Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bændamarkaðurinn við Edinborg er einstaklega vel staðsettur, rétt við hinn heimsfræga Edinborgarkastala.
Bændamarkaðurinn við Edinborg er einstaklega vel staðsettur, rétt við hinn heimsfræga Edinborgarkastala.
Mynd / SS
Líf&Starf 29. júlí 2015

Skotlandsferð Félags vestfirskra sauðfjárbænda – fyrri hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Í júní sl. héldu félagar í Félagi vestfirskra sauðfjárbænda í stutta fagferð til Skotlands. Megin tilgangur ferðalagsins var að fara á landbúnaðarsýninguna Royal Highland Show, en sýningunni sjálfri var gerð skil í 12. tölublaði Bændablaðsins. 
 
Auk þess að fara á sýninguna var farið í heimsóknir til bænda, á bændamarkað, á tilraunastöð skoska landbúnaðarháskólans og á uppboðsmarkað með búfé.
 
Um skoska landbúnaðinn
 
Skotland er töluvert minna en Ísland, um 78.800 ferkílómetrar, en munurinn á löndunum liggur í nýtingarhlutfalli landsins þar sem 75% landsins er nýtt í landbúnaði. Sauðfjárræktin er afar umsvifamikil í landinu en alls eru 2,6 milljónir áa í Skotlandi á 12.700 búum. 
 
Meðal bústærðin er því um 206 ær sem segir þó ekki allt enda afar mikill munur á bústærðinni. Þannig eru t.d. 30% ánna á 500 búum og er meðal bústærð þeirra því um 1.600 ær. Þó svo að sauðfjárræktin sé umsvifamikil þá er nautakjötsframleiðslan stærsta búgrein landsins enda eru 450 þúsund holdakýr í landinu á 9 þúsund kúabúum og er virði nautakjötframleiðslu Skotlands meira en tvöfalt virði lambakjöts og ullarframleiðslu landsins. 
 
Meðal kúabúið er með um 130 kýr en skosku kúabúin hafa stækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2011 var meðalbúið með 110 kýr og hafa þau því stækkað um 5 árskýr að meðaltali á ári! Alls eru í dag 1.500 kúabú í landinu og framleiða þau 1,3 milljarða lítra á ári og meðalnytin er því frekar lág, enda byggir framleiðslan oftar svo til eingöngu á beitarbúskap. 
 
Annar landbúnaður er auðvitað einnig mikilvægur í Skotlandi s.s. svínakjötsframleiðsla, alifuglarækt, ávaxta- og grænmetisframleiðsla auk kartöfluræktar, en Skotland er langstærsti framleiðandi á kartöflum innan landa Stóra-Bretlands.
 
Bændamarkaðurinn við Edinborg
 
Fyrsti dagur ferðalagsins, föstudagurinn 19. júní, hófst með heimsókn á Royal Highland Show en næsta dag var ákveðið að taka hvíld frá sýningunni og fara í aðrar faglegar heimsóknir. Byrjað var á því að taka hús á bændum sem selja vörur sínar á sk. bændamarkaði við Edinborg. 
 
Markaðir sem þessi eru afar algengir víða um Stóra-Bretland og selja þar bændur margs konar vörur sínar allt frá handverki upp í kjöt og álegg. Á þessum markaði við Edinborg koma saman í kringum 40 bændur á hverjum laugardegi og selja vörur sínar. Margir þeirra flakka svo um og fara á aðra bændamarkaði hina dagana, en hver markaður hefur „sinn dag“ og geta bændurnir því boðið vörur sínar víða. Einkenni þessara markaða er að enginn má selja vörur frá öðrum en sjálfum sér, þ.e. umboðssala er ekki heimil og því er hér raunveruleg sala beint frá býli.
 
Mega slátra kjúklingum heima og selja
 
Athygli vakti hinna íslensku gesta hve mikið og fjölbreytt úrval var af kjöti, bæði fersku og unnu. Þannig voru t.d. nokkrir að selja kjúklingakjöt en í Skotlandi má slátra kjúklingum heima, án vottunar og viðveru dýralæknis, og selja beint til neytenda. Þó eru reglurnar þannig að þetta er einungis heimilt sé fjöldi slátraðra kjúklinga að hámarki 9.999 stykki á ári. Virkaði afar skynsamlegt og gott kerfi sem Skotar hafa komið sér þarna upp. 
 
