Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Elsupeysa úr Frozen
Hannyrðahornið 28. ágúst 2014

Elsupeysa úr Frozen

Andrea ömmustelpa spurði: „Amma, getur þú prjónað á mig Elsupeysu?“ „Hvað er nú það,“ svaraði amma og hafði aldrei heyrt á fyrirbærið minnst.

„Auðvitað amma, hún Elsa í Frozen-myndinni,“ og það var farið á YouTube og málið kannað. Þarna var hún Elsa prinsessa í blágræna og hvíta kjólnum sínum.

Andrea teiknaði upp hvernig peysan ætti að vera aðeins tunga að framan og á ermunum, lykkja til að stinga löngutöng í á ermunum og hún átti að vera úr blágrænu og hvítu garni sem glitraði á eins og snjó. Það átti líka að vera snjókornamunstur á henni.


Garnið fannst, blágrænt Frapan sem glitraði á og hvítt Ak simli sem glitrar eins og snjór í tunglskini.
Munstrið var teiknað upp í Knit bird og hafist handa. Aðalheiður litla systir þurfti líka að fá peysu.

Stærð: 3-4 ára, 7-8 ára.
Efni: Frapan no. 70925 blágrænt x 2 (3) dokkur
Ak simli no. 010 hvítt x 1 (2) dokkur. Sjá útsölustaði á www.garn.is.
Prjónar Hringprjónn nr 5, 40 og 60 sm.
Sokkaprjónar nr 5.
Prjónafesta: 19 L x 25 umf. gera 10 cm.
Aðferð. Peysan er prjónuð í hring en tungan að neðan framan á er prjónuð fram og til baka.
Bolurinn er prjónaður með blágræna Frapan-garninu en ermar og axlarstykki með hvíta Ak Simli garninu.
Sama með ermar, prjónaðar á sokkaprjóna í hring en tungan ofan á erminni er prjónuð fyrst fram og til baka. Bolur og ermar sameinað á hringprjón, lykkjur undir ermum settar á hjálparnælu.
Hægt er að sleppa tungunum á bolnum og ermunum og hafa peysuna og ermarnar beinar að neðan.
Axlarstykkið prjónað með munsturbekk og úrtökur eftir það, hálslíningin er prjónuð með gataprjóni brotin yfir og saumuð niður til að mynda takka. Gott að lesa alla uppskriftina yfir áður en hafist er handa.
Bolur: (Tunga)
Fitja upp 12 L með blágræna Frapan-garninu.
Prjóna fram og til baka og auka út í sléttu umferðinni með því að slá uppá eftir 1 l og fyrir síðustu l en prjóna brugðið til baka og snúa uppá uppsláttarlykkjuna til að ekki myndist gat. Prjóna þannig 13 umferðir.
Auka eftir það í sléttu umferðinni með því að slá uppá eftir 1. L prjóna næstu L og slá þá aftur upp á.
Prjóna þar til 2 l eru á prjóninum slá upp á prjóna 1 L slá aftur upp á og prjóna síðustu L. Brugðið til baka og snúa upp á uppsláttinn til að ekki myndist gat. Halda áfram þar til 52 L eru á prjóninum.
Þá eru fitjað upp til viðbótar þar til 116 (126) L eru á prjóninum.
Ef þið viljið sleppa tungunni og hafa peysuna beina að neðan eru bara fitjaðar upp þessar 116 (126) L.
Tengja í hring og prjóna slétt en setja merki í hliðarnar og passa að tungan sé í miðjunni að framan ef þið notið hana.
58 (63) L í fram og bakstykkinu.
Prjóna nú slétt í hring með hringprjóninum 16 (20) cm.
Nú eru teknar saman 2 L sitt hvoru megin við prjónamerkin í hliðunum.
Prjóna áfram 4 cm taka úr á sama hátt.
Prjóna nú 4 cm og auka út sitt hvoru megin við merkið um 1 l hvoru megin.
Prjóna áfram þar til bolurinn mælist 29 (33) cm eða eins og þið viljið hafa hana síða á barninu.
Setjið nú 6 (8) L undir höndum báðum megin á hjálparnælu eða band. Geymið.
Ermar:
(Tunga)
Fitjið upp með hvíta Ak Simli garninu á sokkaprjón 3 l.
Prjónið brugðið til baka.
Eftir 1. L er slegið upp á prjóninn og á undan síðustu L.
Prjónað brugðið til baka en snúið upp á uppsláttarlykkjuna til að forðast að það komi gat. Endurtakið þar til 11 L eru á prjóninum.
Þá er prjónuð 1 L slegið upp á prjónuð næsta Lprjónuð og slegið aftur upp á, prjónað þar til 2 L eru eftir á prjóninum þá er slegið uppá prjónuð 1 L slegið aftur uppá og prjónuð síðasta L.
Prjónað brugðið til baka. Endurtekið þar til 23 L eru á prjóninum.
Fitjað upp í viðbót með sokkaprjónum þar til 12(13) L eru á hverjum prjóni. Ef þið viljið hafa ermina beina að neðan eru fitjaðar upp 48 (52) L á 4 sokkaprjóna. Merkið fyrir miðri undirermi.
Tengt í hring og prjónað 3(5) cm. Þar næst eru teknar saman 2 L sitt hvoru megin við merkið.
Endurtekið 4 (3) sinnum og síðan er prjónað í hring þar til ermin er 26 (34) cm eða sú sídd sem passar á barnið.
Nú eru 6(8) L settar á hjálparnælu fyrir miðri undirermi. Geymt.
Hin ermin prjónuð eins.
Axlarstykki:
Nú eru sett upp á 60 cm hringprjón framstykki 50 (53) L ermi 34(38) L bakstykki 50(53) L og seinni ermin 34(38)L. Það er mikilvægt að lykkjufjöldinn stemmi til þess að munstri gangi upp. Ef einhverju smávegis munar má taka úr eða fella af við handvegina án þess að það sjáist mikið. Óþarfi að rekja upp vegna þessa.
Nú er prjónað með hvíta garninu en munstrið með blágræna garninu.
Staðsetjið munstrið þannig að 4 munstur verði á fram og bakstykkinu og 2 munstur á hvorri ermi.
Prjónið munstur eftir skýringarmynd.
Eftir munstur er tekið úr:
Minni peysan.
Úrtaka.
Í fyrstu umferð eftir munstur eru teknar saman 3 L þar sem skýringarmynd sýnir,  passa að miðjulykkjan liggi efst og haldi áfram upp axlarstykkið.
Prjóna 9 umferðir og taka þá saman 2 L í beinu framhaldi af síðustu úrtöku samkv. skýringarmynd.
Prjóna 3 umferðir og taka þá saman 2 L eins og áður sagði.
Nú er prjónuð hálslíning , jafnið lykkjunum þannig að það verði 66 L á prjóninum, gott að skipta yfir á sokkaprjónana eða 40 cm hringprjón.
Prjónið 8 umferðir og því næst 1 umferð þar sem er slegið upp á teknar 2 saman og prjónuð 1 l þannig að myndist gataröð.
Prjónið þar næst 5 umferðir slétt og fellið þvínæst laust af.
Stærri peysan.
Úrtaka:
Prjónið 15 umferðir slétt í hring með hvítu þá eru teknar saman 3 L þannig að miðjulykkjan liggi efst samkv. skýringarmynd.
Prjónaðar 5 umferðir og þá teknar 2 l saman samkv. skýringarmynd, prjónaðar 3 umferðir og teknar saman 2 l í beinni línu af fyrri úrtöku. Jafnað á prjóninum þannig að 78 L verði á honum sem er hálslíningin.
Hálslíningin er prjónuð eins og á minni peysunni.
Gengið frá endum, lykkjað saman undir höndum, kraginn brotinn inn og saumaður niður á röngunni.
Nú er heklað með fastahekli í hverja lykkju með blágrænu Frapan neðan á bolnum á peysunni allan hringinn. Einnig er heklað fastahekl með hvítu neðan á ermunum. Fyrir þær sem vilja er fremst á tungunni á ermunum hekluð lykkja með 5 loftlykkjum sem langatöng er brugðið í.
 

