Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Kornþurrkstöðin í landi Hrossholts í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Kornþurrkstöðin í landi Hrossholts í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Mynd / Aðsend
Fréttir 23. júní 2023

Bændur kaupa þurrkstöð

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Bændur á fimm bæjum á Vesturlandi hafa í sameiningu keypt kornþurrkstöðina í landi Hrossholts í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Karen Björg Gestsdóttir, kúa- og kornbóndi á Kaldárbakka.

Um öfluga þurrkstöð er að ræða, sem talið er að geti afkastað um 1.200 tonnum árlega. Félagið Yrkjar var fyrri eigandi stöðvarinnar.

Jákvæð umræða um kornrækt var hvatning

Bæirnir sem um ræðir eru Hunda­stapi, Snorrastaðir, Kaldárbakki og Brúarhraun í Borgarbyggð og loks Stakkhamar í Eyja­ og Miklaholtshreppi. Allt eru þetta kúabændur, nema bændurnir á Brúarhrauni, sem voru áður með sauðfé en ætla að hefja kornrækt.

Karen Björg Gestsdóttir, bóndi á Kaldárbakka, segir að skrifað hafi verið undir kaupsamning mánudaginn 12. júní og reiknað sé með að bændurnir taki við stöðinni í ágúst og þurrki þar sitt korn, verði einhver uppskera í haust. „Hér var klaki í jörð lengi vel og síðan mikil vætutíð,“ segir Karen.

„Stöðin hefur verið í einhverri notkun síðustu ár en kornrækt á svæðinu hefur sveiflast aðeins á milli ára. Jákvæð umræða um kornrækt síðustu misserin sem og skýrslan [Bleikir akrar – aðgerðaáætlun um aukna kornrækt] hefur virkað hvetjandi á bændur þrátt fyrir að vorið hafi verið fullt af áskorunum. Bændurnir sem standa að hópnum vildu ekki að hætt yrði að þurrka korn á svæðinu og þar með var tekin ákvörðun um að stofna félag til að kaupa stöðina, sem hafði verið auglýst til sölu nokkru áður,“ bætir hún við.

Einn þurrkari og stór skemma

Í áðurnefndri skýrslu er lagt til að fjárfestingarstuðningur verði í boði fyrir stöðvar og geymslur sem anni að lágmarki 1.000 tonna uppskeru árlega með áætlun um stækkun upp í 2.000 tonn. Karen segir að stöðin í Hrossholti sé full af möguleikum. „Ég held að það sé alveg ljóst að grundvöllurinn fyrir eflingu kornræktar hér á svæðinu og nágrenni felist í því að hægt sé að þurrka kornið. Bændur hér vilja ekki eingöngu sýra kornið og þurrkunin býður upp á fleiri möguleika.

Í stöðinni er einn þurrkari en stór skemma fylgir sem mun auðvelda vinnslu og geymslu á korninu sem kemur þangað til þurrkunar. Ég held að til viðmiðunar sé gert ráð fyrir að það séu 60 dagar á hverju hausti til þurrkunar – sem er reyndar dálítið langur tími til þreskingar ef tekið er mið af veðurfari, þar sem vond veður og úrkoma geta valdið því að stuttur tími gefist. Hins vegar er hægt að þreskja meira í einu og geyma ef kornið er kælt. Það er búnaður í stöðinni nú þegar til kælingar. Í framtíðinni má síðan bæta þar við svo hægt sé að taka á móti meira magni af korni í einu.“

Vinnsla á hálmi

Mikill hugur er í bændunum varðandi möguleika kornræktarinnar – ekki einungis um aukna uppskeru á byggi heldur horfa þeir einnig til Eyfirðinga með vinnslu á hálmi til undirburðar í fjósum sínum. „Þó hann yrði bara nýttur fyrir okkur þá væri það mjög til bóta, en mögulega er hægt að fara í átt að meiri framleiðslu síðar.

Svo viljum við bæta talsvert í okkar ræktun enda er það í takti við alla umræðu á undanförnum misserum og áætlanir stjórnvalda um að styðja vel við greinina á næstu árum. Við viljum taka þátt í þessari auknu innlendu framleiðslu – það er mjög mikilvægt að innlendar kornbirgðir séu hlutfallslega miklu meiri. Við höfum séð það að undanförnu að brugðið getur til beggja vona með aðfangaöryggið. Í stöðinni verður líka hægt að þurrka sáðkorn sem er þó nokkur búbót,“ segir Karen. Hún bætir við að fyrst um sinn verði stöðin ekki rekin sem sérstakt kornsamlag, eins og hugmyndir eru uppi um á Suðurlandi og í Borgarfirði, en hins vegar sé vilji til þess að skoða þau mál og taka þátt í þeirri uppbyggingu síðar. Fyrirtækið sem stofnað hefur verið utan um kaupin heitir Gullkorn þurrkun ehf.

Skylt efni: kornrækt

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...

Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...