Vel heppnað Vopnaskak
Höfundur: Guðrún Bergrún Jóhannesdóttir
Á dögunum gerðu Vopnfirðingar og gestir þeirra sér ýmislegt til skemmtunar á sumarhátíðinni Vopnaskaki.
Þar var hagyrðingakvöld, tónleikar með Mannakornum, útimarkaður og fleira til gamans gert. Þá var einnig sveitaball þar sem dansinn dunaði í samkomuhúsinu Hofi eftir langt hlé og ekki ólíklegt að margir hafi rifjað upp skemmtilegar minningar þar.
Börnin skemmtu sér vel á sýningu Einars töframanns og ekki verra að fá uppvafið sykurfrauð til að smjatta á. Á útimarkaðinum var fjölbreytt úrval handverks, hönnunar og að sjálfsögðu nýbakaðar kleinur fyrir þá sem voru nógu snöggir að tryggja sér poka.