Kósípeysa
Höfundur: Handverkskúnst
Hlý, létt og notaleg peysa prjónuð úr 2 þráðum af „Drops Brushed Alpaca Silk“ með laskaermum og hálfklukkuprjóni, prjónuð ofan frá og niður.
Stærðir: S (M) L (XL) XXL (XXXL).
Yfirvídd: 90 (98) 106 (116) 124 (138) cm.
Garn: Drops Brushed Alpaca Silk (fæsí Handverkskúnst)
-200 (225) 250 (275) 300 (325) gr litur á mynd er nr 02, ljósgrár.
Prjónar: Hringprjónn 80 cm nr 9 – eða þá stærð sem þarf til að 11L með sléttu prjóni = 10 cm.
Garðaprjón (prjónað í hring á hringprjóna):
*1 umf sl, 1 umf br*, endurtakið frá *-*.
Hálfklukkuprjón (prjónað fram og til baka á hringprjóna):
Umferð 1: * 1 lykkja slétt, sláið uppá prjóninn, takið 1 lykkju óprjónaða eins og prjóna eigi hana brugðna*, endurtakið frá *-* þar til 1 lykkja er eftir, endið á 1 lykkju slétt.
Umferð 2: * 1 lykkja slétt, prjónið uppásláttinn og óprjónuðu lykkjuna frá fyrri umferð slétt saman, 1 lykkja slétt *, endurtakið frá *-*
Endurtakið umferðir 1 og 2.
Laskalína: Aukið er út hvoru megin við prjónamerki þannig: *Prjónið fram að 1L á undan prjónamerki, sláið uppá prjóninn, 2 slétt, sláið uppá prjóninn*. Endurtakið frá *-* við öll prjónamerki. Í næstu umf er uppslátturinn prjónaður snúinn slétt (þ.e.a.s. prjónið aftan í lykkjubogann) til þess að koma í veg fyrir göt.
Úrtaka (á við um ermi): Prjónið 2L slétt saman, prjónið slétt þar til 3L eru að prjónamerki, takið 1L óprjónaða, 1 sl, steypið óprjónuðu lykkjunni yfir.
PEYSA:
Peysan er prjónuð ofan frá og niður á hringprjóna/sokkaprjóna. Í lokin eru teknar upp lykkjur í kringum hálsmál og kantur er prjónaður með garðaprjóni.
Berustykki: Fitjið upp 55 (55) 55 (59) 59 (59) lykkjur með 2 þráðum hringprjóna nr 9. Tengið í hring og setjið prjónamerki sem markar upphaf umferðar. Prjónið 2 umf garðaprjón, JAFNFRAMT er aukið út um 9L jafnt yfir í seinni umf með garðaprjóni í öllum stærðum = 64 (64) 64 (68) 68 (68) lykkjur. Í næstu umf er prjónað frá hægri laskalínu að aftan þannig: 1L slétt, setjið 1. prjónamerki, 9L slétt, setjið 2. prjónamerki, 1L slétt, 21 (21) 21 (23) 23 (23) L hálfklukkuprjón ( framstykki), 1L slétt, setjið 3. prjónamerki, 9L slétt, setjið 4. prjónamerki, 1L slétt, 21 (21) 21 (23) 23 (23) L hálfklukkuprjón (bakstykki). Haldið síðan áfram að prjóna ermar slétt og fram- og bakstykki með hálfklukkuprjóni, JAFNFRAMT í næstu umf byrjar útaukning fyrir laska. Endurtakið þessa útaukningu í annarri hverri umf 5 (7) 10 (13) 18 (22) sinnum til viðbótar og í 4. hverri umf 5 (5) 4 (3) 1 (0) sinnum = 152 (168) 184 (204) 228 (252) lykkjur. ATH: Nýju lykkjurnar á fram- og bakstykki eru prjónaðar jafnóðum inn í hálfklukkuprjón og nýjar lykkjurnar á ermum eru prjónaðar slétt. Stykkið mælist nú 22 (23) 24 (25) 26 (27) cm frá öxl. Prjónið 1 umf til viðbótar með mynstri eins og áður, en nú hættir það 1L á undan 1. prjónamerki (þ.e.a.s. 1 l áður en umf var prjónuð til loka). Setjið næstu 33 (37) 41 (45) 51 (57) lykkjur á band (= ermi). Fitjið upp 7 nýjar lykkjur undir ermi, prjónið 43 (47) 51 (57) 63 (69) lykkjur (= framstykki), setjið 33 (37) 41 (45) 51 (57) lykkjur á band (= ermi), fitjið upp 7 nýjar lykkjur undir ermi, prjónið 43 (47) 51 (57) 63 (69) lykkjur (= bakstykki).
Fram- og bakstykki: Nú eru 100 (108) 116 (128) 140 (152) lykkjur á prjóninum. Haldið nú áfram með hálfklukkuprjón eins og áður. Miðjulykkjan af 7 nýju lykkjunum undir hvorri ermi er prjónuð brugðið, hinar með hálfklukkuprjóni. Haldið svona áfram þar til stykkið mælist 35 (36) 37 (38) 39 (40) cm frá skiptingu bols og erma. Prjónið 6 umf garðaprjón, fellið laust af.
Ermi: Setjið til baka þær lykkjur sem geymdar voru á bandi á prjóninn. Prjónið 1 umf slétt yfir allar lykkjurnar. Fitjið síðan upp 7L í lok umf = 40 (44) 48 (52) 58 (64) lykkjur. Setjið prjónamerki í miðju af þeim nýju l undir ermi. Prjónið slétt í hring. Þegar stykkið mælist 4 cm byrjar úrtaka fyrir ermi. Endurtakið úrtöku með 5½ (5) 4 (3½) 2½ (2½) cm millibili 6 (7) 9 (10) 13 (15) sinnum til viðbótar = 26 (28) 28 (30) 30 (32) lykkjur. Þegar ermin frá handvegi mælist 41 (41) 41 (40) 40 (40) cm prjónið 6 umf garðaprjón og fellið laust af.
Hálsmál: Takið upp 1L í hverja lykkju með garðaprjóni með 2 þráðum = 55 (55) 55 (59) 59 (59) lykkjur. Prjónið 4 umf garðaprjón, fellið laust af.
Frágangur: Saumið saman gat undir ermum. Gangið frá endum, þvoið flíkina og leggið í mál.
Prjónakveðja,
mæðgurnar í Handverkskúnst, www.garn.is.