Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands.
Fréttir 12. júlí 2021

Álag og streita meðal dýralækna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Stjórn Dýralæknafélags Íslands sendi nýverið frá sér niðurstöðu könnunar sem félagið lét gera á líðan dýralækna í starfi. Samkvæmt könnuninni er andleg vanlíðan og streita meðal dýralækna algeng hér á landi. Helmingur svarenda taldi álag í starfi vera við þolmörk en minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi.

Stjórn Dýralæknafélags Íslands sendi nýverið frá sér niðurstöðu könnunar sem félagið lét gera á líðan dýralækna í starfi. Samkvæmt könnuninni er andleg vanlíðan og streita meðal dýralækna algeng hér á landi. Helmingur svarenda taldi álag í starfi vera við þolmörk en minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi.

Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, segir að ástæðurnar fyrir niðurstöðunni séu fjölþættar og mismunandi. „Dýralæknar vinna margs konar og ólík störf og í ólíkum geirum. Þjónustudýralæknar í dreifðari byggðum landsins eru fáir og vaktsvæðin stór.

Þar sem þéttbýli er meira, eins og í Eyjafirði og víða á Suðurlandi, eru þó nokkuð margir dýralæknar og á þeim svæðum hafa þeir oft starfsfélaga og geta unnið saman að erfiðum tilfellum og slíkt er flestum ómetanlegt. Hins vegar eru á landinu 11 þjónustudýralæknar sem sinna mjög stórum svæðum og vinna oft og tíðum einir og það sem meira er, vaktsvæðin hafa stækkað í kjölfar breytinga á löggjöf um aðskilnað á eftirliti og þjónustu.

Í dag eru dæmi um að dýralæknar þurfi að keyra um 200 kílómetra aðra leið við erfiðar aðstæður. Þetta gerir það að verkum að þjónustan verður engan veginn nógu góð út frá sjónarmiði dýravelferðar, þjónustu til bænda og álags á dýralækna sem vakta stór svæði og eru mikið á vakt. Skilyrði eins og þessi eru ekki til að trekkja ungt fólk að og því sífellt erfiðara að fá fólk í þessar stöður.

Á sama tíma eru of mörg tilfelli um að það getur verið erfitt fyrir bændur að ná í dýralækni eða út frá dýravelferð getur biðin eftir þjónustu verið of löng.“

Álag hefur aukist til muna

Helmingur svarenda í könnuninni taldi álag í starfi vera við þolmörk en minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi. Álag í starfi virðist hafa aukist síðustu misseri en 68% sögðu álagið hafa aukist, þar af 59% mikið eða mjög mikið. Einn af hverjum fimm, eða 21%, sögðust hafa skipt um starf vegna álags á lífsleiðinni og allnokkrir hættu störfum alfarið.

„Niðurstaða skýrslunnar sýnir að þróunin er ekki góð,“ segir Bára, „enda miklar sviptingar í greininni frá 1980. Það ár voru héraðsdýralæknar 26, árið 2011 voru þeir 18 og sinntu þá bæði þjónustu og eftirliti. Því var breytt vegna löggjafar Evrópusambandsins þar sem um hagsmunaárekstur væri að ræða ef sami aðilinn sæi um þjónustuna og eftirlit. Í dag eru fjórir héraðsdýralæknar með eftirlitshlutverk fyrir allt landið á vegum Mast og þeir mega ekki sinna dýralæknaþjónustu og hafa ber í huga að nýlega var umdæmum héraðsdýralækna Matvælastofnunar fækkað úr fimm í fjögur.

Í kjölfar Evróputilskipunarinnar komu til þjónustusamningar við dýralækna sem geta verið einyrkjum í stéttinni mjög erfiðir. Þjónustudýralæknar þurfa til dæmis sjálfir að útvega afleysingu komi upp veikindi eða ef þeir vilja komast í frí og eins og staðan er er engan veginn hlaupið að því.

Auk þess getur það verið kostnaðarsamt fyrir unga dýralækna að hefja sjálfstæðan dýralæknapraksís, þjónustan kallar á dýran tækjabúnað og verkfæri til að geta sinnt starfinu vel.“

Aukinn fjöldi gæludýra

Samkvæmt skýrslunni eru helstu ástæður aukins álags sagðar vera aukin gæludýraeign landsmanna og auknar og óraunhæfar væntingar og kröfur viðskiptavina. Fram­farir í faginu hafa jafnframt aukið þjónustuframboð dýralækna til muna og krafan um aukna tæknivæðingu og endurmenntun verður sífellt háværari. Auk þess sem stóraukið gæludýrahald á landsvísu, óvægin umræða á samfélagsmiðlum, óraunhæfar kröfur viðskiptavina, einmanaleiki, samúðarþreyta og mann­ekla eru meðal helstu orsakavalda.

