Aflamet slegið
Í nýliðnum maí lönduðu alls 611 strandveiðibátar samtals 3.672 tonnum og hefur afli í maí aldrei verið meiri frá upphafi strandveiða árið 2009. Þar af var þorskur 3.293 tonn, sem er aukning um 699 tonn milli ára.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að á öllum svæðum við landið hafi afli aukist á milli ára. Hlutfallslega mest á svæði D, Hornafjörður – Borgarbyggð, um 46% og munar þar mestu um góðan ufsaafla.
Þann 30. maí var landað alls 373 tonnum sem er dagsmet. Fyrra metið var 28. júní á síðasta ári, 367 tonn.
Áætlað aflaverðmæti er 1.347 milljónir króna og er það mikil hækkun frá síðasta ári þegar afli í maí gaf um 755 milljónir.