Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Átsvæði kúnna og bygggjafakerfið.
Átsvæði kúnna og bygggjafakerfið.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 2. mars 2022

Að stærstum hluta hugsjónastarf sem gefur þó hærra afurðaverð

Höfundur: smh

Lengi vel voru einungis þrjú kúabú á Íslandi sem framleiddu lífrænt vottaða mjólk; Búland í Austur-Landeyjum, Neðri-Háls í Kjós og Skaftholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Síðasttalda búið hefur aðallega stundað sjálfsþurftarbúskap fyrir bæinn, en það er líka heimili fyrir fólk með þroskahömlun. Hin hafa sett mjólkina sína á markað í gegnum mjólkurvinnsluna Biobú, sem sérhæfir sig í lífrænt vottuðum mjólkurvörum. Fjórða búið, Eyði-Sandvík rétt við Selfoss, bættist í hópinn seint á síðasta ári en framleiðsla þess jafngildir samanlögðu innleggi hinna tveggja.

Sannkallaður fjölskyldubúskapur er stundaður í Eyði-Sandvík. Að honum standa hjónin Ólafur Ingi Sigurmundsson og Anna Gísladóttir ásamt börnum sínum, þeim Rúnari Geir, Guðbirni Má, Maríu Ósk og eiginmanni hennar, Hlyni Sigurðssyni. Guðbjörn Már á börnin Rannveigu Ósk, Önnu Björk og Óskar Ólaf. María og Hlynur eiga svo þrjá drengi; Ólaf Geir, Vilhjálm Frey og Grétar Dag – en öll börnin eru dugleg að hjálpa til í búskapnum.

Áhuginn vaknaði á námskeiði í lífrænum landbúnaði

Fjölskyldan kaupir Eyði-Sandvík 1999, en þá voru þar 14 mjólkandi kýr í 28 kúa fjósi með rörmjaltakerfi – og um 70 ær. Áður voru þau með kúabúskap í Björnskoti í Skeiðarhreppi og fluttu þaðan með sér kýr og kvígur. Fyrstu verk þeirra var að fjölga kúnum í 28 og stórefla jarðræktina. Þegar þau kaupa jörðina voru 23 hektarar í túnum en í dag eru það 106 hektarar.

Árið 2007 var byggt nýtt lausagöngufjós með 72 legubásum og jafnframt var tekin í notkun Lely A3 mjaltaþjón. Heildar landstærð í Eyði-Sandvík er yfir 255 hektarar.
Rúnar Geir er búfræðingurinn á bænum og er til svara um þá ákvörðun fjölskyldunnar að fara leið lífrænnar mjólkurframleiðslu.

„Haustið 2010 hóf ég nám í búfræði á Hvanneyri, þar sem ég tók meðal annars áfangann Lífrænn landbúnaður og þá byrjaði svona áhuginn fyrir þessu fyrst. Eftir það hófum við tilraunir með að sá smára með þegar við endurræktuðum túnin.“

Almennt tekur aðlögun tvö og hálft ár

Að sögn Rúnars tekur aðlögun að lífrænt vottuðum kúabúskap almennt tvö og hálft ár; tvö ár tekur að aðlaga tún og þegar túnin eru orðin vottuð lífræn – og þar með fóðurvottað – þá er hægt að aðlaga bústofninn fyrir mjólkurframleiðsluna. Það tekur sex mánuði, en fyrir kjötframleiðslu eru það 12 mánuðir.

„Árið 2017 tókum við þá ákvörðun að hefja aðlögun á landi en settum fyrst 19 hektara í aðlögun. Við vildum sjá hvernig uppskeran myndi verða við þessar breytingar áður en hið endanlega skref væri tekið, smátt og smátt bættum við fleiri túnum í aðlögun ár hvert.

Í apríl 2021 fór bústofninn; kýr, kvígur og hross, í aðlögun. Fyrsta lífrænt vottaða mjólkin fór frá okkur í október síðastliðinn og getum við farið að selja lífrænt vottað kjöt í apríl.“

Kýr á beit í Eyði-Sandvík. Kröfur um útivist í lífrænum kúabúskap eru miklar. Gripirnir eiga í raun að vera eins mikið úti á beit og mögulegt er.

