Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Samstarfssamningur um átak í uppsetningu á hleðslustöðvum til sveita var að sjálfsögðu undirritaður á húddi rafbíls. Frá vinstri: Tjörvi Bjarnason frá BÍ, Ólafur Davíð Guðmundsson frá Hleðslu ehf. og Berglind Viktorsdóttir hjá Hey Iceland.
Samstarfssamningur um átak í uppsetningu á hleðslustöðvum til sveita var að sjálfsögðu undirritaður á húddi rafbíls. Frá vinstri: Tjörvi Bjarnason frá BÍ, Ólafur Davíð Guðmundsson frá Hleðslu ehf. og Berglind Viktorsdóttir hjá Hey Iceland.
Mynd / Hafliði Halldórsson
Fréttir 2. nóvember 2017

Bændur bjóða rafbílanotendum upp á hleðslu í hlaði

Á nýliðinni uppskeruhátíð Félags ferðaþjónustubænda, sem haldin var á Smyrlabjörgum í Hornafirði fyrr í vikunni, var verkefninu „Hleðsla í hlaði“ formlega hleypt af stokkunum. Markmið þess er að hvetja bændur til þess að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á sínum búum og ýta þannig undir umhverfisvænni samgöngumáta. Áætlað er að fyrstu hleðslustöðvarnar verði teknar í gagnið á næstu mánuðum hjá nokkrum ferðaþjónustubændum.
 
Undirbúningshópur á vegum Hey Iceland, Bændasamtakanna og Orkuseturs hefur unnið að verkefninu frá því í vor og nú þegar eru rúmlega 20 bændur og rekstraraðilar í ferðaþjónustu sem hafa sýnt áhuga á að setja upp hleðslustöð. Málið hefur meðal annars verið kynnt í Bændablaðinu og í beinum samskiptum við hóp ferðaþjónustubænda og fleiri aðila. Í haust bárust tilboð frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í uppsetningu og rekstri rafhleðslustöðva en gengið var til samninga við fyrirtækið Hleðslu ehf. sem hefur meðal annars annast uppsetningu á hleðslustöðvum við verslunina IKEA í Garðabæ. 
 
Bændur geta haft tekjur af rafmagnssölu
 
Fjallað var um rafbílavæðinguna og tækifærin sem liggja í uppsetningu hleðslustöðva fyrir bændur á uppskeruhátíðinni. Ólafur Davíð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hleðslu ehf., hélt erindi um kosti sem væru í boði og þá möguleika sem bændur hafa til þess að selja þjónustuna. Í máli hans kom fram að bændur séu sérlega heppilegur hópur til að sinna þessari þjónustu. Þróunin sé þannig að rafbílaeigendur hlaða bílana sína heima hjá sér á nóttunni og þess vegna sé minni áhersla á uppsetningu hleðslustöðva í borgum og bæjum. Hins vegar sé brýnt að byggja upp gott net hleðslustöðva í dreifbýli og þar séu fáir betri en bændur til að sinna þjónustunni. 
 
„Það eru ýmsir möguleikar í boði, bæði litlar hleðslustöðvar sem kosta ríflega 100 þúsund krónur og upp í stöðvar sem kosta um 450 þúsund krónur auk virðisaukaskatts. Hraðhleðslustöðvar eru dýrari en þær kosta á bilinu 1,5–2,4 milljónir króna auk vsk. Ýmsar greiðslulausnir eru fyrir hendi en seljandinn getur ákveðið hvort hann selur þjónustuna beint, í gegnum greiðslumiðlun á netinu eða hreinlega leyfir viðskiptavinum sínum að hlaða án endurgjalds,“ segir Ólafur Davíð. 
Nú eru um 1.500 rafbílar í landinu og þeim fer ört fjölgandi að sögn forsvarsmanna bílaumboða.

Ólafur Davíð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hleðslu ehf. keyrði í Hornafjörðinn á BMW-rafbíl.
 
Jafn sjálfsagt og þráðlaust net
 
Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, tók þátt í starfi undirbúningshópsins. Hann segir að því sé spáð að rafhleðslustöðvar verði jafn sjálfsögð þjónusta í ferðaþjónustu og þráðlaust net er í dag. 
„Það er mikilvægt að bændur grípi tækifærið og láti til sín taka í rafbílavæðingunni. Með þessu leggjum við okkar af mörkum gagnvart umhverfinu, auk þess sem bændur geta haft af þessu tekjur. Það er líka mikilvægt fyrir byggðirnar að bjóða upp á hleðslu fyrir rafbílaeigendur og ferðamenn því með því móti eru þeir viljugri að ferðast um sveitirnar. Þétt net hleðslustöðva er grundvöllur þess að bílaleigur breyti sínum bílaflota og meðal annars þess vegna hvetjum við fleiri bændur til þess að stökkva á vagninn. Þetta er stórt umhverfismál og hefur sitt að segja við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda,“ segir Tjörvi.
 
Vilja fleiri bændur til samstarfs
 
Í samstarfssamningi sem gerður var við Hleðslu ehf. kemur fram að fyrirtækið sér um sölu og uppsetningu á hleðslulausnunum auk þess að veita bændum ráðgjöf. Samstarfshópur BÍ, Orkuseturs og Hey Iceland mun hins vegar halda utan um tengslanet bændanna sem taka þátt og vinna að markaðssetningu þjónustunnar. 
 
Þeir sem hafa hug á því að kynna sér frekar möguleikana við uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla geta haft samband í netfangið berglind@heyiceland.is og skoðað vef Hleðslu ehf. sem er með slóðina www.hlada.is
 
Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...