Þá voru margir að selja bæði lamba- og/eða nautakjöt en ætli bóndi að selja slíkt kjöt beint þarf að slátra í sláturhúsi. Algengt verð fyrir slátrun á lambi í Skotlandi eru 8 pund eða um 1.700 krónur og fær bóndinn þá bæði fall og innmat en sláturhúsið heldur eftir gærunni sem viðbótargreiðslu við pundin átta. Reyndar er kerfið þannig að ef hærra verð fæst fyrir gæruna en ætlað var, lækkar sláturkostnaðurinn og öfugt fáist lægra verð fyrir gæruna.
 
Veiða með frettum
 
Tveir bændur voru sérhæfðir í sölu og vinnslu á villibráð og afar fróðlegt var að sjá og heyra um vinnslu á þessum afurðum, en bæði var hægt að kaupa kanínur heilar eða í hlutum, sem og nokkrar tegundir fugla. Aðspurðir um slátrun á kanínum þá var það ekki sérlega flókinn ferill, þær eru veiddar í net með því að nota frettur (dýr af marðarætt) sem fara ofan í kanínuholurnar og reka þær upp. Síðan eru kanínurnar aflífaðar og verkaðar. Skinnin eru svo einnig nýtt og seld, svo ekkert fer til spillis.
 
Eingöngu í lokaeldi nautgripa
 
Að lokinni heimsókn á markaðinn við Edinborg var haldið á búið Gaindykehead við bæinn Airdire í Norður-Lanarkskíri, skammt frá Glasgow. Þar búa þeir John Brown og sonur hans, Jim, ásamt fjöl-skyldum sínum, en þeir feðgar voru áður í mjólkurframleiðslu en eru nú eingöngu í lokaeldi bæði á kvígum og uxum. 
 
Móttökurnar sem íslenski hópurinn fékk á Gaindykehead voru einstakar, en hópnum var m.a. boðið í hádegisverð og svo farið í skoðunarferð um búið. Um bú þeirra feðga fara 2.500–3.000 gripir á ári en allir gripir eru keyptir á uppboðsmörkuðum u.þ.b. 3–4 mánuðum fyrir áætlaða slátrun. Þegar kemur svo að sölu á ný, fara gripirnir í slátrun en feðgarnir selja mikið af sínu kjöti beint til kjötvinnsla en einnig beint bæði til veitingastaða og smásöluaðila.
 
Fá 50 kíló af kartöflum á dag
 
Uppistaða fóðursins í lokaeldinu eru kartöflur, en það er einmitt sérstaða Gaindykehead-búsins og er fitusprenging kjötsins víst með eindæmum góð. Rétt í nágrenninu er nefnilega stærsta kartöfluverk-smiðja Stóra-Bretlands og fá feðgarnir allar kartöflur sem ekki standast mál verksmiðjunnar. Fyrir tonnið þurfa þeir ekki að greiða nema 8 pund ef þeir sækja kartöflurnar sjálfir, eða rétt um 1,7 krónur á kílóið!
 
Kartöflurnar þarf því alls ekki að spara og fá gripirnir frjálst aðgengi að kartöflum daginn út og inn og taldi John að líklega færu að jafnaði 50 kíló af kartöflum á dag í hvern grip, þegar afföll og moð væri tekið með inn í reikninginn. Þá er einnig gefið svolítið vothey og örlítið gerjunarhrat frá viskíverksmiðju í nágrenninu. Með aðgengi að þessu kraftmikla en ódýra fóðri ná gripirnir að bæta vel á sig síðustu mánuðina og þyngjast þeir að jafnaði um 1,3 kíló að dag. Auk þess að fóðra gripi inni eru nokkrir gripir hafðir úti á beit. Þeir gripir eru seldir á markaði með öðrum hætti, enda hafa þeir fengið annars konar eldi og því hægt að markaðssetja kjötið sem slíkt.
 
