Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Áburðarsalar fylgjast vel með þróun verðs á heimsmörkuðum.
Áburðarsalar fylgjast vel með þróun verðs á heimsmörkuðum.
Mynd / ÁL
Fréttir 20. október 2023

Áfram fylgst með þróun á áburðarmörkuðum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á hagtölusíðu síðasta tölublaðs Bændablaðsins var veitt yfirlit yfir þróun verðs á hrávörum til áburðar- og fóðurgerðar á heimsmörkuðum.

Þar mátti sjá að sé litið til síðustu 12 mánaða hafa talsverðar verðlækkanir orðið á flestum hráefnum. Íslenskir fóðursalar hafa lækkað sitt verð nokkuð að undanförnu, en áburðarsalar bíða átekta eftir frekari lækkunum vegna kaupa fyrir næsta ár.

Í greiningu Unnsteins Snorra Snorrasonar á hagtölusíðunni kemur fram að þótt hrávöruverð hafi lækkað á undanförnum mánuðum sé verð enn miklu hærra en það var árin 2015 til 2019. Segir hann gífurlegar verðhækkanir á síðasta ári vera helstu ástæðuna.

Lækkanir á helstu hráefnum í kjarnfóðurgerð

Elías Hartmann Hreinsson hjá SS segir lækkanir hafa orðið á helstu hráefnum í kjarnfóður hjá Sláturfélagi Suðurlands. „Við tilkynntum, fyrstir allra fóðursala hér á landi, verðlækkun á öllu nautgripafóðri frá DLG þann 18. september síðastliðinn. Verðlækkun var mismunandi eftir tegundum, frá sex til tíu prósent. Fóðurverð hafði ekki tekið breytingum hjá okkur síðan 5. október 2022 en við festum verð á fóðri oft til langs tíma þegar það er talið hagstætt fyrir bændur. Verð á hráefnum til fóðurgerðar getur tekið breytingum og þá oft með stuttum fyrirvara og því erfitt að spá fyrir um verðþróun á einstökum hráefnum fram í tímann.“

Hólmgeir Karlsson, hjá Bústólpa, segir greiningu Unnsteins vera í takti við það sem hann sjái við innkaup á fóðurhráefnum. „Gengi krónunnar hefur líka verið hagstætt að undanförnu þó það halli aðeins til verri vegar aftur nú síðustu dagana. Við náðum að lækka allt okkar fóður umtalsvert seinnihluta september vegna hagstæðari innkaupa. Hvað svo er í kortunum áfram er erfitt að spá um. Við kaupum ekki fóðurhráefnin langt fram í tímann þannig að við erum meira að spá í þróunina frá viku til viku.“

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir hjá Líflandi segir að félagið hafi tilkynnt um verðlækkun á fóðri frá og með 27. september síðastliðnum. „Lækkunin nam fjórum til tíu prósentum á kjarnfóðri fyrir mjólkurkýr og nautgripi.“

Heimsmarkaðsverð lægra en í fyrra

Úlfur Blandon hjá Fóðurblöndunni segir að verðlækkun hafi orðið á fóðri hjá þeim í lok síðasta mánaðar þar sem þeirra helstu tegundir tóku allt að níu prósenta lækkun. Í yfirlitinu á hagtölusíðunni sést að heimsmarkaðsverð á köfnunarefni hefur lækkað mest, eða um 65 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Elías Hartmann segir að köfnunarefni hafi hækkað umtalsvert meira en fosfór og kalí í kjölfar innrásar Rússlands inn í Úkraínu. „Við lækkun á gasi hefur verð á köfnunarefni lækkað. Erfitt er að segja til um hvort lækkun á áburði á erlendum mörkuðum sé að fullu komin fram. Ekki þarf meira til en kaldan vetur í Evrópu svo gas hækki og þar með framleiðslukostnaður á köfnunarefni sem gæti breytt stöðunni hratt. Einnig er enn mikil óvissa með framvindu stríðsins í Úkraínu og nú fyrir botni Miðjarðarhafs, sem getur haft áhrif til hækkunar á olíu sem getur leitt til hækkunar á áburði. Við fylgjumst vel með þróun áburðarverðs og erum í nánu samstarfi við YARA um hvenær hagkvæmt sé að loka samningum vegna áburðarkaupa,“ segir hann.

Ingibjörg Ásta segir að varðandi áburð og rúlluplast eigi Lífland nú í samtölum við birgja og fylgist með þeim mörkuðum. „Eins og staðan er gætir nokkurrar lækkunar milli ára í báðum vöruflokkum. Hvernig umræddar lækkanir skila sér inn á okkar markað mun skýrast betur á næstu vikum og mánuðum.“

Úlfur Blandon segir að fylgst sé með þróuninni á erlendum mörkuðum. „Það hafa verið töluverðar sveiflur á erlendum mörkuðum í áburðinum en þó alltaf í jákvæða átt, en eins og staðan er í dag er heimsmarkaðsverð töluvert lægra heldur en á sama tíma í fyrra.“

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...