Vor-kjúklingur á ítalska vísu – fylltur með grænmeti
Höfundur: Bjarni Gunnar Kristinsson
Nú þegar vorið virðist loksins vera komið til Íslands er ekki úr vegi að draga fram vorlegan kjúklingarétt sunnan frá Ítalíu.
Kjúklingur primavera
- Einn kjúklingur sem búið er að klippa hrygginn úr (til að fylla og flýta fyrir eldun)
- 2 msk. ólífuolía
- salt
- Ferskur svartur pipar
- 1 tsk .ítalskt blaðkrydd
- Einn kúrbítur, þunnt skorinn í fallegar sneiðar
- 3 miðlungs tómatar, helmingaðir og skornir í þunnar sneiðar
- 2 gular paprikur, þunnt sneiddar
- 1/2 rauðlaukur, þunnt sneiddur
- 1 kúla ferskur mozzarella-ostur
Aðferð
Hitið ofninn í 200 gráður – eða grillið. Setjið kjúkling á skurðbretti og klippið með góðum skærum bakhliðina úr (hrygginn). Aðferðin oft kölluð að fletja út. Skerið vasa í bringurnar en gætið þess að skera ekki alveg í gegn. Smyrjið með olíu og kryddið með salti, pipar og ítalska kryddinu.
Fyllið hvern vasa til skiptist með kúrbít, tómötum, papriku og rauðlauk.
Gott að rífa mozzarella-ost yfir.
Bakið þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, í um 25 mínútur. Ef nota á grill er gott að hvolfa kjúklingnum á stálbakka eða laust kökuform, þegar búið er að brúna skinnmegin – svo grænmeti detti ekki á milli grinda.
Framreiðið með grilluðu grænmeti og sýrðum rjóma með graslauk.
Döðlu-orkuboltar með ávöxtum
Þessir boltabitar eru matmiklir og nógu sætir til að fá sér hollt millimál eða orku fyrir útiveru eða líkamsrækt.
- 2/3 bolli (auk 1 msk. til skrauts)
- skeljalausar pistasíuhnetur
- 4-6 stórar ferskar döðlur
- 1/3 bolli tahinimauk (sesam)
- 3 msk. hreint hlynsíróp
- ¾ tsk. sjávarsalt
- ¼ bolli (auk 2 msk. til skrauts) ósykrað kakóduft
- 1 msk. ristuð sesamfræ
Aðferð
Setjið smjörpappír á bakka. Hakkið ? bolla pistasíuhnetur í matvinnsluvél þar til þær eru gróft hakkaðar. Setjið döðlur, tahinimauk, hlynsíróp, salt og ¼ bolla kakóduft saman við og vinnið þar til myndast kakómassi.
Hnoðið í tíu 30 g kúlur (hver um sig verður á stærð við borðtennisbolta) og raðið á smjörpappír. Kælið þar til þær eru orðnar stífar, eða í um 20 mínútur.
Á meðan þær kólna, myljið þá sesamfræ og restina (1 msk.) af pistasíuhnetum með mortéli eða beittum hnífi – þar til þetta er orðinn fínn mulningur. Færið yfir í litla skál. Setjið það sem eftir er af kakóduftinu (2 msk.) í aðra litla skál.
Endurrúllið kúlurnar þar til þær eru sléttar og kringlóttar. Dýfið helmingnum af hverjum bolta í pistasíu- og sesamfræblönduna, svo hinn helminginn í kakóduft (má velta upp úr bræddu súkkulaði fyrst).
Leggið aftur á bakkann og haldið köldu.
Hægt er að gera kúlurnar mánuð fram í tímann og geyma þær í lofttæmdum umbúðum í frysti.
Framreiðið með berjum og kíví.