Schwarzenegger sprengir fílatönn í loft upp
Leikarinn, sprengjusérfræðingurinn og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, lagði nýlega sitt af mörkum til verndunar fíla í heiminum þegar hann sprengdi fílatönn í loft upp á myndbandi.
Myndbandið sýnir Arnald þar sem hann stendur fyrir framan skriðdreka með fílatönn í höndunum. Því næst segir hann með tortímandi röddu veiðiþjófum að hætta að drepa 96 fíla á dag vegna tannanna. Í kjölfarið sést hann tengja við tönnina sprengiefni og sprengja hana í loft upp á heybagga.
Uppátækið er hluti af herferð sem kallast 96 fílar og er ætlað að vekja athygli á þeim fjölda fíla sem að meðaltali eru drepnir af veiðiþjófum á dag vegna tannanna. Ríflega 42 tonn af fílabeini hafa verið gerð upptæk og brennd það sem af er þessu ári þegar reynt hefur verið að smygla því milli landa.
Mest af fílabeini er smyglað frá Kongó, Eþíópíu, Kenía og Mósambík en inn til Kína, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Bandaríkjanna.