Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
„Það jafnast ekkert á við íslenska lambið“
Skoðun 16. apríl 2014

„Það jafnast ekkert á við íslenska lambið“

Guðni Ágústsson, framkvæmdastjóri SAM skrifar:
 
Stundum talar sumt fólk eins og íslenskur landbúnaður eigi sér enga sérstöðu. Þetta er að vísu mjög þröngur hópur sem þannig lætur. Staðreyndin er sú að íslenskir bændur eiga frábæran heimamarkað og matvælin, hvort sem er mjólkurvörur, kjöt eða grænmeti, njóta mikilla vinsælda neytenda. Best finnum við þetta þegar eitthvað kemur fyrir, t.d. olli írska smjörið miklu uppnámi í vetur. Svo og þegar eitraðir búfjársjúkdómar hrjá og steindrepa heilu hjarðirnar í Evrópu fer hrollur um okkar fólk. Það áttar sig á að heilbrigðir búfjárstofnar og holl matvæli eru auðlind. 
 
Ég dvaldi á dögunum stutta stund á Grand Kanarí með Íslendingum. Ég áttaði mig á að besta smjörið sem ég fékk í „kaupfélaginu“ þar ytra var það írska. Ég spurði fólkið hvort það hefði smakkað þetta smjör. Það sem kom mér mest á óvart var það að mjög stór hópur þessa fólks sagðist alltaf taka íslenskt smjör með sér út til að njóta þess að borða harðfiskinn okkar sem einnig er í farteskinu. Og þegar ég spurði á fjölmennri hátíð hvort því þætti fyllti svínahryggurinn sem það var að borða ekki góður sagði fólkið einum rómi „það jafnast ekkert á við íslenska lambið“. Og margir sögðust alltaf taka skyr og rjóma með sér út. Ég óska bændum til hamingju með þessa góðu stöðu og bið þá að gera ekkert sem raskar henni. Hluti af þessari gæfu er mikil fagmennska hjá matvælafyrirtækjunum og iðnaðarfólkinu góða sem kann að gera mat úr góðu hráefni. 
 
Tollverndin er lífsakkeri landbúnaðarins
 
Mesta hættan sem nú steðjar að íslenskum landbúnaði er sú umræða að allar varnir beri að leggja af. Oft heyrist að tolla eigi að fella niður jafnvel einhliða. Og stundum er talað eins og við séum eina landið í Evrópu sem býr við tollvernd. ESB er tollabandalag og við búum við þá sérstöðu að mjög stór hluti innfluttra landbúnaðarvara er alls ekki tollaður til Íslands. En ESB beitir tollum og verndartollum til að vernda sína heimamarkaði í mjög ríkum mæli. Svo kemur hin umræðan að við eigum ekkert að óttast og ég heyri vel menntað fólk halda því fram að tollana eigi að fella niður einhliða og að við munum alltaf velja íslenskar vörur fram yfir innfluttar. En málið er ekki svona einfalt því okkar markaður er mjög smár og hin stóru fyrirtæki væru ekki lengi að undirbjóða markaðinn í verðstríði. Veskið ræður miklu við svona aðstæður, þar og hér. Umræða um tollalækkun er tilræði við matvælaframleiðsluna, þar má enga ákvörðun taka nema ljóst sé hvaða áhrif hún hefur í raun og veru á stöðu landbúnaðarins.
 
Eigum ekki nægan gjaldeyri
 
Nú berast þær fréttir úr Seðlabankanum að staðan sé sú á Íslandi, horft til næstu ára, að það vanti eitt hundrað milljarða á ári til að jafna stöðu út- og innflutnings. Því blasir það verkefni við okkur að auka framleiðslu í landinu til að flytja út vörur og afla gjaldeyris. Enn fremur að framleiða vörur til að spara gjaldeyri. Landbúnaðurinn bæði sparar og aflar gjaldeyris. Landbúnaðurinn framleiðir vörur á ári hverju fyrir um 60 milljarða króna. Landbúnaðurinn skapar að lágmarki 12 til 15 þúsund störf í landinu. Sveitirnar eru byggðar fólki um allt land en eru ekki í eyði. Stærsta málið er í heimi sem vantar brauð, matvæli til að fæða börnin sín, að sinna því kalli að efla landbúnaðinn og auka framleiðsluna.
 
Hvert eru Samtök atvinnulífsins að fara?
 
Nú hafa þau forkastanlegu vinnubrögð átt sér stað að Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér tíu spora framtíðarsýn sem er þannig orðuð að það er eins og Samtök verslunar og þjónustu hafi samið þau ein síns liðs. Þau fara í meginatriðum gegn hagsmunum landbúnaðarins. Landbúnaðarfyrirtækin eru stórir aðilar í SA og biðja aðeins um eitt: að staða landbúnaðar­fyrirtækjanna sé virt og þau séu með í ráðum þegar rætt er um stöðu atvinnugreinarinnar og stefnumörkun sett fram. Hvort sem það eru tollarnir, sem eru ákveðið lífsakkeri. Með niðurfellingu þeirra stæði íslenskur landbúnaður berskjaldaður. 
 
Þegar opinber verðlagning er til umræðu eða annað sem að landbúnaðinum snýr ber SA að virða þá viðlits sem eru í samtökunum og kynna þeim drauma sína eða skoðanir. Þarna hefur trúnaðarbrestur átt sér stað sem ber að ræða af alvöru. 
Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...