabúð, sem fylltist af fólki búsettu beggja vegna fjarðar, ásamt þingmönnum, sem var rækilega lesinn pistillinn af Sigurbirni og fleirum. Árangurinn varð sá, að framkvæmdir hófust eins og ætlað var. Samstaða íbúanna beggja megin fjarðar réð úrslitum. 
 
Að verki loknu við borðaklippingu haustið 1998 flutti Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, ræðu, þar sem fram kom að þetta væri bara byrjunin á þverun fjarða í Austur-Barðastrandarsýslu. Einhver áhrif hefur þessi ræða haft á sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi. Það sama ár var samþykkt í svæðisskipulagi fyrir Reykhólahrepp að vegur komi yfir þrjá firði að Melanesi. Það var gert í samráði við Snæbjörn Jónasson, þáverandi vegamálastjóra. Þegar það var samþykkt var Guðmundur Ingólfsson sveitarstjóri í Reykhólahreppi.
 
Tími kominn á breytingar
 
Ég legg ekki í að fjalla um vegi og samgöngur þau tæplega 40 ár sem við fjölskyldan bjuggum í Gufudal. Um 1985 var lokið endurbótum á Hjallahálsi sem Vegagerðin vildi meta sem hluta af D-leið. Á veturna var flugið notað til ferðalaga, Björn Pálsson og Ernir á Ísafirði. Þungaflutningar komu sjóleiðis með Baldri, áburður að vori og fóðurvörur að vetri. 
 
Í seinni hluta greinarinnar verður farið nánar yfir þær deilur sem staðið hafa síðustu ár um val á nýju vegarstæði á þjóðvegi 60 í Reyhólahreppi.
 
Kristinn Bergsveinsson
frá Gufudal

5 myndir:

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...