Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gugga í Lóni, Hulda í Hjartalagi og Kristín frá Blúndum og blómum.
Gugga í Lóni, Hulda í Hjartalagi og Kristín frá Blúndum og blómum.
Líf&Starf 18. janúar 2016

Markmiðið að breiða út hlýju, kærleika og jákvæðan boðskap

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Afmælið tókst vel, það kom hingað margt fólk og stemningin var notaleg,“ segir Hulda Ólafsdóttir, sem á og rekur fyrirtækið Hjartalag – hlýjar kveðjur á Akureyri. Vinnustofan er í kjallaranum þar sem hún býr við Þórunnarstræti, þar var áður fyrr fjós og skammt sunnan við húsið er gömul hlaða.  Þar sló Hulda upp afmælisveislu um daginn og fagnaði tveggja ára afmæli Hjartalags.  Með henni voru tvær góðar vinkonur, systir hennar Guðríður Baldvinsdóttir, Gugga í Lóni í Kelduhverfi, en hún rekur samhliða búskap félagið Sælusápur. Gugga er sauðfjárbóndi og skógfræðingur, býr ásamt eiginmanni, Einari Ófeigi Björnssyni, með á fimmta hundrað fjár, en einnig er á jörðinni æðavarp, skóg- og skjólbeltaræktun. 
 
Kristín S. Bjarnadóttir í Sigluvík á Svalbarðsstönd var einnig í hópnum.  Hennar starfsemi fer fram undir nafninu Blúndur og blóm og meðal þess sem hún framleiðir eru vinsæl skipulagsdagatöl.
 
Erum allar sveitastelpur
 
 „Við þekkjumst allar mjög vel, ég sé um alla hönnun, bæði fyrir Sælu­sápur og eins dagatölin sem Kristín framleiðir og því var borðleggjandi að bjóða þeim að slást í hópinn og fagna þessum tímamótum,“ segir ­Hulda.  „Við erum líka allar sveitastelpur í húð og hár, Gugga og Kristín búa enn í sveit og ég held tengslunum við sveit­ina með því að búa á gömlum sveitabæ sem nú er í miðjum Akur­eyrarbæ.  Það sakar nú aldeilis ekki að hafa hlöðu í garðinum.“
 
Hulda segir að margir hafi lagt leið sína til þeirra vinkvenna, bæði sem þær þekktu fyrir og eins aðrir sem þær þekktu ekki neitt „og það var bara mjög gaman hjá okkur.  Við skreyttum með greinum og kertum úti þannig að það varð rómantísk yfirbragð yfir öllu hér sem passar auðvitað ágætlega því þannig er yfirbragðið á okkar vörum. Það var markmiðið að fólki þætti notalegt að koma við hjá okkur á þessum árstíma og sjá hvað við höfum upp á að bjóða, fólk skoðaði það sem við erum að framleiða og dreypti á kakói og maulaði smákökur með.“ 
 
Gaman að sinna eigin sköpun
 
Hulda segist afskaplega glöð yfir þeim góðu viðtökum sem hennar verk hafi fengið.
Hún er grafískur hönnuður og starfaði við fagið um alllangt skeið, en hennar eigin hönnun var eins konar hliðargrein við brauðstritið.  „Ég var alltaf að fikra mig áfram, skapa eitthvað og búa til. Það vatt svo jafnt og þétt upp á sig og að lokum var þetta orðið svo umfangsmikið hjá mér að ég hreinlega varð að gera upp við mig hvort ég ætti að kasta mér út í djúpu laugina, hætta í fastri vinnu og helga mig eingöngu mínum eigin verkum. Ég tók þann kostinn og sé alls ekki eftir því, það er virkilega gaman að sinna eigin sköpun, sjá hlutina þróast og verða að fullgerðri vöru. Og vissulega ánægjulegt að fólki líkar við þessa hluti sem ég er að gera,“ segir hún.
 
Hulda hefur bætt við sig námi sem snýr að rekstri fyrirtækja, markaðsmálum og fleiru í þeim dúr og segir að félagið gangi ágætlega. Hún sinnir auk eigin sköpunar einnig ýmsum verkefnum í sínu fagi fyrir hina ýmsu aðila. „Ég hef alltaf fundið fyrir þessari þörf að skapa, það gefur mér mikið,“ segir hún. Eitt af því sem hún segir mikilvægt við að koma sér á framfæri sé að vera sýnilegur og það hefur hún svo sannarlega gert í ár, tekið þátt í fjórum stórum sýningum.  Hún var með í sýningunni Handverk og hönnun í Reykjavík, bæði í vor og nú í nóvember síðastliðnum, tók þátt í Hönnunarmars og var á Handverkshátíðinni á Hrafnagili í sumar.
 
„Það er afskaplega gott að taka þátt í sýningum af þessu tagi, það er svo auðvelt að gleyma sér í eigin heimi þegar maður er einn að vinna.  Ég reyni að vera opin fyrir nýjum leiðum við að koma mér á framfæri og hef náð ágætis árangri í að gera Hjartalagið sýnilegt og þannig að fólk viti af mér,“ segir Hulda. Hún er með samnefnda vefsíðu, sölusíðu sem gengur vel, en þar er hægt að sjá úrvalið og panta vörur.
 
Aðventuljósin vinsæl
 
„Hjartað hefur alla tíð verið mér hjartfólgið, mitt markmið er að breiða út hlýju, kærleika og jákvæðan boð­skap,“ segir Hulda, en á hennar vörum má gjarnan finna ljóð eða gullkorn, falleg orð sem hitta beint í hjartastað.  „Mínar vörur eru gjarnan keyptar til gjafa og hugmyndin er sú að sá sem þiggur fái í leiðinni hlýja kveðju.“
 
Meðal þess sem Hulda hefur hann­að má nefna bækur af ýmsu tagi, uppskrifta- og minningabók m.a., kort, kerti, platta og hjartalaga glugga­skraut með áletrun. Það nýjasta í vörulínu hennar eru kertaberar, þeir eru úr plexígleri og fást í þremur stærðum og nokkrum litum. „Mig langaði að gera eitthvað jólalegt og það nýjasta hjá mér núna eru aðventu­ljós, þá raða ég fjórum kerta­berum saman svo úr verður ein heild,“ segir hún. „Ég hef alltaf heill­ast af einfaldri hönnun.“ Þeir hlutir sem Hulda hannar eiga það sameiginlegt að pakkast vel, eru í flötum umbúðum og segir hún það mælast sérlega vel fyrir hjá þeim sem eru að senda gjafir til útlanda. „Ég hef tekið eftir því að margir sem kaupa mínar vörur eru að gefa þær sínu fólki sem býr í útlöndum. Fólk vill gjarnan gefa eitthvað íslenskt, íslensk hönnun er vinsæl og auðvitað skiptir þá líka máli að póstsendingakostnaður sé innan skynsamlegra marka,“ segir hún. 
 

7 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....