Allt brotið og bramlað eftir óveðrið og tjónið hátt í 100 milljónir króna
Óveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku olli víða tjóni og ekki síst á gróðrarstöðinni Reykási á Flúðum. Hátt í 2.500 fermetrar af gleri brotnuðu og farga þurfti öllum gróðri sem var í fullri framleiðslu. Tjónið er áætlað milli 80 og 100 milljónir.
Reynir Jónsson í gróðurhúsinu í nóvember. Mynd / HKr.
Reynir Jónsson, eigandi Reykáss, var í viðbyggðu stálgrindarhúsi þegar óveðrið gekk yfir og segir að það hafi verið sárt að heyra glerið í húsinu splundrast og að hann hafi verið dauðhræddur í stærstu hviðunum um að stálgrindarhúsið færi líka. „Vindurinn í þessari átt getur verið mikill og að þessu sinni náði hann mikilli hæð og ef það brotnar ein rúða verða dómínóáhrif. Hún tekur nokkrar með sér og svo koll af kolli og eftir að húsin hafa opnast á annað borð er lítið sem heldur.“
Glerið splundraðist í hvellum
„Ég er ekki frá því að skemmdirnar á gróðurhúsinu séu hátt í að vera Íslandsmet. Húsin eru 5.500 fermetrar að stærð og standa ofan í eins konar námu sem var búin til og hugsuð til að veita skjól. Við framleiðum milli 250 og 300 tonn af agúrkum, tómötum og salati á ári og framleiðslan var í fullum gangi þegar óveðrið gekk yfir.“
Gróðurhúsin að Reykási meðan allt lék í lyndi í haust. Mynd / Hörður Kristjánsson.
Reynir segir að vindur í hviðum hafi náð 50 til 60 metrum á sekúndu og að glerið í gróðurhúsunum hafi splundrast í hvellum. „Veðrið var hreinlega kolvitlaust og við erum að finna alls kyns hluti, glerbrot og fleira í mörg hundruð metra fjarlægð frá húsunum og við erum búnir að hreinsa í hrúgu upp hátt í fjögur tonn af gleri í húsinu.“
Byrjaður að glerja
Þegar Bændablaðið talaði við Reyni á þriðjudag var kominn til hans flokkur sem ætlaði að hefjast handa við að glerja húsin. „Fljótt á litið sýnist mér að það þurfi að glerja um 2.500 fermetra en það kemur betur í ljós hvort skemmdir séu meiri þegar við hefjumst handa. Mestar eru skemmdirnar á þakinu og svo eru um hundrað fermetrar af veggjum brotnir.
Brotið gler úti um um allt. Mynd / BÁÁ.
Ræktunin í húsinu eyðilagðist öll og ég er búin að moka öllu út. Megnið voru nýjar plöntur í fullum vexti og stöðin í fullum rekstri.“
Aðspurður segist Reynir telja að hann sé tryggður fyrir skemmdunum og hann skýtur á að tjónið sé á bilinu 80 og 100 milljónir en hann segist vonast til að geta sáð í lok vikunnar.
Minni skemmdir í nágrenninu
„Auk þess sem gróðurhúsin skemmdust í óveðrinu fauk allt sem fokið gat og dráttarvél skemmdist illa. Hlaðið er allt meira og minna þakið í gleri sem á eftir að hreinsa upp.“
Reynir segir að auk skemmda hjá sér hafi orðið smærri skemmdir á gróðurhúsum í kringum hann. „Sem betur fer voru þær ekki miklar.“
Moka þurfti allri ræktuninni. Mynd BÁÁ.