Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Birkir Þór Stefánsson, Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og börnin Árný Helga og Stefán Þór. Kindin gengur ákveðin til heimsætunnar sem  er dugleg að spekja kindurnar.
Birkir Þór Stefánsson, Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og börnin Árný Helga og Stefán Þór. Kindin gengur ákveðin til heimsætunnar sem er dugleg að spekja kindurnar.
Mynd / Arnheiður Guðlaugsdóttir
Líf&Starf 11. maí 2015

Ekki enn náð Strandametum föður míns í hlaupum

Höfundur: Arnheiður Guðlauksdóttir
Hann er léttur í lund og á fæti, bóndinn í Tröllatungu í Strandabyggð, Birkir Þór Stefánsson.  Hann snertir varla jörðina  þegar hann gengur og er strákslegur eftir aldri.
 
Birkir er staddur í nýbyggðum fjárhúsum þar sem hann aðstoðar nágranna sinn við bílaviðgerðir. 
„Fyrst voru hér gömul hús sem Árni Daníelsson, föðurbróðir minn, byggði og ég bætti við þau  um síðustu aldamót. Nýi hlutinn rúmar 300 kindur og er á taði og með gjafagrindum. Í heild eru því húsin fyrir um 700 kindur.“ Birkir segist hafa ákveðið að hafa 160 fm vélageymslu í hluta þeirra sem mun nýtast vel. „Við völdum að hafa stálgrindarhús frá H. Haukssyni sem er ódýr og góður kostur. Þau eru með yleiningum frá Hýsi Merkúr og yfirsmiðir voru frá  trésmíðafyrirtækinu Höfða á Hólmavík.“
 
Kynntust á rúningsnámskeiði
 
Birkir stendur ekki einn í búskapnum því við hlið hans er hörkudugleg kona, Sigríður Drífa Þórólfsdóttir. Hún er Þingeyingur og ólst upp á bænum Einarsstöðum í Reykjahverfi.  Börnin,  Árný Helga 8 ára gömul og Stefán Þór sem er 6 ára, eru líka farin að hjálpa til. Auk þess á  Birkir tvær dætur fyrir, þær Agnesi Sif og Emblu Mattheu. 
 
Sigríður er líkt og Birkir Þór búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri en þau  kynntust þó ekki þar.
„Við kynntumst á rúnings­námskeiði hjá Guðmundi Hallgrímssyni sem haldið var á Hesti í Borgarfirði árið 2005. Það er til skemmtileg saga um það hvernig fyrstu kynni okkur voru. Sigga var alltaf að prjóna sokka og þegar þessu tveggja daga námskeiði lauk og allir voru að fara til síns heima kom í ljós að Sigga hafði gleymt prjónadótinu.  Guðmundur biður mig þá að taka það og skila því til Siggu og ég segi að þetta sé allt Guðmundi að þakka að við kynntumst og hann er mjög ánægður með að eiga heiðurinn að því.“
Birkir hefur starfað við ýmislegt utan heimilis svo sem við akstur olíubíls á svæðinu en vinnur núna við að klára nýju fjárhúsin ásamt búskapnum. Sigríður Drífa starfar við rækjuvinnsluna Hólmadrang á Hólmavík.
 
 
Aukin lífsgæði án umferðar
 
Jörðin Tröllatunga var prestssetur og kirkjustaður fyrr á öldum. Þar bjó og nam land Steingrímur sem fjörðurinn er kenndur við.  Sveitin milli Hrófár og Heydalsár var nefnd eftir Tröllatungu, Tungusveit, eins og segir í bókinni Landið þitt Ísland (1983) en sveitin tilheyrir nú Strandabyggð. Vegurinn yfir Tröllatunguheiði sem liggur á milli Steingrímsfjarðar og Geiradals í Barðastrandasýslu er við túnfótinn á Tröllatungu. Hann er nú að mestu aflagður eftir að Arnkötludalsvegur var tekinn í notkun  árið 2009. Birkir segir það aukin lífsgæði að losna við þá þungu sumarumferð sem þar var. 
„Síðasta sumarið sem heiðin var notuð var hér næstum ólíft og þrjár bílveltur voru í nálægð bæjarins en vegurinn liggur á milli íbúðar- og fjárhúss.“
 
Skítmokstur skemmtilegasta verkið
 
Birkir tók við búskapnum af föður sínum árið 1989. Hann er annar tveggja sona þeirra Karólínu Huldu Þorvaldsdóttur og Stefáns Daníelssonar. Auk þess eiga þeir systur sammæðra. 
„Við bræðurnir vorum 6 og 8 ára gamlir þegar foreldrar okkur skildu og við vildum fylgja föður okkar og urðum eftir hér í Tröllatungu. Fyrsta minning tengd búskap er hversu skemmtilegt mér þótti að moka skít undan grindunum í gömlu fjárhúsunum. Ég held meira að segja að það hafi erfst til sonar míns. Við bræður gerðum ýmislegt misgáfulegt af okkur eins og að stríða hundunum og gefa hrútunum kjarnfóður sem var að sjálfsögðu ekki vel séð.“
 
 Fjölskyldan saman á skíðum
 
Birkir segist hafa komist að því um tvítugsaldurinn að hann hefði gott af hreyfingu.
„Foreldrar mínir voru bæði létt á fæti. Enn hef ég þó ekki náð Strandameti föður míns í 3000 metra hlaupi, síðan  1953, á tímanum 9:58,02. Ég byrjaði að fara á skíði með feðgunum Braga og Ragnari á Heydalsá og við kepptum eitthvað norður í Bjarnarfirði og síðan á mótum. Þá hef ég hlaupið nokkuð marga fjallvegi og núna erum við öll fjölskyldan mikið á skíðum. Ég legg braut fyrir skíði hér heima. Síðan fara krakkarnir á æfingar inn í Selárdal, þar sem skíðafélag Strandamanna SFS er með aðstöðu, og annað slagið keppni. 
 
Þegar ég var á Hvanneyri fóru nemendur oft að hjálpa bændum í nágrenninu við smalamennskur, rúning og fleira og söfnuðu þannig fyrir útskriftarferð þannig að hreyfing hefur fylgt mér lengi og hentar vel með búskaparstörfum,“ segir Birkir Þór. 

5 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....