Rýnt í matarkistuna
Á Matarmóti Austurlands var hráefni fjórðungsins í aðalhlutverki auk þess sem færeyskt góðmeti var á boðstólum.
Matvælaframleiðendur á Austurlandi kynntu vörur sínar á Matarmóti Matarauðs Austurlands í öndverðum nóvember, í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þema mótsins, hins fjórða í röðinni, var Landsins gæði – austfirsk hráefni. Framleiðendur sýndu vörur sínar úr hráefni að austan, seldu þær og gáfu gestum og gangandi smakk. Um var að ræða allt frá sælgæti og sultum til þurrkaðs ærkjöts. Þá voru á boðstólum sýnishorn af færeyskum matvælum.
Nýjung var að þessu sinni á matarmóti að framleiðendum sem nýta austfirskt hráefni, annað en matvæli, var boðið að kynna vörur sínar. Ýmsir fremstu kokkar landsins mættu einnig og sýndu listir sínar í eldun á austfirsku hráefni.
Á morgunfundi fyrir viðburðinn sté m.a. á svið Heidi Holm frá Visit Færeyjar en hún stýrir nýju verkefni; Bændur og ferðaþjónusta sem Visit Færeyjar og Færeyski landbúnaðarsjóðurinn standa að. Heidi fjallaði um verðmætasköpun í landbúnaði í Færeyjum, þar sem áhersla er á tengsl matar og ferðaþjónustu og hvernig hægt er að tengja, eða endurtengja, heimamenn og gesti við staðbundna framleiðslu. Þá sagði hún frá verkefni sem kallast „Heimablíðni“ sem gengur út á að bændur bjóða fólki heim – til að borða með þeim.
Fullt var út úr dyrum á matarmótinu. Því er ætlað að fagna grósku í matvælaframleiðslu á Austurlandi, mynda tengsl og auka samstarf innan og utan fjórðungs. Fyrsta mótið var haldið haustið 2021 og hefur síðan þá vaxið, mótast og tekið ýmsum breytingum. „Þeir framleiðendur sem voru á svæðinu voru himinlifandi með móttökurnar og telja að matarmótið sé orðinn mjög mikilvægur vettvangur fyrir þau til að kynna vörur sínar og koma þeim á framfæri,“ segir Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnastjóri hjá Austurbrú.
„Talið er að um 900 manns hafi sótt viðburðinn en það voru um 30 framleiðendur vara frá Austurlandi sem kynntu sig. Fjöldi sýnenda fer vaxandi með hverju árinu og ljóst að viðburðurinn hefur fest sig í sessi og er kominn til að vera,“ segir hún.