Unglingar keppa um verðlaunasæti í uppeldi kálfa
Í júlílok árið 1968 greinir Dagblaðið Vísir frá því að á landbúnaðarsýningunni, þeirri stærstu sem þá yrði haldin hérlendis, verði m.a. keppt um verðlaunasæti í uppeldi kálfa. Segir í textanum:
„Tólf unglingar á Suðurlandi fengu sér kálfa, sem þeir tóku að sér að ala upp sjálfir, og mátti enginn annar koma þar nærri. Einn heltist úr lestinni, þar sem honum fannst kjánalegt að bursta og kemba kálfi. Krakkarnir ellefu munu koma með kálfa sína á landbúnaðarsýninguna í Laugardal og leiða þá í dómhring. Hæstu verðlaun eru 10.000 krónur. Tekið verður tillit til byggingarlags kálfanna, tamningar, framkomu unglings og dagbóka og skýrslna, sem börnin hafa fært um tamninguna af mikilli nákvæmni.“
Ekki kemur fram hvert ungmennanna hlaut verðlaunin, en sýningin, sem haldin var þann 9. ágúst í Laugardalnum, þótti gefa glöggt og greinargott yfirlit yfir þróun landbúnaðar og þær framfarir sem orðið höfðu yfir þá áratugi frá því að sýningin var fyrst haldin.