3 myndir:

Jólapottaleppar
Hannyrðahornið 3. desember 2024

Jólapottaleppar

Jólin nálgast óðfluga og alltaf gaman að taka upp jólahlutina og gefa heimilinu ...

Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Stærðir: XS S M L XL XXL. Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Lily Leaper Socks
Hannyrðahornið 6. nóvember 2024

Lily Leaper Socks

Prjónaðir stuttir sokkar í stroffprjóni úr DROPS Fiesta. Fiesta er nýtt nylonsty...

Peysan Fis
Hannyrðahornið 22. október 2024

Peysan Fis

Létta, lipra peysan sem göngugarpar elska að skella í bakpokann.

Bubba
Hannyrðahornið 24. september 2024

Bubba

Stærðir: XS S M L XL XXL.

Manstu vorið?
Hannyrðahornið 10. september 2024

Manstu vorið?

Þessi fallega peysa með gatamynstri á ermum er prjónuð úr DROPS Alpaca og DROPS ...

Búðarháls
Hannyrðahornið 27. ágúst 2024

Búðarháls

Uppskrift að vesti fyrir Ullarviku á Suðurlandi 2024

Dömupeysa
Hannyrðahornið 13. ágúst 2024

Dömupeysa

Prjónuð peysa úr DROPS Cotton Merino. Stykkið er prjónað ofan frá og niður með t...