„Hvað varðar dýralækna í þéttbýli sýndi könnunin að álag á þeim er einnig mikið en að vissu leyti annars eðlis. Margir þessara dýralækna eru að þjónusta bæði bændur, gæludýra- og hrossaeigendur. Endurmenntun og sérhæfni dýralækna í dag er meiri en fyrir 20 til 30 árum og oft og tíðum flóknari úrræðum beitt til að ná lækningu. Það er rétt að taka það fram að aukin reynsla og þekking dýralækna er afskaplega ánægjulegt, bæði fyrir dýraeigendur og dýralæknafagið.“

Eftirlitsstörf oft töluð niður

„Annað sem veldur streitu meðal dýralækna er óvægin umfjöllun um störf þeirra á samfélagsmiðlum, oft innan lítilla hópa. Umfjöllunin getur verið mjög óvægin og ósanngjörn og tengist oftar gæludýrageiranum en landbúnaði, nema þá helst þegar kemur að eftirlitsdýralæknum.

Mín skoðun er reyndar sú, því miður, að eftirlitsstörfin séu alltof oft töluð niður og talað neikvætt um þau. Dýravelferðarmál sem eru okkur öllum hugleikin geta oft verið erfið og miklar tilfinningar í gangi og þá kemur fyrir að dýralæknar fái yfir sig skít og skömm þegar þeir eru að vinna vinnuna sína og reyna að gera sitt besta,“ segir Bára.

Sjálfsvígstíðni dýralækna víða há

Bára segir að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hafi rannsakað starfs­­umhverfi og heilsutengda þætti meðal dýralækna um árabil. „Niðurstöður rannsókna benda til að bandarískir dýralæknar séu mun líklegri til að upplifa andlegan heilsubrest en aðrar stéttir. Einn af hverjum sex dýralæknum í Bandaríkjunum sögðust hafa íhugað sjálfsvíg einhvern tímann um ævina og niðurstöður breskra og norskra kannana benda til hins sama en samkvæmt breskri rannsókn eru dýralæknar þrisvar til fjórum sinnum líklegri til að falla fyrir eigin hendi en meðalmanneskjan og norskir dýralæknar um tvöfalt líklegri.“

Ekki liggur fyrir hvort staðan á Íslandi sé jafn slæm og í öðrum löndum en í könnun Dýralækna­félagsins sögðust 75% svarenda finna fyrir streitueinkennum vegna mikils álags í starfi, þar af 45% bæði fyrir líkamlegum og andlegum einkennum.


Horft fram á við

Að sögn Báru sýnir könnunin að það verði að grípa í taumana og skoða hvað sé hægt að gera til að bæta líðan dýralækna. „Sem stendur er Dýralæknafélag Íslands að líta til þess sem er verið að gera hjá nágrannaþjóðum okkar. Í Noregi var árið 2020 farið í þriggja ára rannsóknir á heilsu dýralækna og þá ekki síst andlega heilsu og í ljósi hás hlutfalls sjálfsvíga í stéttinni. Þrátt fyrir að ekki séu til tölur um sjálfsvíg dýralækna hér á landi höfum við tekið eftir því að fólk er talsvert að detta úr starfi í veikindaleyfi.

Við bindum talsverðar vonir við norsku rannsóknina og vonumst til að geta notfært okkur niðurstöðu hennar til að styðja við bakið á okkar fólki. Auk þess viljum við fá samtal við Matvælastofnun um hvað hægt sé að gera til að styðja við dýralækna sem starfa hjá stofnuninni og einnig samtal við stjórnvöld um hver þróunin hefur verið með vaktsvæðin og vandamál sem tengjast því að fá dýralækna til starfa í dreifðari byggðum.“

Bára segir að Félag dýralækna eigi nú þegar í samtali við Bændasamtök Íslands um það hvernig hægt sé í sameiningu að bæta vinnuumhverfi fyrir dýralækna og þá um leið betri þjónustu fyrir bændur.“

Skylt efni: dýralæknar

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...