Áburðarmálin helsta áskorunin

Rúnar Geir segir Vottunarstofuna Tún hafa verið mjög hjálplega við að leiðbeina þeim í gegnum ferlið, en hann hefur séð um alla pappírsvinnuna sem fylgt hefur ferlinu.
„Helsta fyrsta áskorunin var að reyna að finna út úr áburðarmálum, við nýtum alla þá kúamykju eins vel og mögulegt er og erum aðeins farin að fikra okkur áfram í moltugerð. Smára er sáð í öll tún, en hann býr til köfnunarefni sem nýtist plöntunum. Við nýtum einnig hænsnaskít frá lífræna eggjabúinu í Miklaholtshelli.

Það náttúrlega segir sig sjálft að því minna af áburðarefnum sem þú berð á því minni uppskeru færðu, uppskeran er að meðaltali 25 prósent minni en áður en við fórum í aðlögun. Í dag fáum við að meðaltali 15 rúllur á hektara en það er breytilegt á milli túna og ára,“ segir Rúnar Geir.

Hann segir aðbúnaðarkröfurnar vera meiri í lífrænum landbúnaði. Felst það aðallega í því að hver gripur þarf meira rými. Nýja fjósið er hins vegar mjög rúmt og því var mjög lítið sem breyttist hvað varðar fjölda gripa til dæmis. Þegar aðlögunin hófst máttu 70 kýr vera á kúasvæðinu í staðinn fyrir 72. Kröfur um útivist eru líka meiri, gripirnir eiga í raun að vera eins mikið úti á beit og mögulegt er. Verandi með þetta margar mjólkandi kýr og bara einn mjaltaþjón, þá þarf ekki mikið til að mjaltalistinn safnist upp. Við erum reyndar búin að leysa það mál núna, með því að setja upp annan mjaltaþjón. Í kjölfarið gerðum við smá breytingar í fjósinu þannig að kúasvæðið rúmar núna 89 kýr.
Við höfum alltaf sett alla nautkálfa á, sem hafa verið aldnir upp í gamla fjósinu. Við ákváðum hins vegar að sleppa því í bili að sækja um lífræna vottun á nautum vegna þess að þeir eru á steinbitum en samkvæmt lífrænu reglugerðinni verður í það minnsta helmingur gólfflatarins að vera heill. Við munum leysa það mál í framtíðinni með því að hafa hálm undir þeim gripum sem þar verða og lögum gamla fjósið þannig að það uppfyllir aðbúnaðarreglur fyrir lífrænt vottað nautgripaeldi.“

Tilraunir með kjötmjöl

Fjölskyldan í Eyði-Sandvík á einnig jörðina Miðhjáleigu í Austur-Landeyjum. „Ræktað land þar er núna 80 hektarar og verður meira land tekið undir til ræktunar á næstu árum. Við settum þá jörð í aðlögun árið 2021, þar sem við erum með akuryrkjuna ásamt því að rækta líka úrvals gróffóður. Framtíðarhugsunin er að setja þar upp litla graskögglaverksmiðju. Nautaeldið okkar mun síðar færast þangað.

Við höfum undanfarið verið að prófa að notast við kjötmjöl sem áburðargjafa við kornræktunina í Miðhjáleigu sem hefur bara komið nokkuð vel út. Við ætlum að halda áfram að gera tilraunir við notkun á kjötmjöli,“ segir Rúnar Geir.

Árið 2007 var byggt nýtt lausagöngufjós með 72 legubásum.

