Ástand refa í Hornvík kannað
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Vettvangsferð var farin í Hornvík í liðnum mánuði á vegum Melrakkaseturs og var markmið ferðarinnar að kanna ástand refa í Hornvík, fjölda grenja í ábúð og frjósemi dýra, sem og að vakta greni til að meta ágang ferðamanna og viðbrögð dýra við umferð fólks við greni í ábúð.
Auk þátttakenda á vegum Melrakkaseturs voru tveir kvikmyndatökumenn frá Maramedia í Bretlandi með í för en þeir vinna að heimildamynd um íslenska náttúru fyrir japanska sjónvarpsstöð.
Nóg af fæðu
Farið var á öll þekkt greni í Hornbjargi og við Hornvíkurósinn og athugað með ábúð í þeim, alls voru sjö þeirra mjög líklega í ábúð en staðfest voru sex greni með yrðlinga. Einnig var nokkuð af hlaupadýrum, m.a. við húsin að Horni. Fjaran var mikið notuð, bæði af hlaupadýrum og grendýrum. Mikið líf er í víkinni og eggjaskurn algeng sjón á bjargbrún – sem bendir til þess að varp hafi verið með betra móti í bjarginu. Yrðlingar sem sáust virtust nokkuð sprækir og vel haldnir enda nóg af fæðu.
Hópurinn uppi í Almenningaskarði, Innstidalur og bjargið í baksýn.
Valin voru þrjú greni til að fylgjast sérstaklega með m.t.t. samskipta við ferðamenn og afkomu yrðlinga. Þau greni voru vöktuð í 12 klst. á dag í fimm daga. Gert er ráð fyrir að í júní séu dýrin ekki vön ferðamönnum og að læður með yrðlinga séu varnarlausar og algerlega bundnar við greni. Jafnframt því að fylgst var með grenjum var athugað með landamæri óðala og landnotkun hvers óðalspars og ferðir fullorðinna dýra bæði innan óðala og utan.
Stór got
Kom í ljós að flest pörin voru með stór got, allt að níu yrðlinga. Litafar dýranna í Hornvík var svipað og á síðasta ári, langflest dýrin mórauð og afkvæmin líka en ein hvít grenlæða var með níu yrðlinga, þar af einn mórauðan. Reynslan hefur sýnt að karldýrin geta verið meira á varðbergi vegna ágangs ferðafólks á þessu svæði enda hafa þeir meira svigrúm til að halda sig fjarri ef þeir verða fyrir truflun. Mæðurnar, hins vegar, eru bundnar við að heimsækja grenið til að gefa yrðlingunum mjólk og sinna þeim. Þetta er því erfiður tími fyrir fjölskylduna og mest mæðir á móðurinni.
Lífið er ekki alltaf auðvelt á hjara veraldar og ekki víst að yrðlingarnir muni allir lifa til haustsins. Venjan er að 4–5 yrðlingar lifi sumarið hjá hverju pari og sumarið í ár ætti ekki að skera sig úr hvað þetta varðar. Lífsbaráttan er hörð hjá villtum dýrum á norðurslóðum og aðeins sterkustu og útsjónarsömustu dýrin lifa af, segir á vef Melrakkaseturs