Miklar breytingar á veðurfari
 
Aðspurðir um ástæður þess að þeir hættu í mjólkurframleiðslu lá ekki á svari en John taldi að hann myndi ekki geta stækkað bú sitt nóg svo það gæti verið samkeppnishæft til lengri tíma litið. Því leitaði hann að öðrum leiðum sem gætu nýtt byggingarnar og landið en land hans, alls 106 hektarar, er afar grasgæft og sér í lagi nú síðustu ár. 
 
Það hafa nefnilega orðið gríðarlega miklar breytingar á veðurfari á þessu svæði í Skotlandi undanfarin ár og hefur í raun ekki komið almennilegur vetur þarna nú í langan tíma. Fyrir vikið hafa bændurnir þurft að snarbreyta öllu skipulagi hjá sér, enda vex nú grasið einnig langt fram á vetur – nokkuð sem aldrei gerðist áður. Fyrir vikið þarf að halda grasinu niðri á þessum tíma og fá þeir John og Jim lánuð lömb til verksins. 
Alls beita þeir á land sitt 600 lömbum á haustin í lokaeldi fyrir slátrun þeirra en beitina bjóða feðgarnir ókeypis, enda þeirra eigin hagur að grasinu sé haldið niðri svo það haldi orkugildi sínu vel á vorin. Þeir sjá svo sjálfir um stærsta hluta útiverka, en fá þó verktaka til þess að keyra skít og vothey heim í stæðurnar.
 
Fjórir vinna á búinu
 
Alls hafa fjórir atvinnu af Gaindykehead-búinu enda í mörg horn að líta á stóru búi. John sér að mestu um innkaup á lifandi gripum og fer á uppboðsmarkaði 2–3 í viku og krækir í álitlega gripi en Jim sér hins vegar um hinn daglega rekstur. 
 
Eiginkona John sér svo um allt bókhald en auk þess hafa þau ráðið einn starfsmann að búinu. Sá vinnur einungis á virkum dögum og ekki nema 8 tíma á dag, enda má ekki vinna meira. Þau borga starfsmanni sínum góð laun á íslenskan mælikvarða, 25 þúsund pund á ári eða um 440 þúsund krónur á mánuði. John sagði þó að þetta væru einungis venjuleg laun í skoskum landbúnaði og að ekki væri um yfirborgun að ræða.
 
Flestir gripir á legubásum
 
Í eldisfjósum Gaindykehead-búsins eru flestir gripir hafðir á legubásum, bæði kvígur og uxar, en þegar eldistíminn er hálfnaður eru gripirnir oftast settir í stórar taðstíur. Taðinu er haldið þurru með sagi og er sagið fengið frá nálægri sögunarmyllu og kemur reglulega nýr bílfarmur af sagi til búsins. Sagið er svo borið undir gripina annan hvern dag en mokað út á sex vikna fresti.
Ekki öll egg í sömu körfunni
 
John sagðist ekki treysta á stöðugleikann í landbúnaðinum enda upplifað tímana tvenna með verðsveiflum á markaði svo dæmi sé tekið. Hann ákvað því að fjárfesta í vindmyllu, svo búið hefði tekjur úr a.m.k. tveimur áttum þ.e. bæði úr kjötframleiðslu en einnig raforkuframleiðslu. 
 
Í Skotlandi geta bændur fengið styrki til þess að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur átak skoskra yfirvalda gengið svo vel að Skotland er í dag það land í heiminum sem stendur einna fremst í nýtingu á vindorku! Vindmyllan sem er á jörðinni er 100 kW og  kostaði bygging og uppsetning hennar 380 þúsund pund eða í kringum 80 milljónir króna. 
 
Þetta kann að virka sem hreint ótrúlega mikil fjárfesting og er það vissulega en það sem er eiginlega ótrúlegt við þetta skoska kerfi er að hún nær að borga sig upp á einungis fimm árum! Styrkirnir til vindorkuframleiðenda eru nefnilega afar miklir en skoska ríkið greiðir 24–25 pens á hverja kílóvattstund í styrk.
 
Eftir afar fróðlega og áhugaverða heimsókn var svo haldið af stað upp í hálendi Skotlands, þar sem tekið var hús á fjárbónda en þeirri heimsókn og öðrum sem farið var í í þessari skemmtilegu ferð verður gerð skil síðar hér í Bændablaðinu.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
í Danmörku

4 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....