Eiginlega engir gallar

„Við lítum svo á að það að vera í lífrænni ræktun er að stærstum hluta hugsjónastarf,“ segir Rúnar Geir, en bendir þó á að það sé borgað 35 prósent álag ofan á afurðastöðvarverð fyrir lífrænu mjólkina. „En eins og staðan er núna þá tekur Biobú um fjórðung af mjólkinni okkar. Þeir eru að bæta við tækjabúnaði svo þeir hafi getu til að taka við og vinna úr meiri mjólk.“

Rúnar Geir segir að hugmyndafræðin snúist í grunninn um að stunda landbúnað án notkunar á kemískum áburði eða notkunar á varnarefnum sem sé óneitanlega betra fyrir umhverfið. „Nýta þarf allan þann lífræna úrgang sem fellur til á staðnum eða nærumhverfinu og hafa sem mest af heimafengnu fóðri. Betri aðbúnaður er fyrir dýrin, þá einkum meira pláss og meiri útivist eins og var algengt í íslenskum landbúnaði hér á árum áður. Í rauninni erum við að fara aftur nær upprunanum þó svo við séum ekki farin aftur í torfkofann.

Við sjáum eiginlega enga galla við þessar breytingar, en það er þó meiri vinna sem fylgir sem felst aðallega í dreifingu á lífrænum áburði og að vera duglegri í endurræktuninni, vera öflugri í sáðskiptaræktun sem ýtir undir frjósemi jarðvegsins og duglegir að kalka og lofta túnin.

Meðalnytin minnkar líka þar sem við fóðrum núna að mestu á gróffóðri. Það er svo líka talsvert meira skýrsluhald og pappírsvinna. Aðalforsendan fyrir því að við gátum farið í þetta er að við höfum nóg af ræktarlandi enda erum við með tvær jarðir fyrir þetta til að fóðra allan bústofninn sem telur núna 80 mjólkurkýr, 120 aðrir nautgripir í uppeldi, 20 hross, 14 kindur og nokkrar hænur,“ segir hann.

Strangar reglur um lyfjagjöf

Notkun lyfja er strangari í lífrænt vottuðum landbúnaði, að sögn Rúnars, og notkun sýklalyfja sem fyrirbyggjandi meðhöndlun er óheimill. „Ef gripur veikist og þarf á lyfjameðhöndlun að halda þá fær hann viðeigandi meðferð enda er heilsa og vellíðan dýranna sett í fyrsta sæti. Ef þörf er á notkun sýklalyfja þá er tvöfalt lengri útskolunartími samanborið við í hefðbundnum landbúnaði. Ef það kemur fyrir að gripur þarf oftar en einu sinni sýklalyfjameðhöndlun innan sama afurðaskeiðs, þá dettur viðkomandi út sem lífrænt vottaður gripur og er óheimilt að selja afurðir af þeim grip.

Notkun hormóna eða áþekkra efna í því skyni að stjórna æxlun – eins og að framkalla eða stjórna gangmáli – er bönnuð.

Við gerum einfaldlega allt sem hægt er til að halda gripunum heilbrigðum og að þeim líði sem best; halda nærumhverfi þeirra hreinu, gefa þeim gott fóður sem uppfyllir allar þeirra næringarefnaþarfir, tryggja þeim næga hreyfingu í þeirri von að ekki verði þörf á neinni meðhöndlun.“

Björt framtíð fyrir lífrænt vottaðan landbúnað

Rúnar Geir telur að lífrænt vottaður landbúnaður eigi sér bjarta framtíð hér á landi. „Neytendur sem vilja slíkar vörur sækja hægt og rólega í sig veðrið og þurfa bændur að vera tilbúnir að svara því kalli. Núna í dag er eftirspurn eftir lífrænt vottuðu grænmeti að aukast og þegar neytendur fara að kynna sér betur lífræna ræktun þá erum við viss um að meiri eftirspurn mun verða eftir bæði lífrænt vottuðum mjólkurvörum og kjöti,“ segir hann.Spurður um muninn á ferlinu fyrir sauðfjárbændur og kúabændur, segir Rúnar Geir að hann sé ekki mikill. „Þetta er í raun sambærilegt, sauðféð þarf meira pláss. Það sem hefur verið erfiðast að tækla er krafan um að helmingurinn af gólffletinum þurfi að vera heill, en flest fjárhús hafa annaðhvort málmristar eða grindargólf. Nokkrir bændur hafa leyst það mál og munu fleiri eflaust gerast lífrænt vottaðir sauðfjárbændur með tímanum.“

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...